athugasemd: Ég var að fara yfir færslusafnið í Movabletype og sérstaklega færslur, sem ég birti ekki af einhverjum ástæðum. Þessa færslu skrifaði ég í hálfgerðu reiðikasti þegar sem allra verst gekk að ráða á Serrano fyrir nákvæmlega tveim mánuðum, eða 9.nóvember.
Ástandið á Serrano hefur bæst mjög mikið og er í fínu ástandi núna. En pistillinn á svo sem enn ágætlega við. 🙂
* * *
Er það ekki ágætis merki um þetta fáránlega atvinnuástand hér á Íslandi að heimasíður [Burger King](http://www.burgerking.is/) og [McDonald’s](http://www.mcdonalds.is/) eru í raun ekkert nema ein stór starfsumsókn? Ekkert um matinn, bara “viltu plííís vinna fyrir okkur?” *(nota bene, BK síðunni hefur núna verið breytt – hún var áður einsog McDonald’s síðan)*
McDonald’s eru svo farnir að eyða milljónum í að birta bandarískar ímyndarauglýsingar, þar sem fólk er hvatt til að koma og vinna hjá þeim.
* * *
Í síðustu viku var hringt í mig af stéttarfélagi og ég spurður um fyrrverandi starfsmann, sem var að sækja um atvinnuleysisbætur. Ég sagði viðkomandi að ég myndi ráð fyrrverandi starfsmanninn á staðnum, hún þyrfti bara að tala við mig. Ég sagði líka að ég gæti reddað henni sirka 50 vinnum. Konan hjá VR sagði mig indælan, en samt þá gæti hún ekkert gert í þessu, því hún vildi fara á bætur.
* * *
Framsóknarflokkurinn er með hugmyndir að þremur álverum. TIL HVERS Í FOKKING ANDSKOTANUM? Ekki getur það hugsanlega verið til að slá á atvinnuleysi. Ef að Halldór Ásgrímsson heldur að það sé eitthvað atvinnuleysi á Íslandi, þá ætti hann að ráða sig sem starfsmannastjóra hjá stóru fyrirtæki og reyna að ráða í stöður. Þjóðhagsleg hagkvæmni álveranna er líka vafasöm. Eru framsóknarmenn úr öllum tengslum við íslenskan veruleika?
* * *
Ég talaði við rafvirkja, sem ég þekki vel og hann sagðist hugsanlega getað komið til mín í byrjun desember – eftir fjórar vikur! Ég hef reynt að fá pípara uppá veitingastað í þrjár vikur, en án árangurs. Það talar enginn um það, en ástandið á þessu landi er orðið hreinasti hryllingur.
Ég veit um fullt af fyrirtækjum, þar sem launakostnaður fer uppúr öllu valdi þessa dagana, vegna þess að fyrirtækin eru svo hrædd um að missa fólk. Fyrirtæki halda lélegu starfsfólki af því að þau eru hrædd um að enginn komi í staðinn. Ég þakka allavegana Guði fyrir að vera ekki svo illa staddur með mitt fyrirtæki.
* * *
Á Alþingi segir Menntamálaráðherra að vandamál leikskólanna séu lág laun. Gott og vel, ég get verið sammála því. En það sem vantar inní þessa umræðu er einfaldlega sú staðreynd að það *er ekki nóg fólk á Íslandi*. Ef að fólkið myndi nást inná leikskólana, þá myndi það vanta í aðrar stöður. Við þurfum að auðvelda til muna löggjöf til að fá nýtt fólk inní þetta land. Annars fer þetta allt til fjandans.
* * *
Ég leyfi mér að fullyrða að hvergi í heiminum er jafn erfitt að fá fólk í vinnu og á Íslandi. HVERGI Í HEIMINUM! Ef einhver getur bent mér á verri stað, þá væri það vel þegið.
Ég mun þá ekki opna veitingastaði í því landi.
Amen! 🙂
Í sumar fussaði ég og svei-aði mikið yfir ástandinu og þreyttist ekki á að segja að okkur vantaði ræðismannsskrifstofu í Póllandi til að auðvelda einsog tvö þúsund manns að koma hingað og bjarga hagkerfinu.
“Starfsmannaleigurnar” sem urðu alræmdar í fyrra urðu náttúrulega bara til vegna skorts á fólki. Á sama tíma gerir kerfið allt til að halda fólki frá með þeim afleiðingum að það er auðveldara að fara í kringum kerfið en að fylgja reglum.
Jamm, nákvæmlega.
En þessar starfsmannaleigur leysa þó bara vandamálin í stuttan tíma, þar sem fólkið er flest að koma hingað í nokkra mánuði. Við þyrftum bara að gera þetta einsog í USA, það er loka augunum öðru hvoru og hleypa fólkinu inn án takmarkana. Þannig hefur bandaríska hagkerfinu verið haldið við í mörg ár. 🙂
Þetta ástand einsog það er í dag lendir líka verst á þeim fyrirtækjum, sem vilja vera heiðarleg, borga útlendingum eðlileg laun og hafa allt löglegt. Þetta hyglir frekar þeim, sem brjóta lögin.
“Framsóknarflokkurinn er með hugmyndir að þremur álverum. TIL HVERS Í FOKKING ANDSKOTANUM? Ekki getur það hugsanlega verið til að slá á atvinnuleysi. Ef að Halldór Ásgrímsson heldur að það sé eitthvað atvinnuleysi á Íslandi, þá ætti hann að ráða sig sem starfsmannastjóra hjá stóru fyrirtæki og reyna að ráða í stöður. Þjóðhagsleg hagkvæmni álveranna er líka vafasöm. Eru framsóknarmenn úr öllum tengslum við íslenskan veruleika”
Ef þú værir í tengslum við íslenskan raunveruleika þá vissirðu að það er ekki Framsóknarflokkurinn sem er með hugmyndir að þremur álverum. Það eru sveitarfélög á viðkomandi stöðum sem eru með hugmyndir að álverum og óska eftir því að fá slík álver. Það vill bara þannig til að Framsóknarflokkurinn er með iðnaðarráðuneytið. Haltu þig við matargerð, Suður Ameríku og Liverpool, þá er ég ánægður með þig, því þar veistu hvað þú ert að tala um.
