Dagurinn í gær var alveg einsog bestu sunnudagar eiga að vera. Ég vaknaði klukkan 10 og fór að horfa á Liverpool – Manchester United, þar sem Liverpool yfirspiluðu United algjörlega og unnu glæsilegan sigur 3-1.
Síðan um eftirmiðdaginn horfði ég á mitt fótboltalið, Chicago Bears vinna Cleveland Browns í ótrúlegum leik. Staðan var 21-7 fyrir Cleveland þegar um þrjár mínútur voru eftir. Ég var því búinn að gefast upp og skipti um stöð. Nokkru síðar hringdi hins vegar einn vinur minn í mig og sagði mér að stilla á CBS. Og viti menn, Bears höfðu jafnað leikinn á síðustu sekúndunni. Bears unnu svo á ótrúlegan hátt í framlengingunni.
Um kvöldið var svo sjöundi leikurinn í World Series, úrslitaleiknum í hafnabolta. Mitt lið Cubs, datt út fyrir nokkru, þannig að eina von mín var að liðið, sem ég hata, New York Yankees myndi tapa. Og viti menn, Arizona Diamondbacks unnu leikinn á ótrúlegan hátt. Þeir voru undir 2-1 í síðustu lotunni og Mariano Rivera, sem er sennilega besti “relief” kastari allra tíma, var að kasta, en á ótrúlegan hátt tókst Rivera að klúðra málunum og tveir gamlir Cubs leikmenn, Grace og Gonzales tryggðu Arizona sigurinn.
Svona eiga sunnudagar að vera. Þrír leikir þar sem mín lið vinna.