Ja hérna, ég held að Sigurður Kári sé að breytast í minn uppáhaldsstjórnmálamann. Það er allavegana alveg ótrúlega gaman að horfa á hann í sjónvarpi. Hann virðist vera gjörsamlega ófær um að beita rökum og virðist mæta í sjónvarp í þeim eina tilgangi að verja stjórn Sjálfstæðisflokksins með öllum mögulegum ráðum.
Á Stöð 2 áðan tók hann meðal annars að sér að gera lítið úr þeim hörmungum, sem Agusto Pinochet olli með mannréttindabrotum sínum. Flosi Eiríksson, Samfylkingarmaður bar saman stjórn Saddam Hussein og Agusto Pinochet, þegar var verið að tala um stríðsáætlanir Bandaríkjamanna. Þar þuldi Flosi upp að Pinochet hefði látið pynta samlanda sína og að þúsundir manna hafi horfið. Sigurði Kára fannst þetta bara sniðugt og það eina, sem hann gerði var að hlæja alveg þangað til að þáttastjórnendur breyttu um umræðuefni og fóru að tala um handbolta.
Annars var annað, sem fór í taugarnar á mér í þessum þætti. Það var að Flosi beitti einhverjum meingölluðustu rökum gegn stríðinu í Írak. Það eru sú rök að það séu voðalega margir aðrir einræðisherrar í þessum heimi, sem Bandaríkjamenn gera ekkert gegn og þess vegna ættu Bandaríkjamenn ekki að ráðast á Írak. Þetta er náttúrulega algjört bull. Þetta er einsog að segja að lögreglan ætti ekki að handtaka morðingja vegna þess að það séu svo margir aðrir morðingjar, sem gangi lausir.
Það er líka eitt, sem vantar algjörlega inní málflutning friðarsinna. Það er, hvað við á Vesturlöndum getum gert til að hjálpa fólki í Írak? Er það ekki skylda okkar að hjálpa þessu vesalings fólki, sem á svo sannarlega ekki skilið illmenni einsog Saddam Hussein yfir sér. Vilja friðarsinnar bara að við látum sem ekkert sé, svo Saddam geti haldið áfram að kvelja landa sína? Hverjar eru tillögur þeirra?
Tja við getum spurt Bandaríkjamenn hví þeir ákváðu að styðja við bakið á Saddam þó að þeir vissu fullvel af grimmdarverkum hans á eigin þjóð
Ætli Írakar hafi bara ekki átt það skilið þá??
Við getum líka aflétt viðskiptabanninu og hætt að gera daglegar loftárásir á landið.
Ef fólk fær nóg að borða og getur aflað sér menntunar á það eftir að laga hjá sér stjórnarfarið. Íran var á góðri leið þangað til Bush fór að spyrða þeim saman við “öxul hins illa”.
Það lagast ekkert á einni nóttu.
Já, já, það er auðveld lausn að aflétta viðskiptabanninu. Ég er hlynntur því að banninu sé aflétt, einsog ég talaði um hér.
Ef viðskiptabanninu er hins vegar aflétt og Bandaríkin ráðast ekki á Írak, þá erum við í rauninni bara að láta Saddam Hussein í friði (nema fólk hafi einhverjar aðrar tillögur). Ef ekkert er þrýst á hann með hótunum um valdbeitingu, þá mun hann halda áfram að misþyrma þegnum sínum.
Og þessi útópíuhugsjón um að þegar fólkið fái að borða, þá hljóti það að rísa gegn Saddam Hussein, er afskaplega hæpin. Þessi maður hefur beitt efnavopnum á sína eigin þegna og fólk veit ósköp vel að ef það reynir að rísa gegn honum, þá á það ekki von á góðu. Það verður að koma utanaðkomandi hjálp. Við getum ekki bara staðið hjá og beðið eftir því að Írakar steypi Hussein af stóli.
Eina landið, sem virðist vilja gera eitthvað í málinu er Bandaríkin.
Og það þýðir ekki endalaust að vera að tala um hverja Bandaríkin studdu fyrir 20 árum. Heimurinn hefur breyst! Bandaríkjamenn hugsa auðvitað fyrst og fremst um sína eigin hagsmuni. Einsog reyndar allar þjóðir heims. Þjóðverjar eða Frakkar eru ekkert betri, þótt leiðtogar þeirra landa breytist í friðarsinna þegar þeir þurfa á atkvæðum að halda.
Er málið bara það að koma Saddam frá af því að hann er svo vondur við eigin þegna? Nei, aldeilis ekki. þá ætti að vera löngu búið að því. Þetta snýst bara um olíu og ekkert annað. Nú eru Bandaríkjamenn komnir í stríð í Kólumbíu til að verja einhverja olíuleiðslu því byrgðastaðan er víst ekkert alltof góð eftir að allt fór í rugl í Venesúela. Það þarf ekki að reyna að telja manni trú um það að Bandaríkjamenn séu að fara í stríð í Írak bara af því að Saddam sé svo vondur við “sitt fólk”. Það er ekki hann sem er “heimsins versti leðtogi”, heldur George W. Bush!