Hvernig má bjarga Liverpool

Af því að ég elska Liverpool heitar en nokkuð annað íþróttalið þá get ég ekki lengur þolað það að liðinu sé stjórnað af óhæfum Frakka, sem gefur leikmönnum, sem ættu aldrei að spila fyrir Liverpool, endalaus tækifæri.

Liverpool liðið er núna í 7. sæti, 31 stigi á eftir Arsenal, þegar að það er aðeins búið að spila 28 leiki í deildinni. Þessi munur er svo skuggalegur að það er ekki einu sinni fyndið. Liðið er ófært um að afgreiða lakari lið, einsog sást vel í leiknum gegn Southampton í dag.

Hér eru mínar tillögur um það hvernig hugsanlega sé hægt sé að bjarga þessu liði fyrir næstu leiktíð.

  1. Skipta um þjálfara: Þetta er auðvitað fyrsta skrefið. Houllier er fyrir löngu búinn að gleyma því hvernig á að stjórna knattspyrnuliði. Kallinn er ófær um að taka réttar ákvarðanir. Hann gefur handónýtum leikmönnum einsog Biscan, Cheyrou og Heskey endalaus tækifæri en hefur selt frábæra menn einsog Anelka og Litmanen. Þeir leikmenn, sem dirfast að gagnrýna eitthvað eru svo seldir umsvifalaust.

    Einnig sýnir Houllier aðdáendum Liverpool ávallt mikla óvirðingu. Hann gefur í skyn að einu alvöru aðdáendurir séu þeir, sem mæta á Anfield í hverri viku. Hann gefur í skyn að allir þeir aðdáendur, sem gagnrýni hann, séu í raun að gagnrýna “Liverpool” og séu því ekki alvöru aðdáendur.

    Houllier hefur dregið kraft úr þeim skapandi leikmönnum, sem hafa komið til Liverpool. Hann virðist vera alveg úr takt við leikinn og er bæði liðsval hans og innáskiptingar nánast óskiljanlegar. Endalausar afsakanir hans eru löngu búnar að gera alla aðdáendur liðsins hálf geðveika.

    Fyrsta skrefið til þess að uppbygging Liverpool geti hafist á ný, er að Houllier hætti. Ég legg til að Martin O’Neill verði ráðinn í staðinn. Ef ekki hann, þá Kenny Dalglish. Í raun hver sem er, bara ekki Houllier.

  2. Taka til í leikmannahópnum: Fyrir einu ári hélt ég að það eina, sem vantaði fyrir Liverpool væri Harry Kewell. Ég hélt að hann myndi koma með þennan neista sem vantaði. Núna geri ég mér hins vegar grein fyrir því að vandamálin eru mun alvarlegri en svo.

    Í Liverpool liðinu eru að mínu mati 6 leikmenn, sem ættu heima í byrjunarliðinu: Kirkland, Hyppia, Gerrard, Kewell, Owen og Baros. Það þýðir að 6 stöður af 11 eru í lagi. Hinar 5 eru í misvondum málum. Það þarf að fá inn nýja leikmenn og losa sig við einskins nýta leikmenn.

  3. Vörnin: Liverpool eiga efnilegasta markmann Englands í Chris Kirkland og Jerzy Dudek er frábær varamarkvörður ef hann sættir sig við það hlutskipti.

    Miðverðir: Henchoz og Hyppia voru einu sinni eitt besta miðvarðarpar Evrópu. Sá tími er liðinn. Þeir tveir hafa alls ekki náð nógu vel saman í ár og breytinga er þörf. Nauðsynlegt er að fá yngri og fljótari leikmann með Hyppia. Af því, sem ég hef lesið þá líst mér vel á Dawson hjá Nottingham Forest, en ég verð að játa að ég veit ekki almennilega hvaða leikmaður myndi henta við hliðiná Hyppia. Dettur einna helst í hug Dawson eða Philippe Mexes hjá Auxerre.

    Bakverðir: Bakvarðastöðurnar eru báðar í rugli. Jamie Carragher er auðvitað mikill baráttujaxl og mun gera allt fyrir málstaðinn. Vandamálið er bara að hann er ekki nógu góður knattspyrnumaður. Hann er til dæmis ófær um að keyra upp kantinn og hjálpa til í sókninni. Einu sinni hélt ég að Steve Finnan myndi leysa öll vandamál í hægri bakverðinum en hann hefur ekki getað neitt í ár. Samt vil ég frekar gefa honum annað tímabil heldur en Carragher. Því er mikilvægt að fá örfættan vinstri bakvörð, sem getur sinnt sóknarleiknum líka.

