Neytendamarkaður fyrir tölvur

Mjög athyglisverð grein á abcnews.com. Í henni er fjallað um það hversu lítið tölvufyrirtæki græða á því að selja beint til neytenda. Hagnaður tölufyrirtækja í dag byggist fyrst og fremst á sölu til fyrirtækja.

Höfundur greinarinnar spáir því að tvö fyrirtæki muni ráða einkatölvumarkaðinum í framtíðinni, Apple og Sony. Athyglisverð ályktun, en samt ekki eins vitlaus og manni virðist í fyrstu. Stærstu fyrirtækin í einkatölvuiðnaðinum, Compaq, Dell og HP hafa verið að færa sig æ meira inná fyrirtækjasviðið. Talað er um að Compaq hafi í huga að hætta algerlega að framleiða tölvur fyrir heimilin. Gateway, sem framleiðir nær einungis fyrir heimilin, hefur átt í miklum erfiðleikum undanfarið og hafa þeir m.a. verið að loka mörgum “Gateway Country” búðum hér í Bandaríkjunum.

Það er þó ljóst að Apple og Sony þurfa að vinna í því að tengja betur saman tæki einsog lófatölvur við einkatölvuna til að ná góðri stöðu á heimilismarkaðinum. Það er mikið talað um það þessa dagana að Apple hyggist gefa út lófatölvu, en þeir voru einmitt frumkvöðlar á því sviði fyrir nokkrum árum.