Ég og Hildur fórum á sunnudaginn að sjá Sigurrós spila í Park West, sem er í Lincoln Park hverfinu hérna í Chicago. Þessi staður er með skemmtilegri tónlistarstöðum hérna í borg, en hann tekur 750 manns í sæti. Staðurinn var troðfullur enda var uppselt mánuði fyrir tónleikana.
Sigurrós komu á svið um 9 leytið. þeir byrjuðu á frábærri útgáfu af “Ný Batterí”. Jónsi, söngvarinn var hreint ótrúlegur í því lagi, sem og öllum hinum. Reyndar tók hann sér frí í tveimur lögum og Steindór Andersen, sem ég veit ekki hver er, kom og tók einhver lög, sem ég held að séu gömul þjóðlög og var það alveg magnað.
Eftir þrjú lög bættist svo við strengjasveit, sem spilaði með Sigurrós út alla tónleikana. þeir spiluðu í um 90 mínútur á fullum krafti. Það kom mér reyndar á óvart, hversu mikill kraftur var í tónlistinni. Ágætis Byrjun er mjög róleg plata, en sum lögin þróuðust útí mikið og þungt rokk, þá sérstaklega lokalagið. Eftir að þeir hættu var svo klappað stanslaust í fimm mínútur og komu strákarnir aftur á sviðið og hneigðu sig, en tóku engin aukalög.
Það eina, sem olli mér pínkulitlum vonbrigðum var að þeir tóku ekki Ágætis Byrjun, sem er mitt uppáhaldslag með þeim, en lögin sem þeir tóku á tónleikunum voru öll svo mögnuð að það breytti ekki miklu. þessi hljómsveit er hreint ótrúlega góð.