Aðalsíða uppboðsins er hérna!!
Jæja, þá er komið að því. Í fyrra stóð ég fyrir uppboði hérna á síðunni, sem heppnaðist gríðarlega vel.
Ég safnaði yfir hálfri milljón króna með því að selja dót sem ég átti og með því að gefa hluta af laununum mínum. Í fyrra lýsti ég því ágætlega [af hverju ég væri að standa í þessu](https://www.eoe.is/gamalt/2005/12/10/9.38.15/). Þær forsendur hafa ekki breyst.
Núna er ástandið hjá mér þó auðvitað öðruvísi. Ég er ekki lengur í jafn vel launaðri vinnu og þar sem ég seldi svona mikið af draslinu mínu í fyrra, þá á ég auðvitað ekki jafnmikið í ár. En samt, þá er þetta slatti af dóti.
Ég [ferðaðist til Suð-Austur Asíu](https://www.eoe.is/gamalt/2006/09/16/11.33.23/) í haust og langar mig til þess að peningurinn fari á það landsvæði. Mér leið afskaplega vel með framlag mitt í fyrra og fyrir þessi jól vil ég líka leggja mitt af mörkunum. Einsog áður getur fólk boðið í eigur mínar og ef einhverjir vilja koma með frjáls framlög, þá getiði sent mér póst á einarorn@gmail.com. Ég býst við að framlagið mitt muni fara til munaðarleysingjahælis í Laos eða þá til OXFAM.
[Hérna að neðan er komin inn fyrsti hlutinn, en það eru sjónvarpsþættir á DVD diskum](https://www.eoe.is/gamalt/2006/12/10/22.00.42). Þetta mun virka einsog í fyrra, þú setur einfaldlega inn tilboðið sem ummæli við færsluna. Ég mun reyna að setja inn nýja hluti á hverjum degi næstu daga. Mun m.a. bjóða upp DVD myndir, geisladiska, bækur, sjónvarp og leikjatölvu.
Nota bene, ef einhverjir vilja leggja til hluti til þess að bjóða á þessu uppboði, þá getiði sent mér póst. Takk takk 🙂
Einsog í fyrra þá er ég mjög þakklátur ef fólk nennir að vísa á þetta uppboð á sínum síðum. Því fleiri sem vita um þetta, því hærri ættu framlögin að vera. Ég er búinn að búa til [síðu um þetta á eoe.is/uppbod](https://www.eoe.is/uppbod).