Skemmtilegt að núna, þegar ég er að læra undir miðsvetrarpróf í hagfræði, skuli fullt af fólki vera að skrifa á netinu um hvað hagfræðin sé nú skemmtileg og áhugaverð. Sjá: Björgvin, Már, Bjarni.
Ég gleymi því oft, svona rétt fyrir próf, að hagfræðin er mjög skemmtileg. Oft þegar ég er búinn að vera að rýna of lengi í formúlur og módel þá á ég til að bölva sjálfum mér fyrir að hafa valið þetta fag. Það var reyndar tilviljun að ég valdi hagfræðina sem aðalfag. Ég man að í 6. bekk leiddist mér oft í hagfræðitímum, en þegar leið að stúdentsprófi fannst mér allt í einu (mínum vinum og kærustu til mikillar furðu) Wonnacott & Wonnacott hagfræðibókin mín alveg ofsalega spennandi. Það var einsog það opnaðist nýr heimur, þótt það hafi aðeins verið í nokkrar vikur.
Ég á oft auðvelt með að gleyma því hversu skemmtileg og spennandi hagfræðin er, en það rifjast snögglega upp fyrir mér þegar ég er t.d. að tala við prófessorarna mína eftir fyrirlestra eða þegar ég les um eitthvað nýtt og spennandi.
Ég er afskaplega sammála því, sem Björgvin (hafnabolta unnandi) segir í síðasta pistli sínum. Því miður eru alltof margir, sem kjósa að tala hátt um hin ýmsu málefni hagfræðinnar án þess að hafa nokkurt vit á þeim hlutum, sem liggja þar að baki. Kannski er hagfræðin bara ekki nógu heillandi fræðigrein fyrir almenning. Björgvin bendir réttilega á að það þurfi fleiri hagfræðibækur fyrir almenning, sem tengi saman hagfræðihugtök og daglegt líf.