Athygilsverðar pælingar á netinu um gildi háskólanáms og mun á ýmsum fögum, aðallega verkfræði og heimspeki.
Bestu innleggin í þessa umræðu er sennilega að finna hér og hér.
Björgvin tekur einmitt svipað á málunum einsog bandarískir háskólar. Flestir betri háskólar hér í landi leggja nefnilega áherslu á að háskólanám (undergraduate) sé í raun aðeins undirbúningur fyrir frekara framhaldsnám. Ég er t.a.m. að læra hagfræði en samt dettur mér ekki í hug að stökkva uppí flugvél og fljúga til New Jersey og fara að stinga ofan í Paul Krugman eftir mitt fjögurra ára nám.
Allt frá því fólk byrjar nám við háskóla í Bandaríkjunum er það hvatt til að taka sér tíma í að velja sér fag. T.a.m. fyrsta árið í mínum skóla þurfa allir að taka tvö fög úr sex hópum. Þannig þurfti ég að taka tvo bókmenntatíma, tvo raungreinatíma, tvo heimspekitíma o.s.frv. Þetta er allt gert til þess að fólk kynnist öllum hliðum námsins og sé betur undirbúið að taka ákvörðun um það hvað það vilji læra. Ég held að þessi aðferð sé nokkuð sniðugri en íslenska aðferðin, þar sem fólk þarf flest að ákveða í byrjun náms hvað það vilji gera.
Ég tel að öllum sé hollt að læra greinar, sem það hefur kannski ekki brennandi áhuga á. Ég tel að það víkki sjóndeildarhringinn og það kemur einnig (að nokkru leyti) í veg fyrir meting á milli fræðigreina. Ég fékk til að mynda á þessu fræðigreinaflakki mínu að lesa Suður-Amerískar bókmenntir, fræðast um sögu Rússlands, lesa um tengsl trúar og þýskra bókmennta, lesa Nietzche og Plato, lauk þess sem ég lærði stærðfræði og hagfræði.
Ég tel það nauðsynlegt að það ríki viss virðing á milli háskólanema. Allur metingur er, að mínu mati, neikvæður. Það er slæmt að gera lítið úr fólki, sem stundar nám við háskóla, sem eru kannski að einhverra mati lægra skrifaðir. Ég reyni einnig að gera ekki lítið úr þeim vinum mínum, sem eru að læra kvikmyndagerð við skólann (þó ég öfundi þá svolítið af heimavinnunni).
Ég komst að því að það er fjandi erfitt að fá A í rússneskum bókmenntum. Jafnvel erfiðara en að fá A í verstu hagfræðitímunum. Þeir, sem eru að læra bókmenntir við skólann minn eiga kannski ekki jafn auðvelt með að finna vinnu eftir nám og þeir, sem eru í hagfræði- eða verkfræðideildinni, en þeir eru svo sannlarlega ekki búnir að sóa tímanum sínum hér. Málið snýst nefnilega ekki bara um að læra eitthvað, sem kemur þér beint að gagni á vinnumarkaðnum, heldur margt fleira. Mörg fög kenna manni að hugsa gagnrýnið. Stærðfræði kennir manni að leysa vandamál. Ég efast t.a.m. um að ég muni nokkurn tímann nota þekkingu mína á Black-Scholes formúlinni og hvernig á að sanna hana frá sjónarhorni stærðfræðinnar, en ég tel samt að ég hafi lært margt.
Háskólanám er nefnilega ekki bara leið til að fá betri vinnu.