Vitlausir Íslendingar Ég á varla

Ég á varla orð yfir þessari hræðslu Íslendinga við Anthrax. Hér í Bandaríkjunum, sem er nota bene EINA landið, þar sem anthrax hefur fundist undanfarið, er nær hætt að fjalla um þessi mál í fréttum.

Einu tilvikin, sem hafa sannast hafa verið árásir á fréttastofur og ríkisbyggingar hér í Bandaríkjunum. Því spyr ég, af hverju í ósköpunum heldur fólk að Ísland sé næsta skotmark???

Til dæmis er núna frétt á forsíðu mbl.is um hjón í HAFNARFIRÐI

, sem halda að þau séu með Anthrax. Einnig sá ég að póstmiðstöð Íslandspóst hefði verið lokað í meira en sólarhring vegna ótta við sýkingu. Þetta er ótrúlegt.

Á innlendum fréttum eru, þegar þetta er skrifað, eftirfarandi fyrirsagnir:

  • Hjón hljóta fyrirbyggjandi lyfjameðferð gegn miltisbrandi
  • Eiturefnasveit kölluð að íbúðablokk í Hafnarfirði
  • Engin póstdreifing á morgun hjá Íslandspósti
  • Duft sem fannst í bögglapósti til rannsóknar
  • Torkennilegt duft í bögglapósti
  • Duftbréf barst í hús við Sléttuveg
  • 13 starfsmenn Íslandspósts sendir í læknisrannsókn vegna duftsbréfs
  • Enginn miltisbrandur í dufti frá Landsbanka Íslands
  • Niðurstaða rannsóknar á dufti úr Landsbankanum liggi fyrir í dag
  • 10 starfsmenn Landsbankans í lyfjameðferð gegn miltisbrandi
  • Engar sérstakar varúðarráðstafanir vegna jólapósts
  • Bréf með hvítu dufti flutt á rannsóknarstofu
  • Húsi Landsbankans lokað vegna torkennilegs bréfs

Þetta gera þrettán (já 13) fréttir. Sú elsta er frá því klukkan 16, 6.nóv og sú nýjasta kl 21, 7. nóvember. Þannig að á rétt rúmum sólarhring eru þrettán fréttir um miltisbrand á Morgunblaðinu.

Íslendingar eru alltaf að gera grín að Bandaríkjamönnum og hvernig þeir bregðast við hinum ýmsu hlutum. Ég held samt að bæði fjölmiðlar og almenningur hér í Bandaríkjunum hafi tekið á þessum hlutum með mun meiri ró og skynsemi heldur en á Íslandi.