  4. Miðjan: Á miðjunni eiga Liverpool besta miðjumann Englands í Steven Gerrard og einn besta vinstri kantmann í heimi í Harry Kewell.

    Vandamálið við miðjuna er fyrst og fremst að Dietmar Hamann og Steven Gerrard eru fremur varnarsinnaðir miðjumenn. Gerrard sækir að vísu mikið þegar hann er með Hamann, en hann myndi nýtast mun betur í varnarhlutverkinu, svipað og Vieira gerir fyrir Arsenal og Gerrard gerir með enska landsliðinu. Með Gerrard ætti síðan að vera sóknarsinnaður miðjumaður. Tveir góðir kostir í þá stöðu væru Joe Cole hjá Chelsea og Tomas Rosicky hjá Dortmund.

    Á hægri kantinum hefur Diouf verið að spila ágætlega, en hann á það til að hverfa marga leiki í röð. Diouf er sóknarmaður, sem er beðinn um að spila í vitlausri stöðu. Ég væri til í að gefa Diouf annað tækifæri en það þarf að hafa einhvern betri en Danny Murphy til að leysa hann af.

  5. Sóknin: Auðveldasta leiðin til að bæta sóknina er (ótrúlegt en satt) að fækka leikmönnum um einn: Emile Heskey. Á meðan Heskey er enn í hópnum munu þjálfarar freistast til að láta hann leika, þrátt fyrir að Niall Quinn sé betri sóknarmaður en Heskey.

    Djibril Cisse hefur lýst því yfir að hann vilji koma til Liverpool og það er vel. Cisse hefur litið mjög vel út þegar ég hef séð hann spila. Owen verður að ákveða sig hvort hann vilji eyða næstu árum með Liverpool. Ef hans áhugi liggur ekki þar, þá á að gefa Baros og Pongolle tækifæri. Sóknarmannahópur, sem samanstæði af Owen, Cisse, Baros og Pongolle væri frábær.

  6. Losa liðið við leikmenn, sem eru ekki nógu góðir fyrir Liverpool: Allir aðdáendur Liverpool þekkja þessa leikmenn, sem allir nema Houllier vita að eru ekki nógu góðir fyrir Liverpool: Emile Heskey, Danny Murphy, Bruno Cheyrou, Salif Diao, Djimi Traore og Igor Biscan. Auk þeirra ætti Liverpool að selja Hamann og Henchoz.
  7. Styrkja hópinn: Í staðinn fyrir þennan hóp ætti Liverpool að fá til sín eftirfarandi leikmenn: Thomas Rosicky eða Joe Cole, Michael Dawson, Djibril Cisse, Philippe Mexes auk vinstri og hægri bakvörðs og hægri kantmanns

Vandamál Liverpool eru það alvarleg að ég er kominn á þá skoðun að ekkert nema algjör breyting muni geta bjargað liðinu. Það þarf að skipta um þjálfara og hreinsa all verulega til í leikmannahópnum. Þetta getur ekki haldið svona áfram.

9 thoughts on “Hvernig má bjarga Liverpool”

  1. Nokkrar útásetningar….

    1. Við erum í 8 sæti. Ekki 7.
    2. Anelka var ekki seldur. Hann var lánaður til liðsins frá PSG og GH ákvað að hann væri ekki rétti maðurinn fyrir liðið. Þarna er ég sammála GH því Anelka er vandræðagemlingur og hefur verið það hjá hverju einasta liði sem hann hefur leikið með.
    3. Hamann er algjör lykilmaður á miðjunni. Með því að færa Gerrard aftar á miðjunni ertu bókstaflega að lama hann.

    En niðurstaðan í þessu öllu saman kemur ekkert á óvart. Houllier fer í sumar og jafnvel fyrr. Hreinsað verður til í leikmannahópnum og ákveðnir menn eins og Heskey, Diao og fleiri verða seldir.

  2. Ok, fyrir utan staðreyndavillurnar þá er það aðallega Gerrard og Hamann hlutinn, sem þú ert ósammála um.

    Ég hélt fyrr í vetur að Hamann væri algjörlega ómissandi fyrir liðið. Núna er ég að átta mig á því að það er bara ekki rétt. Hann situr alltof aftarlega á miðjunni, er í raun bara fimmti varnarmaðurinn. Hann er gersamlega og algjörlega einskins nýtur í sókninni. Fyrir utan markskot á þriggja mánaða fresti kemur ekkert frá honum.

