London um helgina

Ég er að fara út á laugardaginn. Hef ekki farið til útlanda síðan ég sá Liverpool verða **EVRÓPUMEISTARA** í Istanbúl í maí. Það er auðvitað orðið alltof langt síðan. 🙂

Allavegana, fer til London. Á miðvikudaginn á ég fund í Kettering og sá því fram á að ég myndi ekki mæta í vinnu á þriðjudaginn. Þar sem að vinir mínir eru flestir rólegir um Verslunarmannahelgina, þá fannst mér vera kjörið að nýta ferðina og eyða helginni í London. Pantaði mér því ódýrt hótel nálægt Earl’s Court.

Ætla að reyna að túristast aðeins um London á staði, sem ég hef ekki komið áður. Ætla að fara í [British Museum](http://www.thebritishmuseum.ac.uk/) og eyða allavegna einum degi þar og ætla svo að fara niður til [Stonehenge](http://www.english-heritage.org.uk/stonehenge/). Ætla svo að ryena að hitta systur mína og versla eitthvað.

Veðrið á víst að vera [sæmilegt](http://www.weather.com/activities/travel/businesstraveler/weather/tenday.html?locid=UKXX0085&from=36hr_fcst10DayLink_business). Um 20 stiga hiti og það ætti að sjást til sólar allavegana á mánudag, þannig að ég reyni sennilega að fara til Stonehenge þá.


[Síminn var seldur](http://www.mbl.is/mm/vidskipti/frett.html?nid=1151232;gid=2352) í dag fyrir 67.000.000.000 krónur. Væri ekki best að borga þetta verð beint út til allra Íslendinga? Það myndi þýða að hver lifandi Íslendingur fengi ávísun uppá 230.000 krónur. Einstæð móðir með tvö börn fengi 690.000 krónur. Það væri ekki slæmt.

En nei, auðvitað verður þessu eytt í eitthvað bull. Þarf ekki örugglega meiri pening í landbúnaðarkerfið? Já, eða fleiri jarðgöng útá landi. Það væri líka æði.

Borgin eða vinnan?

Fyrir það fyrsta, þá má ekki taka þessari færslu sem enn einum “mig langar út”© pistli frá mér! Ok? 🙂

Allavegana, ég rakst á einhverjar umræður á netinu um svipað mál. En mig langaði að fá input frá fólki, sem les þessa síðu:

*Hvort myndir þú heldur vilja búa í æðislegri borg og vinna leiðinlega vinnu…*

*eða*

*Búa í leiðinlegri borg í æðislegri vinnu?*

Að því gefnu þá að við tökum út vini og fjölskyldu. Segjum bara að þú ættir að velja milli tveggja borga í Evrópu. Önnur borgin er tiltölulega ljót, með litlu mannlífi og leiðinlegu veðri. Hin borgin er falleg, með iðandi mannlífi og góðu veðri. Þú gætir fengið algjöra draumavinnu í leiðinlegu borginni, en þyrftir að vera í leiðinlegri vinnu í skemmtilegu borginni. Hvort myndir þú velja?

Og einsog ég sagði áður, þá á þetta *ekki* við um mig. En fólk virðist vera tilbúið að flytjast á ótrúlegustu staði fyrir draumavinnuna sína. Langar að heyra hvort þetta sé algengt hjá fólki.

Ströndin

Meðan ég var andvaka í gær gerði ég svosem ýmsa hluti. Ég horfði á Cubs vinna baseball leik í beinni útsendingu frá Chicago og lét mig dreyma um að vera á þriðjudagskvöldi á Wrigley Field, drekkandi bjór og horfandi á baseball.

Kláraði einnig að lesa [The Beach eftir Alex Garland](http://www.amazon.com/exec/obidos/tg/detail/-/1573226521/qid=1122383936/sr=8-1/ref=pd_bbs_sbs_1/102-5988735-5526567?v=glance&s=books&n=507846). Þegar ég [spurðist](http://ask.metafilter.com/mefi/20387) fyrir um bækur tengdar Suð-Austur Asíu, þá var mælt með þessari bók. Ég hafði einhvernt tímann horft á myndina með Leo DiCaprio, en ég gafst uppá þeirri mynd eftir um klukkutíma. Bókin er umtalsvert betri. Samt öðruvísi en ég átti von á. Aðeins rólegri en ég átti von á miðað við allar lýsingarnar.

