Ég var að lesa grein á heimasíðu Ágústs F. Hún endaði á þessum orðum:
Maðurinn sem lifði í eigin veröld. Maðurinn sem var, einsog bandarískur almenningur, einfaldur.Maður er nefndur… Ronald Reagan.
Það er gaman að sjá að Ágúst Flygering hefur fullkomnan skilning á bandarískum almenningi og á auðvelt með að alhæfa um Bandaríkjamenn.
Annars fer fátt fleira í taugarnar á mér en þegar misfrótt fólk er að fullyrða svona um fólkið, sem býr í sama landi og ég. Ég spyr Ágúst, hvaðan koma fötin þín, hvaðan eru bíómyndirnar, sem þú horfir á eða sjónvarpsefnið. Hvaðan eru vefsíðurnar, sem þú lest eða tölvuleikirnir, sem þú spilar eða tölvuforritin, sem þú notar? Hvernig getur þjóð, sem er svona voðalega einföld haft svona mikil áhrif jafnt á stjórnmálasviðinu, sem og á því menningalega?
Bandaríkin er frábær þjóð. Þjóð, sem laðar að sér gáfaðasta og hæfasta fólk í heiminum. Þar búa margir af hæfustu prófessorum, íþróttamönnum og listamönnum í heimi. Víst er fullt af fólki, sem er ekki ýkja frótt um alheiminn, en taka verður tillit til þess að Bandaríkin er það stórt land að utanríkismál eru ekki jafnmikilvæg fyrir Bandaríkjamenn og Íslendinga.
Það er gott að búa í þessu ágæta landi.