Vinna

Það er allt í rugli varðandi tölvuna mína hérna í vinnunni, þannig að í morgun hef ég fengið borgað fyrir að skoða Wall Street Journal og flakka um netið. Ætli ég noti ekki tækifærið og segi aðeins frá vinnunni minni.

Ég er að vinna hjá fyrirtæki, sem heitir CSTech. Þetta er lítið hugbúnaðarfyrirtæki, sem sérhæfir sig í að hanna lausnir fyrir “supply-chain management” á markaðsefnum fyrir Fortune 500 fyrirtæki. Ég vinn í netdeild fyrirtækisins. Hlutverk mitt er að hanna og endurbæta útlit vefsins. Ég er nokkurn veginn búinn að hanna sjálft útlitið og þegar tölvan mín kemst í lag þá fer ég í það að breyta öllum HTML kóðanum í forritinu, sem er heljarinnar verk, sem mun sennilega taka það sem eftir er sumars.Það að leita sér að vinnu hérna í Bandaríkjunum var mikið ævintýri. Ég sótti um á nokkrum stöðum, en það er frekar erfitt fyrir útlendinga að fá “internship” (eða sumarvinnu) vegna þess að flest fyrirtæki, sem eru að ráða í sumarvinnu hafa í huga að bjóða námsmönnunum vinnu eftir að þeir útskrifast. Þar sem ég er með mjög takmarkað atvinnuleyfi gerir það manni erfiðar fyrir.

En allavegana, þá fór ég í viðtöl hjá nokkrum fyrirtækjum, bæði í gegnum síma og á staðnum. Ég fór m.a. í viðtal hjá Leo Burnett, Shell og var auk þess boðið í viðtal hjá Morningstar, en gat ekki farið því ég var búinn að taka starfinu hjá CSTech. Ég var mjög spenntur fyrir þessari vinnu eftir seinna viðtalið hérna og ákvað að taka starfið. Aðal vandamálið var að þessi vinna er talsvert langt frá íbúðinni minni, þannig að á hverjum morgni þarf ég að keyra í um klukkutíma. En hins vegar vegur það á móti að ég fæ borgað fyrir þessa vinnu, en mörg “internship” eru einmitt óborguð.

Maður er búinn að læra talsvert á þessum tíma, bæði varðandi að sækja um vinnur og maður hefur kynnst ýmsum hliðum á atvinnumarkaðnum. Samkeppnin er gríðarleg, sérstaklega vegna þess að fyrirtækin, sem ég sótti um hjá, auglýstu störfin einungis fyrir Northwestern nemendur. Þannig að flestir, sem sóttu um voru mjög hæfir. Maður er því nokkuð stoltur af því, sem maður hefur náð fram, því það eitt að komast í viðtal er ákveðið hrós því það eru tugir umsækjenda um flestar vinnurnar, sem eru auglýstar í skólanum.