Ja hérna, Múrinn bara svaraði greininni minni. Þessu bjóst ég nú ekki við. Þeir hefðu þó mátt tengja á síðuna mína, því þá hefði ég ábyggilega fengið fullt af heimsóknum. Sjá greinar
- Alþjóðavæðing fyrir byrjendur eftir Stefán Pálsson
- Alþjóðavæðing fyrir lengra komna svar mitt við greininni á Múrnum
- Alþjóðavæðing fyrir spekinga svar Múrsins við grein minni, eftir Steinþór Heiðarsson
Steinþór svarar svari mínu í dag. Tititilinn var framhald af hinum tveim. Nú er þessi umræða sem sagt komin á plan spekinga. Ég er hálf hræddur við að svara slíku, enda tel ég mig ekki vera neinn speking á sviði alþjóðaviðskipta.
Steinþór svarar aðallega greininni minni með að halda því fram að alþjóðleg fyrirtæki hafi oft notið góðs af ISI stefnunni. Þetta er hárrétt hjá honum. Málið var að þessi fyrirtæki höfðu mörg sett upp starfsemi áður en ISI stefnan var stett á laggirnar. Þegar þessi verndarstefna var svo sett upp reyndu fyrirtæki náttúrulega að njóta góðs af þessari stefnu. Það er eðlilegt að fyrirtæki reyni að hámarka hagnað sinn.
Ég sé í raun ekki hverju það breytir að alþjóðleg fyrirtæki hafi notið góðs af þessari stefnu. Það, sem eftir stendur er að stefnan var röng og afleiðingar hennar voru slæmar. Þrátt fyrir að sum erlend fyrirtæki hafi hagnast á verndarstefnunni og hagfræðingar á vegum Sameinuðu Þjóðanna mælt með henni, þá er ekki hægt að horfa framhjá því að ríkisstjórnir viðkomandi landa komu á verndarstefnunni. Hagfræðingar, jafnvel þótt þeir séu bandarískir, hafa ekki alltaf rétt fyrir sér.
Það fríar hins vegar engan veginn ríkisstjórnir viðkomandi landa frá ábyrgð við stefnumörkun í efnahagsmálum. Því stend ég við það að þjóðirnar í Suður-Ameríku hafi af flestu leyti komið sér sjálf í vandræði. Jafnvel þótt þessi lönd hafi verið gríðarlega rík af náttúruauðlindum (t.d. olíu) þá tókst stjórnmálamönnum að klúðra flestu varðandi efnahagsmál. Þeir klúðruðu þessum efnahagsmálum án aðstoðar frá alþjóða gjaldeyrissjóðnum.
Steinþór nefnir fræga dæmið um brasilísku bleijurnar, sem Johnson&Johnson framleiddu. Hann segir réttilega frá því hvernig gæði brasilískra bleija voru mun lægri heldur en bleija í öðrum löndum. Þetta var fyrst og fremst vegna þess að brasilísku bleiju iðnaðurinn var verndaður af brasilísku ríkisstjórninni.
Þarna rekst Steinþór (kannski af tilviljun) á ein helstu rökin fyrir frjálsri samkeppni og sjálfri alþjóðavæðingunni. Málið var að undir ISI var markaðurinn fyrir Johnson&Johnson bleijur í Brasilíu verndaður. Johnson & Johnson hefði getað reynt að flytja út vörurnar og þar með notað framleiðsluaukninguna til að hagræða. Hins vegar hafði verndastefnan gert vörur Johnson & Johnson, sem og annarra fyrirtækja í Brasilíu, ósamkeppnisfærar. Árið 1990 var gerð könnun á 220 fyrirtækjum í Sao Paulo og sýndi hún að flest fyrirtækin voru allt að hundrað sinnum óhagkvæmari í framleiðsluferlinu en nauðsynlegt hefði verið til að geta keppt á heimsmarkaði (sjá The Silent Revolution eftir Duncan Greeen bls.14).
Þannig að ríkisverndin og ríkisstyrkirnir höfðu dregið algerlega úr samkeppnishæfni fyrirtækjanna. Þegar markaðir voru svo opnaðir voru fyrirtæki ófær um að keppa.
Hins vegar má deila um það hvort að alþjóða gjaldeyrissjóðurinn hafi brugðist rétt við eftir skuldakreppuna 1982. Ólafur Bjarki vitnar einmitt í grein í The Economist, sem ég ætlaði að vitna í (hún heitir því viðeigandi nafni Blame Game)
The IMF is always in a dilemma in such crises. If it provides help to a country whose policies are insufficient, in the Fund’s view, to stabilise the economy, it is failing its duty to member governments and, ultimately, the taxpayers around the world who underwrite its resources. But if it withholds support, it risks driving the economy into an even deeper slump, for which it will surely get the blame. The Fund is in a no-win situation.
Málið er að tæki IMF hafa ekki alltaf virkað. Ef þau hafa virkað þá hefur sjóðurinn verið gagnrýndur fyrir tímabundin slæm áhrif, sem umbæturnar hafa valdið. Staðreyndin er einfaldlega sú að ekki er hægt að ætlast til að sjóðurinn komi inn og umbreyti þjóðfélaginu til hins betra án allra fórna. Það hefur hins vegar sýnt sig að alþjóðavæðing er það kerfi, sem hefur reynst flestum þjóðum best. Þrátt fyrir það hafa vissar þjóðir í þróunarlöndunum átt erfitt með að aðlaga sig að nýrri heimsmynd og alþjóðavæðingunni.
Kannski er það réttmæt gagnrýni hjá ýmsum andstæðingar alþjóðavæðingar að IMF leggi alltaf til sömu lausnirnar. Hins vegar hafa þessar lausnir virkað vel fyrir vesturlönd og menn hafa ekki ennþá fundið aðrar lausnir, sem virka betur fyrir þróunarlöndin.
Öruggt er þó að lausin fyrir þessi lönd er alls ekki að loka sig af og hafna alþjóðavæðingunni.