Djamm í Reykjavík og hættur í Kringlunni

Eftir 2 vikna hlé er ég byrjaður aftur á fullu í World Class.  Hafði reyndar mætt þar í jólafríinu og skokkað í rólegheitunum, en það var meira af skyldurækni en áhuga.  Í morgun var ég hins vegar mættur klukkan 6.30 og tók almennilega á eftir jólafríið.  Mikið afskaplega var það gott fyrir samviskuna núna seinni partinn.

Sem var fínt því ég borðaði á tveimur ofboðslega góðum veitingastöðum um helgina.  Á föstudagskvöldið borðaði ég hreindýrakjöt á La Primavera, sem var algjörlega frábært.  Á laugardaginn (eftir að hafa eytt eftirmiðdeginum í vinaboði) þá hittumst við Liverpool bloggararnir allir saman á Austur-Indíafélaginu (sjá blogg hjá Kristjáni Atla).  Ég hafði ekki farið þangað mjög lengi, enda síðasta heimsókn á þann stað ekki mjög skemmtileg (maturinn var góður, aðstæður í mínu lífi ekki).

En þetta kvöld var algjörlega frábært.  Fyrir það fyrsta var félagsskapurinn frábær og umræðuefnið (Liverpool) gríðarlega hressandi.  En maturinn var líka alveg ótrúlega góður.  Þetta er einn af þessum veitingastöðum þar sem ég fer alltaf 100% sáttur frá.  Ég fékk mér blandað Tandoori grill og drakk Cobra bjór með.

* * *

Eftir matinn var mér falið að leiða liðið um borgina.  Liverpool bloggararnir eru annaðhvort úr sveit, búa í Danmörku eða hætta sér ekki út fyrir úthverfin og því þurfti ég að vera guide um næturlíf Reykjavíkur.  Ég byrjaði á að fara með þá á Ólíver, þar sem mér datt í hug að þar væri hægt að spjalla í sæmilegum rólegheitum á efri hæðinni.  Mig grunaði samt ekki hversu mikil rólgheitin myndu verða.  Ég man þá tíð að Ólíver var pakkaður heilu laugardagskvöldin frá níu, tíu en á laugardaginn var nánast ekki Íslendingur inná staðnum þegar við vorum þarna á milli ellefu og miðnættis.  Flestir sem voru þarna inni virstust vera túristar, sem eru kannski ekki alveg jafn fljótir að finna á sér breytingar á íslensku skemmtanalífi og innfæddir.  Apótekið virðist hafa tekið gríðarlega af Ólíver og ef að þetta er það sem koma skal, þá á sá staður eftir að eiga í vandræðum.

Næst fórum við á annan stað, sem virðist líka vera á niðurleið í kjölfar opnunnar Apóteksins – Rex.  Mér datt líka í hug að við myndum fá borð þar (við reyndum í millitíðinni árangurslaust að fá borð á Ölstofunni og Boston).  Ég hafði rétt fyrir mér því að Rex var nánast algjörlega tómur.  Þegar við komum þangað voru ekki meira en 10 manns inná staðnum.  Með tímanum komu örfáir í viðbót og virtust flestir vera miðaldra túristar.  Nú hef ég ekki stundað Rex (reyndar ekki farið þangað inn í meira en ár), en þetta hlýtur að vera vonbrigði.

Þrátt fyrir þennan skort á fólki á Rex var gaurnum á undan mér meinuð innganga vegna þess að hann var í hettupeysu.  Ég, sem var í hettupeysu og jakka yfir, var hins vegar ekki stoppaður.  Ég hef alltaf verið á móti dress code, sem að byggir á því að banna einhverja ákveðna flík (strigaskó, hettupeysur) – þar sem menn geta verið með ólíkindum illa klæddir og komist inn, á meðan að vel klæddu fólki er meinaður aðgangur bara fyrir að vera í strigaskóm (eða hettupeysum).  Ég var að tryllast yfir þessum reglum í Liverpool þar sem að fólk komst inn í ljótustu fötum í heimi á meðan að tísku-fyrirbærinu mér var meinaður aðgangur vegna þess að ég var í strigaskóm.  🙂

Allavegana, við enduðum svo allir á Ölstofunni þar sem við (ég reyndar bara) vorum til lokunnar.  Þar hitti ég fulltaf vinum og skemmtilegu fólki og skemmti mér alveg hreint ljómandi vel.  Ég er fyrir löngu búinn að taka Ölstofuna í sátt, sérstaklega eftir reykingabannið.  Frábært kvöld.

