Jerzy, Jerzy, Jerzy

6577.jpgNúna er ég nokkurn veginn búinn að jafna mig eftir tapið á sunnudag fyrir Manchester United. Það var svo langt síðan Liverpool tapaði fyrir United að ég var búinn að gleyma hvernig tilfinningin væri, en hún er slæm.

Það versta við þetta er einna helst að einn af fjórum bestu Liverpool leikmönnunum, Jerzy Dudek (hinir eru Hyppia, Hamann og Owen) gaf United sigurinn. Dudek er allt í einu búinn að læra hvernig á að gera mistök. Ég var sannfærður eftir síðasta keppnistímabil að hann væri hinn fullkomni markvörður, því hann gerði aldrei mistök. Svo spilaði hann með þessu glataða pólska landsliði á HM og eftir það virðist sjálfstraustið ekki vera eins gott og áður. Núna er Dudek alltíeinu búinn að klúðra fjórum leikjum fyrir Liverpool. Hefði hann leikið einsog hann best getur síðasta mánuð, þá væru Liverpool á toppnum í ensku deildinni og ennþá í Meistaradeildinni.

Það er ljóst að honum er enginn greiði gerður með því að láta hann halda sæti sínu í liðinu. Þess vegna er sennilega best að láta Chris Kirkland taka sæti hans næstu vikurnar. Ég hef þó ennþá það mikla trú á Dudek að ég trúi því að hann muni aftur endurheimta sætið sitt í Liverpool liðinu (nema Kirkland sé eins góður og margir telja hann vera), því Dudek er á besta aldri fyrir markmann.

Einna leiðinlegast við þetta allt er að nú er Sander Westerveld farinn að tjá sig eitthvað og segir að þetta sé allt Houllier að kenna og líkir ástandi sínu við það, sem Dudek er í núna. Þetta er náttúrulega bara rugl. Þrátt fyrir að Westerveld sé góður markmaður og ég hafi haldið uppá hann, þegar hann var hjá Liverpool, þá er Dudek einfaldlega miklu betri markmaður. Þessu blaðri Westerveld er svarað vel í pistli á heimasíðu Liverpool, sem heitir því skemmtilega nafni: “Shut Up Sander!”

One thought on “Jerzy, Jerzy, Jerzy”

  1. Tha er thad komid a hreint ad McDonalds afrek thitt verdur ekki leikid eftir. McDonalds er ad yfirgefa Boliviu og hyggja their ekki a endurkomu. Til hamingju!

Comments are closed.