Á Södermalm

Ég er kominn inní nýju íbúðina mína á Södermalm í Stokkhólmi. Þessa íbúð er ég að leigja af Svía í 6 mánuði. Hann ætlar að eyða vetrinum í Indónesíu á brimbretti á meðan að ég ætla að reyna að eyða tímanum í að setja upp Serrano stað hérna í borginni.

Mér líður hálf skringilega að vera að reyna að koma mér fyrir hérna. Ég er búinn að heimsækja Stokkhólm það oft undanfarin ár að ég er farinn að þekkja borgina ágætlega, en það breytist ansi mikið þegar maður er kominn með eigin íbúð og þarf að versla í matinn og láta einsog maður eigi heima hérna. Ég er búinn að fylla ísskápinn af eggjum og öðrum matvörum sem mér finnst vera nauðsynlegar og ég er búinn að kaupa mér líkamsræktarkort fyrir næstu mánuðina, þannig að helstu nauðsynjar eru komnar.

Ég ætla að eyða vikunni hérna í Stokkhólmi á ýmsum fundum.  Bæði með hugsanlegum birgjum, sem og auglýsingastofum og aðilum, sem gætu hjálpað okkur að byggja fyrsta staðinn okkar.

Ástandið á Íslandi hefur valdið því að við höfum þurft að hugsa suma hluti öðruvísi.  Við vorum fyrir löngu búnir að fjárfesta það miklum fjárhæðum í þetta verkefni að það hefði verið of dýrt að hætta við, en við höfum þurft að aðlaga okkur.  Eitt af því er að við munum til dæmis láta framleiða afgreiðsluborðið heima og svo flytja það tilbúið út til Svíþjóðar.  Það sparar auðvitað gjaldeyri og skapar vinnu heima fyrir auk þess sem þetta var eiginlega eina leiðin til þess að klára borðið fyrir opnun hérna úti.

* * *

Ég hélt uppá afmælið mitt ásamt meðleigjendunum mínum tveimur á Njálsgötunni á föstudaginn.  Við ákváðum að sameina afmælin okkar og það var svo sannarlega vel heppnað.  Við héldum það í sal útá Seltjarnarnesi og það var meiriháttar stuð þar sem að yfir 100 manns komu.  Við dönsuðum þar til þrjú og kíktum svo í bæinn eftir það.  Á laugardaginn fórum við Margrét svo í innflutningspartí þar sem við vorum ekki alveg jafn hress og kvöldið áður.

Annars er veðrið hérna í Stokkhólmi fínt og mér líst bara nokkuð vel á framhaldið hérna í Svíþjóð.  Bjartsýna áætlunin er núna að opna fyrsta staðinn okkar 1.desember.  Til þess að það takist þarf þó eitthvað að breytast í gjaldeyrismálum heima.  Ef þau mál leysast á næstu tveim vikum ætti það þó vonandi að ganga.

Skrifað í Stokkhólmi, Svíþjóð klukkan 21.03

Síðustu dagar…

Ég er í huganum búinn að byrja á um það bil 10 greinum um þessa kreppu. Einhvern veginn hefur mér alveg fundist vanta sögur frá þeim sem standa í því að reka fyrirtæki í þessu ástandi. Það er slíkt of-framboð af kverúlöntum, sem að besservissa um allt milli himins og jarðar í þessu ástandi, en einhvern veginn hefur mér fundist vanta eitthvað frá þeim, sem eru að reyna að reka sín fyrirtæki áfram í þessu ástandi. Mig langaði líka til að skrifa um það góða, sem gætu orðið til úr þessu ástandi: Fókus á smærri fyrirtæki, að okkar hæfasta fólk vinni ekki allt í bönkum og að neyslugeðsýkin minnki kannski pínu.

Ég hef heyrt afskaplega mikið af sögum um það hvernig fyrirtæki eru að lenda í vandræðum vegna þessa allsherjar klúðurs í gjaldeyrismálum þjóðarinnar, en af einhverjum ástæðum heyri ég það miklu frekar frá vinum og fjölskyldu heldur en úr fjölmiðlum eða á bloggsíðum. Kannski eru þeir sem standa í rekstri einfaldlega of uppteknir við að redda málunum til þess að tjá sig.