Barton – það er kannski rétt hjá þér að Einar ætti ekki að heimfæra þetta beint á Framsóknarflokkinn (þótt þeir axli vissulega ábyrgð, sem handhafar iðnaðarráðuneytisins) en þú getur ekki neitað því að hann hefur rétt fyrir sér í grunnatriðum.
Ég meina, heldur þú virkilega að þeir nái að fylla í öll störf í þessum þremur álverum með Íslendingum? Þegar við getum ekki einu sinni fyllt frystihúsin og skipin okkar með heimafólki? Hefurðu komið í einhvern kaupstað eða sjávarþorp útá landi nýlega? Það hef ég gert, og mannlífið þar er orðið ansi fjölþjóðlegt.
Álverin verða engin undantekning. Þau munu bara auka þörfina fyrir innflutt vinnuafl, því þeir atvinnulausu Íslendingar sem ekki nenna að vinna í frystihúsum munu ekkert frekar nenna að vinna vaktavinnu í álveri.
Jammm, framsóknarflokkurinn er auðvitað blásaklaus af álæðinu. Rææææææt!
Það má vel vera að aðrir séu að kalla eftir álverum, en um leið og einhverir gera það, þá er framsókn kominn einsog bjargvættur og lofar álverum hægri og vinstri. Kannski er það of gróft að bendla bara framsókn við þetta, réttara væri kannski að segja “ríkisstjórnin”.
Ég veit alveg hvað mótsvarið verður við þessu frá Kristjáni: “Já, en álverin eru ofboðslega ákjósanlegir vinnustaðir”. já, það má vel vera. En fólk vex ekki á trjám á Íslandi. Ef fólk fer að vinna í álverum þá mun það vanta í önnur störf og setja önnur fyrirtæki í vanda.
Á þenslutímum á ríkið **alls ekki** að standa í því að þenja út kerfið enn frekar með því að rembast við að skapa störf, allra síst í stóriðju.
Einar, misskildirðu mig eitthvað? Ég er ekki að verja álverin hérna, heldur var ég bara að benda á að tilkoma þeirra mun einfaldlega auka þörfina á erlendu vinnuafli á Íslandi. Bæði vegna þess að við erum ekki það mörg til að byrja með á þessari eyju, og líka vegna þess að fólk vill ekki vinna þessa vinnu (neitt frekar en frystihúsavinnuna) og þiggur frekar bæturnar.
Nei, ég misskildi þetta ekki neitt, en ég kom þessu asnalega útúr mér. Þessi setning:
>Ég veit alveg hvað mótsvarið verður við þessu frá Kristjáni: “Já, en álverin eru ofboðslega ákjósanlegir vinnustaðir”. já, það má vel vera
hefði átt að vera
>Ég veit alveg hvað mótsvarið verður við þessu innleggi frá Kristjáni verður: “Já, en álverin eru ofboðslega ákjósanlegir vinnustaðir”. já, það má vel vera
Semsagt, að álvers-sinnar dásama kosti þess að vinna í álverum, en málið er bara að þrátt fyrir að það megi vera, þá skapar það bara vandamál annars staðar.
Þá erum við nokkurn veginn sammála.
Tja… það er vinsælt að sparka í Framsóknarflokkinn fyrir að hafa stuðlað að gríðarlegri uppbyggingu á íslensku atvinnulífi í gegnum árin… held það sé til marks um að menn sjá ekki hlutina alveg í samhengi þegar menn kvarta yfir því að sterkum stoðum sé slegið undir efnahag Íslands með því að skapa mótvægi við fiskveiðunum með álvæðingunni og þannig stórauka útflutningstekjurnar… Ísland er ekki eitt ríkasta og mannvænasta þjóðfélag í heim vegna þess hve duglegir menn suður í Reykjavík eru að selja hvor öðrum pylsur eða annan skyndibita… Það veit Framsóknarflokkurinn vel, þó vert væri að rifja það upp fyrir mörgum sem muna ekki hvernig þetta var þegar menn höfðu ekki vinnu og þar af leiðandi ekki aur til að kaupa sér jafn mikið af pulsum… Pulsurnar skapa ekki hagvöxtinn einar sér… Enn jú það eru einhverjir vaxtaverkir sem kannski mætti taka fastari tökum…
Æji,
Ég var ekki að halda því fram að hagvöxturinn yrði til í þjónustunni. Það er bara útúrsnúningur hjá þér, Haukur.
En það er hins vegar fáránlegt að **ríkið** skuli vera að standa í því að rembast með handafli að búa til ný störf á meðan við getum ekki sinnt okkar lágmarksþjónustu við fólki í landinu. Þá er ég ekki að tala um pulsur, heldur störf á spítölum, leikskólum og svo framvegis.
Ef að framsókn ríkisstjórnin ætlar að standa í þessu álæði, þá verða þeir að huga vel að þeim gríðarlega skorti á vinnuafli sem er í landinu og laga reglur þannig að auðveldara verði fyrir fólk að koma hingað, sem vill búa hér og vinna. Ef ekki, þá er ríkið einfaldlega að gera slæmt þensluástand mun verra.
Það er *það*, sem ég á við þegar ég segi að framsóknarmenn séu úr tengslum við raunveruleikann á Íslandi.