Þar sem það er kominn föstudagur er ágætt að segja frá því hvað við Hildur höfum verið að gera síðustu viku, en þetta er búin að vera mjög skemmtileg vika.
Síðasta föstudag fórum við í partí heim til Ryan, Kate og Liv, en þau eru vinir okkar, sem voru að flytja út úr íbúðinni sinni. Þau ákváðu því að halda partí, því leigusalinn gat lítið kvartað eftir að þau voru flutt út. Allavegana var partíið skemmtilegt en það endaði niðrá Northwestern ströndinni þar sem nokkrir ofurhugar fengu sér sundsprett í Michigan vatni.
Á laugardag fórum við Hildur niður á Oak Street Beach, þar sem við lágum í smá tíma og röltum svo niður í Grant Park þar sem Taste of Chicago hátíðin stendur yfir. Þessi hátíð er alger snilld. Yfir hundrað veitingastaðir frá Chicago eru með mat til sölu, allt frá Chicago-style deep-dish pizzum til afrískra hrísgrjóna. Við Hildur löbbuðum á milli staða og smökkuðum alls kyns mat. Allur garðurinn er yfirfullur af fólki og fyrir utan matinn var hægt að hlusta á fullt af tónleikum.
Eftir matinn fórum við svo á tónleika með frönsku sveitinni Air, sem voru haldnir í The Vic. Tónleikarnir voru snilld. Reyndar byrjuðu þeir á því að einhver franskur krakkhaus, Sebastian Tellier framdi einhverja tónlistargjörninga. Hann var þó fljótur að drífa sig í burtu og snillingarnir í Air komu svo fram. Þeir byrjuðu á lögum af nýjustu plötunni og tóku svo lög af þeirri plötu í bland við lög af Moon Safari. Þessir tónleikar voru frábærir og mörg lögin þeirra (einsog Electronic Performers) hljóma jafnvel enn betur “live” heldur en á plötu.
Á 4.júlí var náttúrulega þjóðhátíðardagur Bandaríkjamanna. Við byrjuðum því 3.júlí að fara með nokkrum vinum okkar niður í Grant Park þar sem aðalflugeldasýningin var haldin. Þar var alveg fáránlega mikið af fólki til að fylgjast með dýrðinni og hlusta á sinfoníutónlist í takt við sýninguna. Á sjálfan 4.júlí vorum við Hildur ýkt dugleg og línuskautuðum meðfram vatninu alveg frá Belmont niður í Grant Park, sem er um 2 klukkutíma ferð. Í Grant Park horfðum við á tónleika með Wilco, sem voru nokkuð góðir og svo fengum við okkur fullt gott að borða.