Fujimori

Þrátt fyrir að ég sé alltaf að gagnrýna Múrinn á þessari síðu þá hef ég alltaf lúmskt gaman af því að fylgjast með þeim félögum. Einna skemmtilegast er að þeim er annt um stjórnmál í löndum, sem fá litla sem enga umfjöllun hér á Íslandi.

Síðast voru þeir að fjalla um Alberto Fujimori, fyrrverandi forseta Perú. Nú hefur Perústjórn gefið út ósk um að hann verði framseldur. Japanir virðast hins vegar ekki ætla að verða við því. Fujimori er afkomandi japanskra innflytjenda í Perú og hann býr nú í Japan.

Fujimori er ansi merkilegur karakter og ég hef löngum haft mikinn áhuga á honum. Allt byrjaði þetta þegar ég var skiptinemi Í Venezuela árin 1995-1996. Þar bjó ég hjá perúskri fjölskyldu. Þau höfðu flutt frá Perú vegna stöðugs ófriðar þar í landi, sem var aðallega tilkominn vegna hryðjuverkasamtakanna Sendero Luminoso. Fjölskyldan mín ákvað að fara til Venezuela til að komast í friðsælla umhverfi. Snillingurinn Hugo Chavez hefur reyndar séð til þess að sá draumur hefur orðið að martröð síðustu ár.

Allavegana, þá var fósturpabbi minn í Venezuela gríðarlegur aðdáandi Fujimori. Hann dýrkaði hann fyrir það afrek að hafa tekist að uppræta samtök hins Skínandi Stígs. Fujimori tókst með því að gera Perú talsvert öruggara land. Síðla árs 1995 kom Fujimori svo í opinbera heimsókn til Venezuela. Þar sem við vinirnir vorum hættir að mæta í skóla á þeim tíma ákváðum ég og Erik frá Noregi að hitta Fujimori og spjalla aðeins við hann. Við redduðum mynd af honum og ætluðum að fá hann til að gefa okkur eiginhandaráritun enda taldi ég, eftir allar lofræðurnar frá fósturpabba, að Fujimori væri mikill öðlingur.

Leitin að Fujimori

Við Erik röltum því uppað forsetahöllinni í Caracas, þar sem við spurðum verði hvort við mættum ekki heilsa uppá Fujimori. Þeir sögðu okkur að við mættum ekki fara inn fyrir hliðið en bentu okkur á að Alberto myndi fara seinna um daginn í perúska sendiráðið. Við fórum þangað en þar var ekkert í gangi, svo við fórum aftur uppað höllinni og spjölluðum við hina vingjarnlegu verði. Meðan einn þeirra var að tala við okkur kom annar yfirmaður og sagði okkur að drífa okkur inní varðarkofann því að Caldera (forseti Venezuela) væri að koma í bílalest að höllinni. Við drifum okkur því inn og héldum áfram að spjalla við verðina.

Einn þeirra sagði okkur svo að við ættum að bíða hinum megin við götuna eftir Fujimori. Við fórum því yfir og þegar við vorum komnir þangað ákvað ég að smella einni mynd af forsetahöllinni. Þá varð alltíeinu allt brjálað og einhver hermaður kom hrópandi að okkur. Hann hrifsaði myndavélina af mér og sagði okkur að koma inn í einhvern skúr. Þar ásökuðu þeir okkur um njósnir og sögðu að við værum handteknir. Þeir leituðu svo í skólatöskunum okkar. Þeir spurðu okkur fulltaf spurningum og skoðuðu vegabréfin okkar. Eftir smá yfirheyrslu kom yfirmaður þeirra inn en hann ákvað að sleppa okkur eftir smá yfirheyrslu. Þeir báðu okkur þó vinsamlega um að koma aldrei aftur nálægt forsetahöllinni.

Við tókum því lest að einhverjum útimarkaði, þar sem Fujimori átti að vera. Við vorum með perúska fánann og vorum voða spenntir. Svo þegar Fujimori keyrði framhjá okkur veifuðum við perúska fánanum einsog óðir menn, og viti menn, Fujimori veifaði vingjarnlega tilbaka. Þá vorum við sko glaðir.

Reyndar komst ég síðar að því að Fujimori er ekki alveg eins góður kall og ég hélt. En þetta var samt skemmtilegur dagur.

3 thoughts on “Fujimori”

  1. Það er náttúrulega FÁRÁNLEGT að maðurinn skuli hafa fengið að búa (tiltölulega) óáreittur í Japan í rúm tvö ár. Ætti að vera búið að framselja hann fyrir löngu síðan.

    Hvernig Vladimiro Montesinos ætlaði að sleppa var samt flottara, maður hélt að lýtaaðgerðir væri bara notaðar til að komast undan í njósnamyndum.

  2. Ég man að þegar ég var í Mexíkó, þá lést einn aðal forsprakki Juarez eiturlyfjahringsins, Amado Carillo Fuente. Hann dó í miðri lýtaaðgerð en hann hafði ætlað að breyta andlitinu algjörlega.

    Lækrnarnir, sem gerðu á honum aðgerðina voru allir drepnir innan nokkurra vikna. Ég man að í einhverju sorpblaði, sem ég sá á blaðstandi í Mexíkóborg var mynd af Fuente, dauðum. Andlitið á honum var hálfklárað eftir aðgerðina. Það var alveg hrikaleg sjón.

Comments are closed.