Barak og Hillary

Þessi grein eftir mig birtist á Vefritinu í dag

Í Bandaríkjunum er oft sagt að Demókratar séu sérfræðingar í að finna leiðir til að tapa kosningum. Fyrir rúmum sjö árum töldu nánast allir að Al Gore ætti auðveldan sigur vísan í forsetakosningum gegn George W Bush. Gore var varaforseti fyrir gríðarlega vinsælan forseta, sem hafði setið yfir tiltölulega friðsælu hagsældarskeiði. Hann gerði hins vegar of mörg mistök í kosningabaráttunni, svo sem með því að reyna að fjarlægjast Clinton vegna mistaka hans í einkalífinu og með því að virka of stífur í baráttunni ólíkt því sem við höfum átt að venjast á síðustu árum, sem urðu til þess að Gerge W Bush sigraði í eftirminnilegum kosningum.

* * *

Fyrir fjórum árum áttu Demókratar líka að vinna auðveldlega, þar sem fyrstu ár George W. Bush sem forseta höfðu alls ekki reynst farsæl. Íraksstríðið var orðið óvinsælt, efnahagurinn ekki í góðum málum og vinsældir Bush litlar. En Demókrötum tókst að finna John Kerry, sem mótmælti aldrei almennilega ótrúlegum árásum fyrrverandi hermanna úr Víetnam stríðinu, sem sökuðu hann um að hafa ýkt afrek sín. Þær árásir urðu til þess að stríðshetjunni Kerry tókst að tapa fyrir George W Bush, sem fékk að fljúga flugvélum í Texas á meðan að Víetnamstríðinu stóð.

Þannig að einhvern veginn tókst George W Bush að sigra Demókrata í bæði skiptin og 8 ára valdatímabili hans er nú að ljúka. Í fyrsta sinn í nokkra áratugi standa Bandaríkjamenn því frammi fyrir kosningum þar sem hvorki sitjandi forseti né varaforseti er í framboði. Bandaríkjamenn eru á fullu í óvinsælu stríði í Írak, efnahagurinn er í slæmum málum, dollarinn veikur, olíverð í hæstu hæðum , George W Bush með ólíkindum óvinsæll forseti og líklegur kandídat Repúblikana verður 72 ára gamall þegar að kjörtímabilið hefst. Hvernig eiga Demókratar að fara að því að tapa núna?

Það er ótrúlega auðvelt að búa lengi í Bandaríkjunum og takast aðeins að kynnast tiltölulega einsleitum hópi pólitískt séð. Í mínum vinahóp í háskóla var vissulega fólk af öllum kynþáttum og stéttum, en vegna þess að ég var háskóla og bjó í Chicago kynntist ég nánast eingöngu fólki sem styður Demókrataflokkinn. Þegar ég hitti vini mína fyrir nokkrum vikum komst ég að því að allir ætluðu þeir að styðja Barack Obama í forkosningum Demókrata frekar en Hillary Clinton. Fáir nefndu þeir einhvern sérstakan málefnaágreining við Clinton sem ástæðu fyrir stuðningnum við Obama. Flestir í mínum vinahópi styðja áform þeirra beggja (sem vissulega er stigsmunur á) um heilbrigðisþjónstu fyrir alla Bandaríkjamenn og að draga hermenn frá Írak sem fyrst. Ef menn vilja finna einhver málefnalegan mun á þeim tveimur, þá nefndu vinir mínir oftast það að Hillary hafi virkað sáttari við stríðsáform Bush en Obama. Þó ber að geta þess að Obama var ekki orðinn þingmaður þegar að Íraksstríðið hófst og því þurfti hann ekki að taka sömu ákvarðanir og Clinton.

