Upptökur

Þetta er búinn að vera skrítinn en skemmtilegur dagur. Fyrir það fyrsta stóðu yfir upptökur á nýjum sjónvarspauglýsingum fyrir vörumerki, sem ég stjórna. Þess vegna var ég óvenju lítið inní vinnu, en var þess í stað niðrí Saga Film, þar sem ég fylgdist upptökum á auglýsingunni.

Hef aldrei fylgst með upptökum á svona auglýsingu fyrr, en þetta var nokkuð skemmtilegt. Þetta er einn af þessum hlutum, sem gera vinnuna mína skemmtilega og brýtur upp daglegt stress. Held að ég hefði hvort eð er ekki höndlað það að vera fyrir framan tölvuna í góða veðrinu, þannig að þetta var kærkomið.


Um hádegi fékk ég svo símtal frá Agli Helgasyni, þar sem hann bað mig um að koma í Ísland í Dag í kvöld til að ræða um [veðurfærsluna mína](https://www.eoe.is/gamalt/2005/07/11/19.18.41). Hann sagði að sér hefði verið bent á þessa færslu og vildi ræða hana við mig. Fyrsta hugsunin var að þetta væri eitthvað djók, en ég þekkti röddina hans, svo að það var ljóst að þetta væri alvara. Ég sagðist auðvitað vera til í þetta.

Þannig að ég fór snemma úr vinnunni, dreif mig heim, rakaði mig og keyrði svo uppá Stöð 2. Mætti voðalega tímanlega þangað uppeftir, en það virðist vera þannig að það gerist ekkert fyrr en að 5 mínútur eru í útsendingu. Þannig að ég sat bara þarna og las Séð & Heyrt. Svo þegar útsendingin var að byrja var ég drifinn í smink og svo inná sett.

Ég er ekki búinn að horfa á þáttinn, ætla að kíkja á hann á Stöð2 + eftir nokkrar mínútur, en mér fannst þetta ganga nokkuð vel. Var settur á móti einum veðurfræðingnum (ekki þó Sigga Storm, einsog Egill talaði um, heldur Guðríður sem flytur líka veðurfréttir á Stöð 2). Ég þuldi þar upp tölfræðina og uppúr því kom smá umræða. Það var þó enginn að mótmæla þessum niðurstöðum mínum. Eiginlega voru allir sammála um þetta. Einu mótmælin voru þau að það væri meiri rigning í Bergen. Svo viðurkenndi veðufræðingurinn að þau reyndu að finna svona tölur, sem myndu líta vel út fyrir Íslendinga. Svo sem alveg skiljanlegt, þar sem hún talaði um að fólk skammaði hana fyrir veðrið útá götu.

En þetta var fínt, fólkið var voða nice og þetta gekk vel fyrir sig. Eina var að þau gleymdu að plögga bloggið mitt. En ég meina hey.


**Uppfært (EÖE)**: Jæja, búinn að horfa á þetta. Þetta var bara nokkuð fínt. Hélt að ég hefði stamað eitthvað á Tíbet-dæminu, en það var voðalega ómerkilegt. Þannig að ég er bara nokkuð sáttur við þetta fyrsta sjónvarpsviðtal mitt.

7 thoughts on “Upptökur”

  1. Humm… bara forvitni…

    Þú hefur væntanlega ekki búist við að fyrsta sjónvarpsviðtalið þitt yrði um veðurfarið í Reykjavík yfir sumarmánuðina?

    Strumpakveðjur 🙂

  2. Langar þig ekki til að smella linki á viðtalið við þig hérna á síðuna…missti nefnilega af þessu en langar svolítið til að sjá þetta, snilld að komast í sjónvarpið vegna færslunnnar 😉

  3. Þú varst eitthvað að kvarta undan að Kastljósið hefði ekki haft samband… 🙂

  4. Anna, veftíví Vísis bilaði, þannig að það er ekki hægt að horfa á viðtalið við mig. Ég kenni um samsæri íslenskra veðurfræðinga, sem eru að reyna að þagga niður í mér 🙂

Comments are closed.