Jensi [benti](http://www.jenssigurdsson.com/entry/2005/03/14/23.14.54/index.html) fyrir einhverjum dögum á [þessa ræðu](http://politik.is/?id=1146), en ég asnaðist ekki til að lesa hana fyrr en ég sá [aðra](http://www.hi.is/~gullikr/digitalbomb/) ábendingu á hana í dag.
Allavegana, [ræðuna hélt Hallgrímur Helgason, snillingur, á þingi ungliðasamtaka stjórnmálaflokkanna](http://politik.is/?id=1146). Ræðan er tær snilld og hreinlega skyldulesning fyrir alla unga Íslendinga, hvort sem fólk hefur áhuga á pólitík eður ei. Það tekur þig svona 5 mínútur að lesa þetta, en þú munt svo sannarlega ekki sjá eftir þeim mínútum.
Hér eru nokkrir snilldarkaflar úr ræðunni, þó ég mæli eindregið með því að fólk lesi hana í heild sinni:
>Hér sitjum við til dæmis í húsi Háskóla Íslands sem á pappírunum stendur í miðborg Reykjavíkur en stendur þó í raun á mörkum skiplagslegrar auðnar: Hér fyrir utan gluggann er heil sveit af ónýttu svæði sem þó hlýtur að teljast dýrmætasta byggingarland Íslands. Á meðan boruð eru göng norður á Siglufirði, göng sem kosta sex milljarða króna og eiga að þjóna fimmtán hundruð íbúum, eigum við ekki til fjóra milljarða króna til að byggja nýjan flugvöll sem mundi þjóna þeim hundrað og fimmtíu þúsund manns sem í borginni búa og raunar landsmönnum öllum. Og þessir fjórir milljarðar væru að auki hreint lánsfé: Með því að selja landið undir núverandi flugvelli fengjust þeir peningar fljótt og vel og meira til.
>Tréhausar. Tréhausar á Alþingi. Tréhausar í borgarstjórn. Getið þið ekki rekið nagla í þessi höfuð? Plís.
>Og hvað segja þingmenn okkar, þingmenn Reykvíkinga, í þessu tiltekna máli? Ekki neitt, ekki bofs, jafnvel þótt þeir séu nýkomnir á þing og vart orðnir þrítugir: Af lufsulegri hlýðni lúta þeir hinni háöldruðu sveitamennsku sem stjórnar þessum málum og vill hafa sinn flugvöll í Alþingisgarðinum.
Og svo undir lok ræðunnar þá er þessi kafli góður:
>Eitt höfuðvandamál íslenskra stjórnmála í dag er sú staðreynd að inn á Alþingi setjast tómir heimalingar; Menn og konur sem aldrei hafa farið neitt, nema suður. Reykjavíkurflugvöllur er þeirra Heathrow, þeirra Kastrup. Þess vegna er þeim svo annt um hann. Hann er þeirra forfrömun; sönnun þess að þeir séu orðnir eitthvað; þeir fljúga vikulega norður, vestur og austur. Í fyrra var gerð úttekt á því hversu margir þingmenn höfðu menntað sig erlendis. Þeir voru örfáir og miklu mun færri en þeir sem fylltu þingsali fyrir fimmtíu árum. Að þessu leytinu hafði þinginu farið aftur. Öfugt við það sem maður hefði haldið var meiri heimsbragur á þingheimi fyrir fimmtíu árum. Þetta var heldur sorgleg uppgötvun. Í dag telst það hátíð hafi þingmaður einhverju sinni farið sem skiptinemi suður í lönd. Ein skýringin á þessari nesjamennsku er sú að innan stóru flokkanna er samkeppnin svo hörð og byrjar svo snemma að menn treysta sér ekki til útlanda, þora ekki að dvelja þrjú ár ytra af ótta við að missa þá af kapphlaupinu til æðstu metorða. Það eru kosningar í SUS og SUF og SUJ sem ekki má missa af og svo koma prófkjörin fyrir sveitastjórna- og alþingiskosningar og lengi er líka von á starfi aðstoðarmanns fyrir einhvern ráðherrann. Þess vegna sitja menn heima og þora ekki út. Þess vegna læra menn ekki tungumál, taka ekki inn ný áhrif og geta aldrei séð Ísland úr fjarlægð og hlutina í stærra samhengi. Menn eru alltaf fastir í fathenginu hér heima.
>Í hvert sinn sem íslenskur ráðamaður opnar munninn á ensku roðnar maður af fósturjarðarskömm. Og sagt er að sumir ráðherranna séu ekki einu sinni mellufærir á heimstungunni. Ekki Kanamellufærir.
>Eða hvað eruð þið, kæru vinir, að gera hér í dag? Hangandi á klakanum eins og hræddir gemlingar, verandi ekki eldri en þið eruð, í stað þess að stæla krafta ykkar við erfiðar aðstæður, andsnúna prófessora, ískaldar íbúðir, einmanaleika stórborgar, finna á ykkar eigin skinni smæð einstaklingsins í milljónasamfélaginu, gráta af heimþrá á aðfangadagskvöld, úti í horni á einhverjum ömurlegum úthverfa-McDonaldsinum, og snúa síðan margfalt sterkari til baka?
>“Nei nei, ég get ekki farið, það er aðalfundur í miðstjórn hverfasamtakanna eftir rúman mánuð og þá á að kjósa nýjan varaformann bla bla bla…”
>Þeir sem hugsa smátt verða aldrei stórir.
>…
>Ég segi því við ykkur: Ekki bera neina virðingu fyrir eldri kynslóðinni. Eða hvers vegna ættuð þið annars að gera það? Þetta er lið sem kann ekki einu sinni ensku.
Já já, kallið þetta menntasnobb og höfuðborgarsnobb og allt það. Mér finnst þetta samt algjör snilld. Ég er eiginlega enn að bíða eftir því að Hallgrímur stofni hægri krataflokkinn, sem hann talaði um þegar hann kallaði okkur landlausa í íslenskri pólitík.
Ég las þessa ágætu ræðu til síðasta stafs… hún tók nú soldið meira en 5 mínútur :tongue: En skemmtileg lesning og ýmislegt í henni sem hægt er að vera mjög sammála. Vonandi telur hún kjark í þetta unga pakk að vera djarft, frumlegt og framsækið. Áfram Hallgrímur!
Moral of the story: Alltaf að lesa greinar sem Jensinn þinn bendir á :biggrin2:
Hann er frábær penni, ótrúlega fyndinn og svo er ég 100% sammála honum. Ætli það hafi mörg ósjálfstæð börn labbað út? :laugh:
Jammmm …basically allir sem hefðu þurft að heyra þetta þurftu skyndilega að fara í símann, pissa eða e-ð annað mikilvægt þegar Hallgrímur steig í pontu.