* * *

Sem mikill áhugamaður um bandarískar kosningar hef ég átt erfitt að gera upp við mig hvort þeirra Clinton eða Obama ég styðji. Helst vildi ég sjá þau saman í framboði, sem ég tel þó að muni ekki gerast nema að Hillary vinni. Ég verð að játa að í upphafi var stuðningur minn við Hillary einfaldlega byggður á því að hún var nátengd Bill Clinton, sem er sá bandaríski stjórnmálamaður, sem ég hef mest álit á. Hún hefur þó í þessari kosningabaráttu sannað sig rækilega og hefur samband hennar við Bill Clinton frekar spillt fyrir henni en öfugt. Sérstaklega hefur hún skarað fram úr í öllum kappræðum frambjóðenda.

Það er þó erfitt að heillast ekki af Barack Obama. Þegar ég spurði vini mína hvers vegna þeir styddu hann, þá voru svörin frekar óljós. En megintónninn var samt sá að Obama gæfi þeim einhverja von um betri tíma. Það er nefnilega svo að margir vel menntaðir Bandaríkjamenn eru mjög meðvitaðir um almenningsálitið í öðrum löndum og það hefur einfaldlega ekki verið skemmtilegt að vera bandarískur ferðamaður í öðrum löndum undanfarin 8 ár. Íslendingar munu sennilega seint gera sér grein fyrir því hvernig það er fyrir óbreytta Bandaríkjamenn að þurfa eilíft að svara fyrir utanríkisstefnu síns lands eða að afsaka yfirvöld. Þegar ég hef haft hjá mér bandaríska gesti hef ég ítrekað orðið var við dónaskap Íslendinga og annarra gagnvart Bandaríkjamönnum, sem margir telja að þurfi sífellt að svara fyrir stjórnvöld í sínu landi þegar þeir sötra bjór á pöbbum Reykjavíkur.

* * *

Það sem Barack Obama gefur vinum mínum í Bandaríkjunum er von um að hlutirnir batni. Þá dreymir um forseta, sem getur stigið uppúr hinu daglega þrasi stjórnmálanna, hafnað valdi peninganna í Washington DC og verið forseti allra Bandaríkjamanna – ekki bara sumra. Obama er hinn nýji Bobby Kennedy og æ fleiri demókratar vonast til að hann geti klárað það sem að Kennedy gat aldrei. Obama á að sýna heiminum fram á að Bandaríkjamenn standi fyrir eitthvað betra en George W Bush hefur gert undanfarin ár.

Spurningin er þó hvort að Obama getur nokkurn tímann staðið undir slíkum væntingum. Og ef hann fær útnefninguna frá Demókrötum, getur hann staðið af sér árásir Repúblikana? Þeir munu eflaust gera mikið úr því að hann heitir Barack Hussein Obama, hefur viðurkennt að hafa reykt maríjúana, er sonur múslima og svo framvegis. Mun Obama geta staðið af sér slíkar árásir án þess að fara niður á sama plan og Repúblikanar munu eflaust fara.

Obama hefur síðustu viku unnið glæsilegra sigra í forkosningum og nú er svo komið að margir í herbúðum Hillary Clinton búast við því að hún tapi öllum kosningum í febrúar en nú leggur hún traust sitt á að vinna hin stóru ríki Ohio og Texas í byrjun mars. Gerist það, gæti svo farið að þau Hillary og Barack færu inná landsþing Demókrata með nánast jafnmarga fulltrúa. Þá gætu komið upp alls konar deilumál, svo sem að fulltrúum frá Michigan og Florida (sem Hillary vann) verður sennilega neitað um atkvæðisrétt, þar sem forkosningarnar þar voru færðar fram gegn vilja Demókrataflokksins. Einnig geta þá hinir svokölluðu ofurfulltrúar (ríkisstjórar Demókrata, þingmenn og fleiri) haft úrslitaáhrif á útnefninguna, sem gæti valdið miklum deilum.

