Einar Örn tekur til í ríkisfjármálum

Ég líð gríðarlegar þjáningar í hverjum mánuði þegar ég sé hversu mikill hluti af tekjum mínum fer í skatta.

Þess vegna er mér annt um að spara í ríkisfjármálum. Ólíkt Sjálfstæðisflokknum, sem bara vilja minnka tekjurnar, þá vil ég líka minnka gjöldin. Nú hef ég fengið byltingarkennda hugmynd til sparnaðar í ríkisfjármálum:

**Segjum upp öllum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, nema Davíð.**

Þetta er svo snjallt að það er ekki fyndið. Davíð myndi einfaldlega fá 22 atkvæði á Alþingi og gæti því klárað öll mál einn. Hugsið aðeins útí þetta.

Hverju myndi þetta breyta?

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru alltaf allir sammála Davíð! Alltaf! Sama hversu málstaður Davíðs er slæmur. Til hvers að borga 22 mönnum laun fyrir það eitt að segja “já og amen” þegar Davíð leggur eitthvað fram? Eini munurinn er að þá þyrftum við ekki að hlusta á Einar K. Guðfinnson og Guðlaug Þór hylla allt sem Davíð gerir. Davíð myndi bara sjá um þetta allt.

Sjáiði bara [þetta kvót hjá Einari K.](http://www.visir.is/?PageID=38&NewsID=6512) um umræður í þingflokkinum um breytingarnar á fjölmiðlalögunum:

>”Það tjáðu sig mjög margir og allir voru mjög ánægðir og sáttir við niðurstöðuna.”

Þannig að í þessu umdeildasta máli síðari ára eru allir jafn ánægðir og sáttir þegar ríkisstjórnin hrifsar frá þjóðinni vald hennar til að greiða atkvæði. Ekki einn stóð upp og sagði eitthvað neikvætt. Neibbs, Davíð var búinn að gefa fyrirskipunina.

Þessi tillaga mín myndi líka spara tíma. Næst þegar Davíð fengi snilldar hugmynd þá myndi það ekki taka [heila þrjá daga](http://www.visir.is/?PageID=38&NewsID=6501) þangað til að lagafrumvarpið er tilbúið, heldur gæti Davíð bara klárað þetta heima hjá sér á einu kvöldi. Ég hreinlega get ekki séð neina ókosti við þessa tillögu mína. Þetta myndi spara milljónir.

**Uppfært (eftir fréttagláp, Ísland í Dag og Kastljós)**:

* Steingrímur J. er snillingur! Bæði fyrir að láta Halldór Blöndal ekki vaða yfir sig og svo þegar hann tók Geir í nefið á Stöð 2. Málið er að Steingrímur trúir á málstað sinn, en Geir er að verja málstað Davíðs. Maður sér að Geir er ekki rólegur þegar hann er að verja málstað, sem hann veit að er slæmur.

* Einnig: Ætti ekki að gefa Guðna Ágútssyni einhver verðlaun fyrir að hafa bullað nær stanslaust í gegnum heilan Kastljósþátt? Hann ætlaði alveg að snappa þegar Kristján í Kastljósinu saumaði að honum. Kristján er hetja. Hann er búinn að vaxa í áliti hjá mér aftur eftir Davíðsviðtalið.

* Heldur einhver virkilega að þetta hafi snúist um 5% og 10%? Eru menn alveg veruleikafirrtir?

* Getur ríkisstjórnin hugsanlega minnkað enn frekar í áliti hjá mér? Ég bara trúi því ekki! Davíð kallaði lausnina snjalla. Hann var glaður útaf því að honum fannst hann hafa snúið á þjóðina.

* Hvernig nenni ég að láta þessa menn fara í taugarnar á mér. Ég á að vita betur en svo að gera einhverjar væntingar til míns gamla flokks.

* Guði sé lof fyrir að Davíð er að hætta. Verst að Halldór er alveg jafn slæmur.

4 thoughts on “Einar Örn tekur til í ríkisfjármálum”

  1. Ég er mjög sammála þér hérna. Mér hefur einhverra hluta alltaf verið illa við Steingrím Joð, finnst hann jafnan skjóta yfir markið jafnvel þótt málstaðurinn sé góður. Það að kalla Davíð “druslu” í pontu í þingsal hjálpar ekki málstað þeirra sem eru á móti þessari hringavitleysu forsætisráðherrans.

