Chuck D, Ulrich og Napster

Á föstudaginn var ég að horfa á Charlie Rose á hinni ágætu stöð PBS. Í þeim þætti var Rose með Chuck D. úr Public Enemy og Lars Ulrich úr Metallica og var umræðuefnið að sjálfsögðu Napster. Þetta Napster mál virðist skipta Lars mjög miklu máli. Hann var mjög heitur í umræðunni og hann og Chuck D. rifust á köflum. Lars benti á það að hann vildi ekki sjá aðdáendur, sem sæktu sér lög á Napster. Auðvitað er ekki mjög gaman að heyra svona komment frá honum en þeir í Metallica mega þó eiga það að ég veit um fá bönd, sem meta aðdándur sína jafnmikils og þeir.

Ég fór á tónleika með þeim í janúar og var það alveg frábær skemmtun. Þeir spiluðu nær stanslaust í 3 klukkutíma og eftir tónleikana eyddu þeir um 15 mínútum, labbandi í kringum sviðið, þakkandi fyrir sig. Það er einnig regla hjá þeim að ef það eru einhverjir, sem bíða fyrir utan tónleikasalinn eftir tónleika, þá tala þeir við þá alla og gefa eiginhandaráritanir. Það eru ekki margar svona stórar hljómsveitir, sem gefa aðdáendunum jafn mikið af sér.