Ég er kominn inní nýju íbúðina mína á Södermalm í Stokkhólmi. Þessa íbúð er ég að leigja af Svía í 6 mánuði. Hann ætlar að eyða vetrinum í Indónesíu á brimbretti á meðan að ég ætla að reyna að eyða tímanum í að setja upp Serrano stað hérna í borginni.
Mér líður hálf skringilega að vera að reyna að koma mér fyrir hérna. Ég er búinn að heimsækja Stokkhólm það oft undanfarin ár að ég er farinn að þekkja borgina ágætlega, en það breytist ansi mikið þegar maður er kominn með eigin íbúð og þarf að versla í matinn og láta einsog maður eigi heima hérna. Ég er búinn að fylla ísskápinn af eggjum og öðrum matvörum sem mér finnst vera nauðsynlegar og ég er búinn að kaupa mér líkamsræktarkort fyrir næstu mánuðina, þannig að helstu nauðsynjar eru komnar.
Ég ætla að eyða vikunni hérna í Stokkhólmi á ýmsum fundum. Bæði með hugsanlegum birgjum, sem og auglýsingastofum og aðilum, sem gætu hjálpað okkur að byggja fyrsta staðinn okkar.
Ástandið á Íslandi hefur valdið því að við höfum þurft að hugsa suma hluti öðruvísi. Við vorum fyrir löngu búnir að fjárfesta það miklum fjárhæðum í þetta verkefni að það hefði verið of dýrt að hætta við, en við höfum þurft að aðlaga okkur. Eitt af því er að við munum til dæmis láta framleiða afgreiðsluborðið heima og svo flytja það tilbúið út til Svíþjóðar. Það sparar auðvitað gjaldeyri og skapar vinnu heima fyrir auk þess sem þetta var eiginlega eina leiðin til þess að klára borðið fyrir opnun hérna úti.
* * *
Ég hélt uppá afmælið mitt ásamt meðleigjendunum mínum tveimur á Njálsgötunni á föstudaginn. Við ákváðum að sameina afmælin okkar og það var svo sannarlega vel heppnað. Við héldum það í sal útá Seltjarnarnesi og það var meiriháttar stuð þar sem að yfir 100 manns komu. Við dönsuðum þar til þrjú og kíktum svo í bæinn eftir það. Á laugardaginn fórum við Margrét svo í innflutningspartí þar sem við vorum ekki alveg jafn hress og kvöldið áður.
Annars er veðrið hérna í Stokkhólmi fínt og mér líst bara nokkuð vel á framhaldið hérna í Svíþjóð. Bjartsýna áætlunin er núna að opna fyrsta staðinn okkar 1.desember. Til þess að það takist þarf þó eitthvað að breytast í gjaldeyrismálum heima. Ef þau mál leysast á næstu tveim vikum ætti það þó vonandi að ganga.
Skrifað í Stokkhólmi, Svíþjóð klukkan 21.03