Af einhverjum yfirnáttúrulegum ástæðum, þá fékk ég í fyrsta skipti frí í skóla í gær en þá var Memorial Day, þar sem bandaríkjamenn minnast fallinna hermanna. Þetta er einmitt í fyrsta skipti í þau þrjú ár, sem ég hef stundað nám hér, að ég fæ frí.
Það var svo sem ágætt að fá einn auka frídag, þar sem ég er að klára viðskiptaplan fyrir einn tíma, sem ég á að skila á morgun.
Annars var Dillo Day á laugardaginn, en það er aðal partídagur Northwestern nemenda. Þá reyna nemendur að gleyma því að þeir eru flestallir nördar og reyna að skemmta sér einsog fólk í stóru ríksskólunum hér í kring. Allavegana, þá byrjaði dagurinn um klukkan 11 er við Hildur fórum heim til Dan vinar míns. Íbúðin hans var í rúst eftir partí, sem herbergisfélagi hans hafði haldið daginn áður, þannig að hann var feginn að komast út. Við skelltum okkur því heim til Eddy, vinar Dan. Þar var boðið uppá bjór og kleinuhringi, sem er uppáhaldsfæða Homer Simpson. Við áttum hins vegar erfitt með að þola tónlistina, sem var full há og leiðinleg fyrir okkar smekk.
Við kusum því að fara eftir smá stund. Við fórum því heim til þriggja vinkvenna okkar, þar sem við fengum okkur nokkra bjóra. Eftir það löbbuðum við uppí Patten íþróttahúsið, þar sem voru tónleikar í gangi. Þegar við komum var hljómsveitin Dismemberment Plan að spila. Þetta var alveg hreint afbragðsgóð hljómsveit, sem kom mér skemmtilega á óvart. Hörku rokk!
Eftir að ég var búinn að tapa heyrn á vinstra eyra ákváðum við að koma okkur. Við hittum fyrir utan Ryan vin okkar og fórum við með honum, Kate, Elizabeth, Kristinu og Dan í eitthvað partí, sem var rétthjá campus. Þar entumst við hins vegar ekki lengi, þar sem við Dan vildum fara að horfa á körfubolta, því Boston Celtics voru í sjónvarpinu. Leikurinn leit reyndar hræðilega út, þar sem Boston voru strax 20 stigum undir, þannig að ég ákvað að skella mér heim og leggja mig.
Hildur vakti mig um klukkan 8 en þá var Katie í símanum og vildi hún endilega fá mig aftur á tónleikana. Hildur var á leiðinni í partí með vinum úr sínum skóla, þannig að ég fór einn og hitti Katie, Kristinu og Elizabeth og við röltum uppí Patten. Þar voru Béla Fleck and the Flecktones að spila. Þeir félagar eru sennilega þekktastir á Íslandi fyrir Sinister Minister, sem var aðallagið í morgunþætti Eiríks Jónssonar, sem var einu sinni á Bylgjunni. Allavegana, þetta er mikið djamm band og var góð stemning.
Eftir tónleikana fór ég heim til stelpnanna, þar sem við vorum að skemmta okkur ásamt fullt af fólki fram eftir morgni.