Ég skil ekki af hverju Davíð Oddson er enn seðlabankastjóri. Ég bara get hreinlega ekki skilið það. Ég hef aldrei haft neina sérstaka óbeit á honum og þegar ég var fyrst að byrja að spá í pólítík þá var ég Sjálfstæðismaður og hélt uppá Davíð. En hann hefur hins vegar ráðið nánast öllu síðan að ég fermdist og sú stefna sem hann hefur rekið í gegnum einkavæðingu bankanna og þá gjaldeyris- og vaxtastefnu sem hann hefur rekið í Seðlabankanum, hefur beðið svo stórkostlegt skipbrot að það er með hreinustu ólíkindum að hann skuli ekki hafa sagt af sér. Hversu miklu rugli þurfum við að vera í í peningamálum til þess að við skiptum um stjórn þar?  Vissulega var þetta ekki allt honum að kenna, enda hefur enginn haldið því fram. Gaurarnir sem unnu í bönkunum áttu ekkert að hugsa um okkar hag (umfram okkar eignir þar inni), heldur bara sitt rassgat og eigenda bankanna. Þannig virkar kerfið. En Seðlabankinn á að hugsa um mig. Hann á að sjá til þess að eignir okkar, sem eru skráðar í krónum, rýrni ekki stórkostlega. Það hefur honum mistekist. Og vegna þess eiga forystumenn í bankanum að víkja.

Af hverju segir aldrei neinn af sér á þessu landi? Af hverju er fjármálaráðherra dýralæknir, viðskiptaráðherra heimspekingur og Seðlabankastjóri lögfræðingur? Myndi þetta ganga upp einhvers staðar annars staðar?

* * *

Ég er að rembast við að stofna fyrirtæki í Svíþjóð. Ég hef eytt talsverðum tíma í að kynna mig og mitt fyrirtæki þarna úti og haldið uppi reglulegu sambandi við ýmsa aðila. Núna þarf ég sífellt að sannfæra þá um að ástæðan fyrir að ég geti ekki millifært peninga á þá sé ekki vegna peningaskorts heldur vegna þess að ekki sé hægt að millifæra af gjaldeyrisreikningi á Íslandi yfir á reikning í Svíþjóð.

Hverslags ástand er þetta eiginlega?

Annars virðast Svíarnir sýna þessu skilning. Einn aðili sem vinnur fyrir okkur sagði mér að hann hikaði við að skrá tíma á okkur, vegna þess að hann heyrði á hverjum degi hversu hræðilegt ástandið væri á Íslandi. Hann fékk móral yfir því að rukka íslenskt fyrirtæki. Kannski hjálpar það að við höfum kynnt okkur vel og að fólk þarna úti hefur trú á okkur. En það er alveg ljóst að ef við hefðum ekki byrjað á þessu verkefni fyrir einhverjum mánuðum, þá væri mun erfiðara að kynna okkur sem marktækt fyrirtæki þegar það kæmi í ljós að helsta afrek okkar væri það að hafa meikað það á Íslandi.

Ég fór annars á fund hjá Samfylkingunni í gær og þar klappaði ég ekki almennilega fyrr en að Jón Baldvin hélt þrumuræðu yfir ráðherrum flokksins. Jón Baldvin vildi tvennt af þrennu: Hjálp frá IMF, Davíð burt og Ísland í ESB. Ef það næðist ekki fram, þá hefði flokkurinn ekkert erindi í ríkisstjórn. Ég gæti vart verið meira sammála.

* * *

Ég er hins vegar þrátt fyrir kreppuna búinn að eiga frábært sumar og frábært haust.

Ég hætti við að fara út til Bandaríkjanna í skemmtiferð um þarsíðustu helgi en hef þess í stað farið útá land þrjár helgar í röð. Ég fór um síðustu helgi með kærustunni minni á Geysi, þar sem að kærasti vinkonu minnar býr. Núna um helgina var ég svo í partí-i á föstudagskvöld og fór svo uppí sumarbústað með fulltaf skemmtilegu fólki daginn eftir. Við borðuðum góðan mat og skemmtum okkur fyrir svipaðan pening og tveir bjórar hefðu kostað á djamminu í miðbænum. Næsta helgi lítur svo afskaplega vel út. Og í næstu viku fer ég út til Stokkhólms, þar sem að málefni Serrano í Svíþjóð munu vonandi mjakast áfram.