    Gerrard er frábær leikmaður, sem flakkar um allan völlinn. Hann nýtur sín þó að mínu mati betur einsog hann spilar fyrir enska landsliðið, það er sem aftari miðjumaðurinn. Þá getur hann nýtt baráttuna í því að keyra tilbaka og hans sterkasta vopn, sem eru langar sendingar, nýtist vel í þeirri stöðu. Þegar Liverpool var að leika sæmilega í haust var Gerrard einmitt í þessari stöðu og liðið lék mun skemmtilegri sóknarbolta með hann í aftari stöðunni og Smicer í þeirri fremri.

    Það vantar eitthvað líf í miðjuna. Hvernig ætlar þú að skapa það þegar að Hamann er þarna? Að mínu mati er þarna þrír menn í liðinu, sem eru alltof hægir: Hyppia, Henchoz og Hamann. Hyppia er sá eini, sem ætti að halda áfram.

    Þetta er ekkert voðalega sanngjarnt fyrir Henchoz og Hamann, sem hafa verið frábærir í gegnum árin, en ástandið er bara svona slæmt. :confused:

  3. Michael Owen lifir á fornri frægð – hann einn tapaði þessum leik í dag að mínu mati. Því skil ég ekki af hverju hann er einn af þessum fimm – ekki er það miðað við frammistöðu í síðustu… tíu leikjum eða svo.

    Alltaf er talað um að hann þurfi betri þjónustu – menn þurfi að leggja upp færi fyrir hann og svo framvegis. Vandinn er bara sá að hann nýtir ekki færin. Það er ófyrirgefanlegt af topp framherja að nýta ekki færi eins og hann fékk á síðustu sekúndum fyrri hálfleiks.

    Hvernig dettur honum svo í hug að taka vítaspyrnur – hann er verri vítaskytta en ég – og þá er nú mikið sagt.

  4. Ég hef bara séð þessar lægðir hjá Owen það oft, að ég veit að hann mun ná sér. Ég held að menn megi ekki tapa sér í því að kenna Owen um slæmt gengi. Hann var þó vissulega hroðalegur í dag. Svo er það náttúrulega bara fíflaskapur að láta greyið mannin taka víti.

    Hann er vissulega búinn að vera alveg skuggalega lélegur undanfarnar vikur. Ég held að hann hafi látið slæmt gengi draga sig niður og svo er óvissan um framtíðina slæm fyrir hann. Ég tók það fram að hann þurfi að hugsa sinn gang og hann verði að binda sig í mörg ár. Það mun ekki duga að framlengja samninginn um eitt ár. Ef það er það sem hann vill, þá ætti Liverpool að selja hann.

    Fowler er búinn að skora 7 mörk í deildinni, Owen 9. Það er helvíti magnað.

  5. Gerrard & Kewell eru að skapa en hinsvegar er hægri kanturinn svo gjörsamlega steingeldur að það hálfa væri nóg. Þegar Murphy er settur þar þá leitar hann yfirleitt inn á miðjunni og Gerrard neyðist til að hlaupa út á hægri kant svona til þess að hafa einhverja breidd á miðjunni. Diouf hefur einungis verið skugginn af sjálfum sér síðan í nóvember og ekkert gert síðan þá. Forgangsatriði nr. 1, 2 og 3 er að laga hægri kantinn og finna mann sem getur skapað eitthvað þar.

    Annar hausverkur í þessu er að H & H eru afskaplega hægfara miðverðir (eins og þú nefnir Einar) og Hamann neyðist því til þess að sitja aftarlega svo það myndist ekki alltof mikið tómt pláss á milli varnar og miðju.

    Við fáum yfirleitt á okkur mörk úr skyndisóknum þegar bæði H & H eru komnir uppað miðju.

    Ég myndi frekar vilja fá nýjan fljótan varnarmann með Hyypia og prófa svo Welsh saman með Gerrard á miðjunni. That might be interesting.

  6. Owen hefur verið allt of mistækur í vetur og skitið upp á bak. Það ætti að selja hann meðan fæst einhver peningur fyrir hann. Hann er líka óstöðugur, á of oft lægðir. Owen og Biscan eru þeir menn sem mest liggur á að selja.

  7. Maður á ekki til orð yfir frammistöði Owens á þessu tímabili. Hann er langt frá því að vera meðalmaður í deildinni eins og hann er að spila. Annars hef ég alltaf sagt það, þó svo hann geti stundum verið rosalegur slútter þá er hann verulega ofmetinn striker.

  8. Ég hénna strákur að norðan sem að er dyggur að dáandi Liverpool………og ég vildi bara hrósa þér …svona í tilefni að því að þú heldur með liverpool.BESTA LIÐIÐ EKKI SATT????

  9. Thad er thvi midur ekki satt. Thad eitt ad madur hafi ahyggjur af deildarleik gegn Leicester City segir allt.

Comments are closed.