Það verður þó að teljast líklegt að Demókrötum takist að útkljá útnefninguna á slíkan hátt að hún valdi ekki of miklum deilum. Á meðan að Repúblikanar eru að útnefna John McCain, sem er gríðarlega óvinsæll meðal stórs hóps í sínum flokki, þá þurfa Demókratar nauðsynlega að fylkja sér að baka leiðtoga með trúverðugt umboð. Hvort sem það verður Hillary eða Obama, þá er allavega mín skoðun að frambjóðandi Demókrata í kosningunum verður umtalsvert álitlegri kostur en John McCain.

13 thoughts on “Barak og Hillary”

  1. Góður pistill. Ég er meira og minna sammála öllu sem kemur fram í honum.

    Ég er reyndar hálfsáttur við að McCain sé að fá útnefninguna hjá Repúblikönum, frekar en Giuliani, Romney eða Huckabee. Það eru sko nöttarar í lagi, en McCain er betri frambjóðandi, að mínu mati, af tveimur ástæðum:

    Hann hefur allavega daðrað við demókratískar hugsjónir á sínum stjórnmálaferli, þannig að hann verður hugsanlega aðeins opnari fyrir þeirra hugmyndum en fyrirrennari sinn.
    Hann á nákvæmlega engan séns í baráttu gegn Obama eða Clinton. Hvað þá Obama og Clinton, en eins og þú er ég einmitt að vona að það tvíeyki bjóði sig fram saman. Er þó sammála þér með að ég sé Clinton ekki fyrir mér samþykkja varaforsetastólinn, þótt Obama gæti viljað þiggja þá stöðu fái Clinton útnefninguna.

    Ég sé allavega fram á spennandi kosningabaráttu vestan hafs. Hvort sem það er Clinton eða Obama, gegn McCain.

  2. Já, vissulega er McCain skásti kosturinn af þessum fjórum sem þú telur upp. En vandamálið við hann er að hann á mestu líkurnar á að vinna. Guiliani, Romney og Huckabee hefðu allir skíttapað, en McCain á sjens.

  3. John McCain?

    Það er til marks um það hversu lélegir mótframbjóðendur hans hjá Repúblikönum voru/eru að hann er að vinna þar örugglega. Það er ekki af því að hann er góður, heldur af því að hinir eru eins og úr leikriti eftir Arthur Miller. Trúðar upp til hópa.

    McCain er kannski að skúra gólfið með Giuliani, Romney og Huckabee en ég sé ekki hvernig í ósköpunum hann á að eiga séns gegn jafn færu PR-fólki og Clinton og Obama eru. Jafnvel þótt Obama heiti Hussein og Clinton sé kona, sem þeir munu eins og þú segir vafalítið reyna að nota gegn þeim.

    Þér er óhætt að vitna í þessi ummæli mín í haust. Ef John McCain getur unnið Clinton eða Obama í haust skal ég éta hatt minn.

  4. Já, ég held reyndar að eini sjensinn á að McCain vinni sé að Hillary fái útnefninguna og að hún klikki á einhvern hátt á því að tilnefna Obama sem varaforsetaefni.

    Annars var það magnað að horfa á kappræður Repúblikana. Einu mennirnir, sem mér fannst tala eðlilega voru Huckabee og Ron Paul, sem eru sennilega eins langt frá mínum skoðunum og hægt er að komast.

  5. Frábær grein Einar…

    Draumastaðan í þessu (fyrir mig) er sú að Hillary verði forseti og Obama varaforseti Held að það verði sterkúr dúett og myndi pottþétt efla ímynd Bandarríkjamanna víða um heim.

    kveðja,
    Jón Haukur

  6. Demókratar hafa nú margir hverjir sagt að þeir vilji síst af öllu mæta McCain í kosningunum.

    Minnir líka að aðalstrategisti John Edwards hafi sagt að McCain myndi líklega sigra gegn D, hlyti hann útnefningu R.

    Mér finnst svo bara alltof algengt að menn tali um að það sé algerlega borðleggjandi að D taki þetta og R eigi aðeins mýfluguséns. Hvaða málflutningur er það? Það eru 9 mánuðir í þessar kosningar, skulum alveg róa okkur.