Þegar ég byrjaði að láta mig dreyma um ferðalög keypti ég fulltaf Suðaustur-Asíu tengdum bókum. Næst á dagskrá er [Lands of Charm and Cruelty : Travels in Southeast Asia](http://www.amazon.com/exec/obidos/tg/detail/-/0679742395/qid=1122384292/sr=8-1/ref=sr_8_xs_ap_i1_xgl14/102-5988735-5526567?v=glance&s=books&n=507846) og svo [The Things they carried](http://www.amazon.com/exec/obidos/tg/detail/-/0767902890/qid=1122384541/sr=8-1/ref=pd_bbs_sbs_1/102-5988735-5526567?v=glance&s=books&n=507846)

Andvaka

Ég get ekki sofnað! Drakk of mikið af kaffinu hjá Jensa og Þórdísi.

Fokk!


Búinn að panta mér flug til London um næstu helgi. Sameina bissness og vonandi ánægju. Fundur næsta miðvikudag, þannig að ég hef laugardag-þriðjudag í London. Ég þarf virkilega á þessu að halda. *Reyna að hreinsa hausinn á mér.* Síðustu vikur og mánuðir hafa verið of skrýtnir, of flóknir. Of mikið vesen.

Er líka búinn að ákveða að fara út í fríið mitt í lok ágúst. Var ekki alveg viss, en er viss núna. Fékk smá bakþanka með að fara til Suð-Austur Asíu. Langar dálítið að fara til Mið-Ameríku. Tala spænsku borða tacos, dansa salsa og reyna við sætar, mexíkóskar stelpur.

Mexíkó eða Tæland? Mið-Ameríka eða Suðaustur-Asía. Ég verð að fara að ákveða mig. Held bara að ég þurfi að fara út sem allra fyrst. Reyna að byrja uppá nýtt. Gera hlutina öðruvísi. Hreinsa hugann. Gleyma öllu hérna heima, setja á mig bakpokann og fara á flakk. Hitta nýtt fólk á hverjum degi. Detta í’ða einhvers staðar þar sem enginn þekkir mig og ég þekki engann. Þar sem ég rekst ekki á neinn. Dansa við ókunnugar stelpur, heimsækja nýja staði. Láta mér leiðast á lestarstöðum og í rútum. Anda að mér mengun í stórborg. Sjá nýja hluti. Verða skotinn í stelpu í nokkra klukkutíma í ókunnugri borg.

Mig langar út….

Helgi á Grundarfirði

Æ mikið var þetta gaman.

Ég var alveg að tapa mér í einhverri fýlu á föstudaginn og var við það að hætta við að fara í útilegu. Guði sé lof fyrir að ég fór. Ég var að koma heim aftur eftir tvo virkilega skemmtilega daga á Grundarfirði með Serrano starfsfólki. Er sólbrunninn (mér líður allavegana einsog ég sé brunninn, þrátt fyrir að ég líti ekki þannig út), með kvef og fáránlega þreyttur. En mikið skemmti ég mér vel.

Á Grundarfirði var bæjarhátíð, sem var nokkuð vel heppnuð. Allur bærinn, og þá meina ég hvert einasta hús, var skreyttur í einum af fjórum litum, en hverfunum var skipt uppí fjóra hópa og var keppt í skemmtiatriðum og skreytingum á milli bæjarhluta. Nokkuð skemmtilegt konsept og það virtust allir bæjarbúar taka þátt í þessu því öll húsin voru skreytt (sjá [lýsingu hjá önnu.is](http://www.anna.is/weblog/arc/004677.html)).

Við komum þarna á föstudagskvöldinu og um leið og við vorum búin að tjalda fórum við í partý í heimahúsi. Eftir það fórum við svo öll á ball með Sálinni. Sem var æðislegt. Veðrið var svo fáránlega gott að fyrir utan félagsheimilið var stappað af fólki. Þannig að bæði fyrir og eftir ballið eyddi ég heillöngum tíma þar fyrir utan og hitti fulltaf skemmtilegu fólki. Inná ballinu var líka frábært.

Laugardeginum eyddi ég í sundi og rölti um bæinn. Í miðbænum voru skemmtiatriði og tívolí ásamt einhverri kraftakeppni. Veðrið var svo frábært að það að vera úti var eiginlega nóg. Hitt skipti ekki jafn miklu máli. Um kvöldið fór ég svo uppí bústað til vinar míns, þar sem ég borðaði kvöldmat og hitti svo allt fólkið. Fórum í bæinn, drukkum og spjölluðum. Kíktum svo í partý og því næst á skemmtistaðina báða. Fíluðum þá ekki alveg nógu vel, þannig að við enduðum kvöldið hjá tjöldunum okkar. Eftir sund og mat keyrðum við svo í bæinn í dag.