Forsætisráðherra Írlands um Ísland og ESB

Forsætisráðherra Írlands um fjármálakreppuna, Ísland og ESB:

> “On the financial front, Ireland would have been in a far worse position had it not been for our membership of the EU, the euro and the role the European Central Bank played in recent weeks and months.”

>Without EU membership, he said, Ireland could have ended up in a similar position to beleaguered Iceland where a crisis stemming from huge debts taken on by its main lenders has brought down the banking system and made the local currency virtually untradeable.

>”Thankfully it is a hypothetical situation, I wouldn’t like to think what the situation would be if we ended up like them (Iceland) with our own currency,” he said.

>”The access to the resources of the ECB far outweighs the resources of the Irish central bank or Iceland’s central bank. You only have to work that out for yourself to see.”

Ég er officially hættur að skilja hvernig fólk getur mælt gegn ESB aðild Íslands. Það er allavegana ljóst að það fólk stundar varla mikil viðskipti.

Já, og hérna er litla Sara Palin.

Mogginn og umhverfismatið

Eftir ritsjóraskipti á Mogganum þá gerist það sífellt oftar að ég er hjartanlega sammála leiðarahöfundum blaðsins. Það á sérstaklega vel við í morgun í leiðara, sem má lesa hér: [Tími óðagotsins](http://morgunbladid.blog.is/blog/morgunbladid/entry/675747/).

Þar segir um þá kröfu sumra að reglum um umhverfismat verði hreinlega kastað útum gluggann núna í kreppunni. Moggaritstjórar benda hárréttilega á að slíkt sé fáránlega skammsýnt.

>Nú er ekki rétti tíminn til að kasta til hliðar faglegum vinnubrögðum, hvort sem það er í umhverfismálum eða á öðrum sviðum.

>Ætlunin er ekki að búa aðeins í landinu næstu daga og vikur, heldur um ókomin ár og aldir. Eftir það fúsk og fum, sem hefur komið Íslendingum í einhverja mestu kreppu í sögu lýðveldisins, er ekki ástæða til þess að setja fúskið á stall.

>Virkjanir og stóriðja eru alvörumál og komandi kynslóðir eiga rétt á því að eins vel sé staðið að ákvörðunum um þau mál og kostur er. Fari eitthvað úrskeiðis er ekki hægt að bjóða komandi kynslóðum upp á þær skýringar að nokkra daga í október árið 2008 hafi menn verið svo örvinglaðir að einu ráðin voru örþrifaráð. Ákvörðunin um heildarmat á að standa.

Amen!

Hlutabréf

Note to self:

EKKI kaupa aftur íslensk hlutabréf.

(graf fengið af [M5](http://m5.is/)).

* * *

Mitt í allri Þjóðarsálargeðveikinni á blogginu hans Egils Helgasonar lá þessi gullmoli um kreppuna.

>Hvað varð annars um The Secret?

>Eitthvað virðist óskhyggjumönnum hafa brugðist bogalistin núna. Einhver sem hefur ekki hugsað nógu jákvætt.

>Legg til að það verði skipuð rannsóknarnefnd

Jamm.

Ingibjörg Sólrún og ESB

Mikið var gaman að sjá að Ingibjörg Sólrún er aftur komin í baráttuna og hún kemur inn af krafti með verulega góðri grein í Mogganum, sem að allir ættu að lesa.

Andrés tekur af mér ómakið og skrifar pistil, sem ég er 100% sammála hér: [ISG og krónukarlarnir](http://andres.eyjan.is/?p=724):

>Það er tími til kominn að forystumenn ríkisstjórnarflokkana setjist niður og semji upp á nýtt. Sjálfstæðisflokkurinn má stýra þeirri atburðarrás mín vegna.

>Bara ef menn taka hausinn upp úr sandinum og horfa framan í heiminn eins og hann er.

