Í dag er víst fjórði júlí hér í bandaríkjunum, sem og annars staðar. Ég tek náttúrulega þátt í fagnaðarlátunum enda eru Bandaríkin hið besta land.
Í gær var árleg flugeldasýning í Grant Park í Chicago. Ávallt í kringum fjórða júlí stendur yfir Taste of Chicago, sem er mikil hátíð, sem er haldin í garðinum, þar sem tugir veitingastaða úr borginni setja upp bása og bandaríkjamenn gera það, sem þeim þykir skemmtilegast, að borða óhollan mat.
Allavegana, þá fór ég með Elizabeth, Kate, Katie, Kristinu og Dan niðrí Grant Park í gær. Við byrjuðum á því að flakka á milli tjalda og smakka alls kyns góðan mat. Um níu leytið fórum við svo niður að Lake Michigan, þar sem flugeldasýningin var. Hérna var mikið talað um það að menn ættu von á árásum á fjórða júlí samkomur og því voru sennilega einhverjir, sem héldu sig heima. Það kom mér þó á óvart að það virtist vera alveg jafn margt fólk og í fyrra. Blöðin segja að um 800.000 manns hafi verið við sýninguna, sem verður að teljast nokkuð gott.
Eftir sýninguna fórum við svo uppað Loyola campusnum, þar sem við fórum í partí til vinkonu Elizabeth. Þar var náttúrulega bjór og léleg tónlist, einsog tíðkast í partíjum hér, en samt mjög gaman.
Í dag er ég svo að fara í grillveislu, þar sem ég hyggst drekka bjór og borða hamborgara að hætti innfæddra.