Semsagt, virkilega góð helgi. Ég hafði ekki farið í ferð útúr bænum síðan um síðustu verslunarmannahelgi og sú ferð var ferlega róleg, ólík þessari. Ég þurfti á þessu að halda.

Útilega

Ok, ætla að gleyma öllu því sem pirrar mig í dag, því helgin skal vera skemmtileg.

Er á leiðinni í útilegu. Grundartangifjörður er víst áfangastaðurinn. Þar verður gaman. Eða svo vona ég allavegana. Ég er allavegana kominn í stuttbuxur, svo ég er til í fjörið. Góða helgi! 🙂

Varðhald

Halli: [Íslensk heimska](http://www.icomefromreykjavik.com/halli/archives/000282.html)

>Ímyndið ykkur hortugheitin að Íslendingar haldi að þeir geti auðveldlega keypt sér flugmiða, klætt sig í réttu fötin og farið út í heim að berjast fyrir því sem rétt er, og ef þeir lenda í vandræðum þá segja þeir bara “nei, þú skilur ekki, ég er Íslendingur”.

>Þú ert Íslendingur að blanda þér í mál sem kosta líf tuga manna á hverjum degi. Strætóar eru sprengdir í loft upp, túristar skotnir í hnakkann, og konur pyntaðar og þeim nauðgað. Það skiptir engu máli hvort þú flytjir til Spánar að hjálpa Böskum, kaupir þér vélbyssu og felubúning og fljúgir til Írak að berjast á móti íröskum skæruliðum, eða flytjir til Amsterdam og slæst í för með hústökufólki.

Mér langar að skrifa langan pistil um fréttaflutning af þessari stelpu, sem vondu kallarnir handtóku, en ég nenni því ekki í svona góðu veðri. En pistillinn hans Halla er svosem ágætis innlegg.

Tölvuleikir

Ég hef spilað Grand Theft Auto: San Andreas allmörgum sinnum. Í þeim leik hef ég t.a.m.

* Drepið fólk með sveðju
* Drepið hóp af skólakrökkum með handsprengju
* Lamið gamlar konur til óbóta
* Keyrt yfir hóp af túristum á skriðdreka.

Allt þetta og meira var mögulegt í leiknum. Hins vegar þá hefur hann hingað til ekki verið algjörlega bannaður börnum. Leikurinn var einungis bannaður 17 ára og yngri.

Núna hefur hins vegar verið ákveðið að banna leikinn innan 18 ára. Er það vegna þess að það er hægt að drepa gamlar konur með vélsög? Neibbs. [Ástæðan er að núna er hægt að sjá ber kvenmannsbrjóst í leiknum](http://www.usatoday.com/tech/products/games/2005-07-20-gta-sex_x.htm).

Jamm, fólk er fífl.

Trúarbrögð

Er það ekki botninn á bloggi þegar maður setur inn internet könnun?

Jú, ég held það. En fokk it.

Samkvæmt [þessu prófi](http://quizfarm.com/test.php?q_id=10907) þá ætti ég að vera Búddisti. Maður svara spurningum og svo er hverri trú gefið skor. Svona leit þetta út hjá mér:

Buddism: 67%
Islam: 58%
Judaism: 58%
Paganism: 54%
Afnosticism: 54%
Satanism: 54%
Christianity: 46%
Hinduism: 46%
Atheism: 21%

Semsagt, ég ætti að vera Búddisti, Múslimi eða Gyðingur. Í raun allt annað en Kristinn. Ég ætti frekar að vera *djöfladýrkandi* heldur en Kristinn. Það þykir mér magnað. Sá ekki margar spurningar, sem ættu að benda til þessa. En ég vissi svosem að Kristnin myndi koma neðarlega. Hélt að Íslam yrði í fyrsta sæti, en Búddisminn kemur mér svosem ekkert á óvart.

Þegar ég var skiptinemi í Venezuela fyrir nokkrum árum, heimsóttum ég og vinur minn nokkrum sinnum mosku. Aðalástæðan fyrir því var að við nenntum ekki í skóla og moskan var svo nálægt húsinu okkar. Og jú, við vorum forvitnir. Eiginlega fannst mér flestallt, sem kallarnir töluðu um þar, passa nokkuð vel við mínar skoðanir. Reyndar snérust þær umræður líka um flest nema kvenfyrirlitningu og hryðjuverk, sem flestir tengja við Íslam í dag.

En allavegana, er ekki voðalega trendí að vera Búddisti? Ha?