    Það er ákveðinn sigur að blökkumaður og kona séu að berjast um útnefninguna hjá öðrum flokknum. Ég held hins vegar að þegar á hólminn er komið muni margir guggna, og kjósa frekar hvíta karlmanninn.

  7. Takk, Jón Haukur.

    Og ég er sammála þér um þetta, Þórður. Spurningin með McCain er samt líka hvort að repúblikanar muni leggja á sig að mæta á kjörstað. Það er mjög ólíklegt að evangelístar verði til að mynda jafn æstir að smala á kjörstað einsog síðast.

  8. Það er auðvelt að dæma þetta allt svona utanfrá. Miðað við það sem mér hefur heyrst um John McCain, og heyrt frá honum undanfarin ár og það sem ég hef heyrt í umræðunni er ég einmitt nokkuð viss um að hann á góðan séns í Clinton og Obama. Og ég veit um þónokkra Demókrata sem eru á báðum áttum hvort þau myndu kjósa hann… Þó restin af heiminum styðji Demókrata verðum við að reyna að sjá hlutina út frá Bandaríkjamönnum.

    Og það er líka algerlega fjarstæðukennt að reyna að halda því fram að Bandaríkjamenn ætli að kjósa Obama svo þeir líti betur út þegar þeir ferðast til útlanda. Flestir þeir Kanar sem ég hef kynnst (háskólafólk upp til hópa en þó ekki allir, flestir New Yorkerar eða Califoríubúar) ígrunda val sitt útfrá því hvað þeim finnst Ameríka þurfa á að halda innan frá séð.

  9. Þetta eru frábærir tímar… McCain er á fullu að reyna sannfæra fólkið sitt að hann sé nógu “conservative” til að vera frambjóðandi Repúblikana. Að mínu mati er McCain besti kosturinn hinu megin vegna þess að hann er einmitt ekki úber conservative. En Obama tekur þetta! Margir bandaríkjamenn er kannski hræddur við það að hann var “most liberal in conress 2007,” en mér finnst það frábært og það spilar vel inní í þetta “change” sem kanin er að leita að í þessum kosningum. Loksins er ungt fólk og minnihlutahópar að mæta og kjósa… loksins fær biblíubeltið og lobbíastar ekki að ráða! Eða við vonum….

  10. Þó restin af heiminum styðji Demókrata verðum við að reyna að sjá hlutina út frá Bandaríkjamönnum.

    Ég var að reyna það.

    Og það er líka algerlega fjarstæðukennt að reyna að halda því fram að Bandaríkjamenn ætli að kjósa Obama svo þeir líti betur út þegar þeir ferðast til útlanda

    Af hverju er það svo fjarstæðukennt? Ég er alls ekki að segja að það sé helsta ástæðan fyrir þessu, en það er að mínu mati líka fjarstæðukennt að Bandaríkjamenn séu algjörlega ómeðvitaðir um stöðu sína í heiminum. Ég hef til dæmis margoft heyrt menn tala um það (t.d. Zakaria hjá Newsweek) hvernig það horfi við múslimum að ætla að ráðast á land þar sem GWB er við stjórnvölinn versus það að ráðast á land þar sem ræður svartur sonur múslima.

    Flestir með hálfan heila gera sér grein fyrir því að til dæmis öryggi Bandaríkjamanna hefur ansi mikið með það að gera hvernig fólk í öðrum löndum sér þjóðina.

    Og ég er líka sammála, Sandra að McCain var skástur af þessum repúblikunum. Kosturinn við það er að ef Repúblikanar vinna, þá er tekur við maður með skynsama innflytjendastefnu (ekki klikkunina, sem að Romney og co voru að predika) og sem trúir á þróunarkenninguna. En gallinn er hins vegar að hann á meiri möguleika á að vinna kosningarnar.

Comments are closed.