>Heiminn þar sem að íslenska krónan… er tilraun sem mistókst.

Nákvæmlega! Hversu lengi getur Íhaldið þrjóskast við? Vonandi ekki lengi.

Bretland og við

Úr Financial Times:

So Iceland and the UK traded blows yesterday. That isn’t strictly accurate – this is the big clunking fist of Gordon Brown versus the dignified defensive stance of Geir Haarde, Icelandic prime minister.

There is a small country suffering a financial crisis (the UK) and a tiny one whose economy has collapsed.

Careless savers and mind-bogglingly irresponsible councils ploughed their money into Icelandic bank accounts offering suspiciously high levels of interest. The banks failed. And there, finally, Brown had his Falklands moment.

Except, of course, Argentina was at least a fair fight. I watched an Icelander weep in Reykjavik as Brown spouted political poison.

Either prove that Iceland is a terrorist state, plundering the hard-earned savings of innocents abroad, or admit that it is a bankrupt one that suffered reckless bankers, incompetent regulators and compliant politicians. A country not too dissimilar to our own.

Nákvæmlega!

Gagnrýni frá Bretum á íslenskt hagkerfi og hvernig það treysti um of á erlent fjármagn og á bankakerfið kemur úr allra hörðustu átt.

Aðeins of seint…

Talandi um að vera vitur eftirá:

>Framsóknarflokkurinn hefur lagt fram frumvarp á Alþingi með það að markmiði að faglega verði staðið að ráðningu Seðlabankastjóra. Lagt er til að auglýst verði opinberlega eftir umsóknum um stöðu Seðlabankastjóra og að þeir skuli hafa háskólamenntun, reynslu og þekkingu á peningamálum og öðrum efnahagsmálum.

Ráðherra hvaða flokks réð gamla pólitíkusinn Davíð? Manninn sem að skapaði aðstæðurnar sem leiddu til þess ástands sem nú ríkir og olli sennilega því að Kaupþing rúllaði með fáránlegri frammistöðu í Kastljósi. (uppfært: Núna er semsagt skýringin á þessu að Árni M. Mathiesen talar ekki nógu skýra ensku).

Smá hint: Nafnið byrjar á F.

Bið

Jæja, klukkan er 15.25. Geir HH heldur blaðamannafund eftir 45 mínútur. Allar mínar eigur eru núna í eina bankanum á Íslandi, sem (enn) er ekki í ríkiseign. Á ég að panic-a? Á ég að hringja í þjónustufulltrúann minn og öskra á hann? Eru eignignar hvort eð er ekki verðlausar þar sem þær eru taldar í krónum? Ég hélt að ég hefði selt íbúðina mína fyrir 169.000 evrur, en nú er sú upphæð dottin niður í 110.000 evrur. Íbúðin sem ég seldi og ætlaði að nýta mér til þess að koma mér fyrir í Svíþjóð hefur núna rýrnað um nærri því 40% á örfáum mánuðum.

En get ég eitthvað gert annað en að bíða rólegur?

Í gær var ég í heimsókn í fyrirtæki. Þar sagði framkvæmdastjórinn að stærsta vandamál fyrirtækisins væri að starfsfólkið væri einfaldlega ekki að vinna.

* * *

En hérna er ég að reyna að einbeita mér að því að vinna. Ég er að reyna að skipuleggja veitingastaðina mína, reyna að bæta matseðilinn, hanna nýtt markaðsefni og að semja við leigusala í Svíþjóð. Við höfum alltaf farið varlega í okkar rekstri. En núna virðist allt vera farið til fjandans í kringum okkur og maður getur ekkert gert.

Það er frekar óþægileg tilfinning.

Það er slæmt þegar að mistök og hálfvitaháttur annarra (hverra sem það svo sem eru) hafa svona mikil áhrif á líf manns án þess að maður geti nokkuð gert. Ég tók engan þátt í þessu fokking fyllerí sem að reið yfir þjóðina síðustu árin og varla get ég gert mikið núna þegar allt er farið í fokk. En samt tapa ég.

Æ, en ég er samt þrátt fyrir allt alveg ótrúlega hamingjusamur. Það er víst nóg af kreppu-tuði á bloggsíðum landsins.