    En nú ber annað við. Af tvennu illu þá held ég að ég myndi frekar vilja sjá Steingrím Joð komast til valda en að hafa Davíð og lærisveinana tólf áfram við völd. Steingrímur Joð trúir þó á málstað sinn, sem stjórnast ekki af hroka eða hleypidómum heldur af almennri löngun til að gera það sem hann telur vera í bestu þágu þjóðarinnar.

    Það sjá svosum allir í gegnum þetta dæmi hjá Davíð & Co. Þeir draga frumvarpið til baka og reyna að fara einhverja bakdyraleið að þessu af því að þeir vissu vel sem var að ef þetta færi í þjóðaratkvæðagreiðslu þá hefði þetta fjölmiðlafrumvarp líklega hlotið einhverja verstu kosningu sem sögur fara af. Það hefði semsagt ekki verið samþykkt, svo ekki sé meira sagt.

    Og þá hefði ríkisstjórnin setið í súpunni. Frumvarp, sem þing er búið að samþykkja, en er síðan synjað af hálfu forseta og þjóðarinnar, lýsir greinilegu vantrausti af hálfu þjóðarinnar gagnvart störfum meirihluta Alþingis. Og þá hefði aðeins eitt verið til ráða og það er að leysa upp þingið og boða til þingkosninga. Sem Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkarnir hefðu skíttapað vegna þeirrar óánægjuöldu sem skapast hefur í kjölfar þessa skrípaleiks síðustu 2 mánuði.

    Þannig að þeir ákváðu, í stað þess að gera hið göfuga og játa að þeir hefðu unnið í óþökk þjóðarinnar og draga frumvarpið alveg til baka, eða a.m.k. leyfa því að fara til þjóðaratkvæðis, þá ákváðu þeir enn og aftur að gera það sem þjónar þeirra hagsmunum og engu öðru. Þeir kusu að reyna í örvæntingu að bjarga eigin skinni. Og þykjast því ætla að gera breytingar á frumvarpi sem þeir voru þegar búnir að samþykkja með meirihluta – og þar með gefa til kynna að þeir væri ánægðir með það í núverandi mynd.

    Þetta er orðið svo rotið og fáránlegt mál að það hálfa væri nóg. Ég hef kosið í fjórum kosningum, kaus Samfylkinguna í þeim fyrstu árið og svo Sjálfstæðisflokkinn þar á eftir. Þá kaus ég Sjálfstæðisflokkinn aftur á síðasta ári (í Hafnarfirði, nota bene, þar sem Samfylkingin er alveg glötuð!) en nú er ég reiðubúinn að kjósa allt annað en Sjálfstæðisflokkinn og/eða Framsóknarflokkinn … til þess eins að hjálpa til við að koma þessum egómanísku vitleysingum frá völdum.

    Og varðandi fráhvarf Davíðs sem forsætisráðherra: trúir því virkilega einhver að hann dragi sig í hlé? Ég trúi því þegar það gerist … og jafnvel þótt hann stígi niður og geri Halldór að ráðherra þá mun hann finna einhverja leið til að stjórna þessu á bakvið tjöldin. Hann þrífst á völdum, meir en nokkur annar stjórnmálamaður síðustu áratugina, sem hefur hingað til gert hann að besta stjórnmálamanni síðustu ára á Íslandi en er núna farið að koma honum í koll.

    Hann fer kannski úr embætti forsætisráðherra en hann lætur aldrei af stjórn. Sannið til!

  2. Já, ég get ekki lengur hugsað mér að hafa Sjálfstæðisflokk eða Framsóknarflokk í ríkisstjórn. Ég held hreinlega að það besta við þetta land sé að fá stjórn Vinstri-Grænna og Samfylkingar. (ég trúi varla að ég sé að skrifa þetta!)

    Ekki vegna þess að þessir tveir flokkar séu með stefnumál, sem samrýmast mínum skoðnunum (ég er ósammála ansi mörgum stefnumálum VG), heldur einfaldlega vegna þess að valdhrokinn í þessum 2 ríkisstjórnarflokkum er orðinn svo hræðilegur. Það eina, sem getur bjargað þessum mönnum er að almenningur taki af þeim völdin í næstu kosningum.

    Sem eru eftir heil TVÖ ár. Úffff :confused:

  3. …bara annar dagur í sandkassanum. Skyldi Dóri bera gæfu til að hætta að éta sand og fara í rólurnar? Einhvern veginn efast ég um það.

    Fyrirtæki með svona yfirstjórn og engan pending með viti til að taka við, bara gutta sem segja það sem þú vilt heyra þar til þeir eru komnir undir pilsfaldinn á forstjóranum, myndi ekki eiga glæsta framtíð.

    Úff…

Comments are closed.