Klukkan er hálf ellefu á föstudagskvöldi og ég sit á sófanum heima með vinstri löpp uppí loft, horfandi á Real World Hollywood. Ég var í aðgerð á hné í gær sem tókst ágætlega. Fyrstu helgina í júlí í sögulegri útilegu í Úthlíð lenti ég í smá gamni slagsmálum við vin minn, sem enduðu nokkuð illa. Síðan þá hef ég verið að drepast í hnénu og var því ákveðið að ég færi í aðgerð.
Hún þýðir að ég þarf að taka því rólega næstu daga og fæ ekki að fara í líkamsrækt í heilan mánuð, sem er hreinlega fáránlegt.
* * *
Horfði á íslenska landsliðið komast í úrslit á Ólympíuleikunum og var með tárin í augunum þegar að leikurinn kláraðist, að springa úr þjóðernisstolti. Mikið afskaplega var þetta gaman.
(uppfært: Aggi tók saman nokkrar erlendar blaðagreinar um íslenska liðið á Liverpool blogginu. Ég mæli með þeim.)
* * *
Um síðustu helgi fór ég ásamt kærustunni minni til Boston í helgarferð. Ryan, sem var herbergisfélagi minn í Northwestern, var að giftast Kate – sem ég þekkti líka frá Northwestern árunum. Við fórum út á miðvikudeginum og eyddum fimmtudegi, föstudegi, sunnudegi og mánudegi í Boston. Löbbuðum Freedom Trail, versluðum á Newbury, fórum með Dan vini mínum og Carrie kærustu hans á Fenway þar sem við sáum Red Sox rústa Texas Rangers, borðuðum fáránlega góðan mat, drukkum slatta af Bud Light og góðu víni og skemmtum okkur einfaldlega ótrúlega vel. Klárlega skemmtilegasta borgarferð, sem ég hef farið í.
Á laugardaginn keyrðum við svo upp til Harvard, sem er lítill bær vestur af Boston. Þar fór brúðkaupið fram undir berum himni uppí sveit. Athöfnin var ótrúlega skemmtileg og brúðkaupsveislan var einnig frábær. Ótrúlega persónuleg veisla, sem var laus við allt snobb og var uppfull af skemmtilegum atriðum, frábærum ræðum, góðri tónlist og fleiru. Saman gerði þetta helgina algjörlega ógleymanlega.
* * *
Þegar ég kom heim gat ég svo flutt inná nýja Serrano skrifstofu í Kópavogi. Núna er ég í fyrsta skipti í sögu fyrirtækisins kominn með mitt eigið skrifborð á okkar eigin skrifstofu. Hingað til hafði ég unnið mína vinnu heima hjá mér, í lítilli kompu uppí Kringlu eða á kaffihúsum bæjarins. Við vorum reyndar með aðra skrifstofu síðustu mánuði en þar var ég á einhverju asnalegu móttökuborði þar sem ég gerði lítið en að vísa fólki inná aðrar skrifstofur.
Jæja, ég ætla að snúa mér aftur að sjónvarpsglápi.
Láttu þér batna.