Temptation Island

Þegar ég sendi inn greinina, sem birtist á Hrekkjusvínum hafði ég ekki hugmynd um það að Skjár Einn væri að sýna þessi ósköp heima á Íslandi.

Ég er ekki vanalega á móti bandarísku efni, mér finnst það oftast langbesta sjónvarpsefnið, en ég vil samt sem áður setja spurningamerki við ýmsa þætti, sem t.d. Skjár Einn er að sýna. Þetta eru aðallega þættir, sem meðhöndla og gera grín að bandarískum þjóðmálum, sem koma Íslendingum lítið, sem ekkert við.

Ég skil t.d. ekki af hverju Íslendingar ættu að hlæja að endalausum Jay Leno bröndurum, þar sem hann gerir grín að náðunum Bill Clinton. Þetta eru málefni, sem fá litla athygli í íslenskum fjölmiðlum.

Einnig eru fréttaþættir einsog Dateline og 20/20 afskaplega uppteknir af t.d. ýmsum neytendavandamálum. T.d. sá ég heima einn þátt af Dateline, þar sem var verið að gagnrýna ýmsa skatta, sem koma fram á “long-distance” símareikningum. Þetta er mál, sem ég hef lent í, en ég efast stórlega um að komi nokkrum manni heima á Íslandi við. Hins vegar eru þættir einsog 60 Minutes mun betri, þar sem þar er fjallað um málefni, sem koma öllum við.