* * *

Í Fréttablaðinu í dag er viðtal við e-a konu, sem segir:

“Ég fór með ömmu minni í Kringluna 3. janúar. Þar mættum við heilu hjörðunum af fólki og allt hljóp það við fót með græðgisglampa í augum. Við amma urðum að gæta okkar á því að troðast ekki undir

Það er varla að ég þori aftur í Kringluna eftir þessa lýsingu.

Besta vekjaraklukka í heimi

Þessi hugmynd að vekjaraklukku er sú besta sem ég hef nokkurn tímann séð.

Pælingin er semsagt sú að vekjaraklukkan sé tengt við netið í gegnum Wi-Fi.  Þegar hún hringir og þú ýtir á “snooze”, þá gefur þú sjálfkrafa til einhverra málefna sem að þér er illa við að styðja.  Þetta er með ólíkindum snjöll hugmynd.  Ég er viss um að ég myndi algerlega hætta að ýta á snooze ef ég vissi að hverjar auka 10 mínútur af svefni myndu þýða rífleg fjárframlög til framsóknarflokksins.

Ferðalög og blogg

Fyrir einhverjum mánuðum benti einn Couhsurfing gestur mér á síðuna World’s Most Traveled People, sem er áhugaverð fyrir ferðalaga-nörda. Þar er heiminum skipt uppí 673 svæði. Síðan virðist ekki vera mjög vinsæl á Íslandi þar sem ég er í efsta sæti meðal Íslendinga, en ég hef ferðast til 83 staða og á því “bara” 590 staði eftir.

Stofnandi síðunnar, Charles Veley hefur komið til 629 staða og á aðeins 44 eftir. Gott hjá honum.

* * *

Samkvæmt þessum lista er þetta blogg 14. vinsælasta bloggið á Blogg-Gáttinni. Einnig er það í 5. sæti yfir þau blogg, sem oftast voru í efsta sæti á Blogg Gáttinni. Það er ágætt miðað við hversu illa þessi bloggsíða er uppfærð. Og einnig er það nokkuð merkilegt í ljósi þess að þessi bloggsíða fjallar nánast eingöngu um sjálfan mig, en ekki um pólitík, trúmál eða önnur slík mál, sem fólk virðist elska að þræta um.

Einnig er athyglisvert að þessi síða er talsvert vinsælli en Liverpool bloggið á Blogg gáttinni (sem lendir í 22.sæti). Aðalástæðan fyrir því er auðvitað sú að svo margir fara beint inná Liverpool bloggið, þar sem flestir sem skoða þá síðu lesa líka umræðurnar sem eru í gangi allan sólarhringinn, en koma ekki eingöngu inn þegar að nýjar færslur koma inn, líkt og er sennilega á þessu bloggi. Liverpool bloggið fær allavegana umtalsvert fleiri heimsóknir á hverjum degi en þetta blogg.

Mér finnst það líka pínu magnað að af 20 vinsælustu bloggunum samkvæmt þessum lista, þá les ég bara fimm: Silfur Egils, Gneistann, Örvitann, Stefán Pálss og Henry.

* * *

Í dag er ég ennþá pirraður yfir fótboltaleik, sem var spilaður í Norðurlhuta Englands í gærkvöldi.  Það er á stundum sem þessum sem ég efast um geðheilsu mína.

* * *

Og ég vil fá snjó í þessu blessuðu fjöll í kringum borgina, svo ég geti prófað snjóbrettið mitt.  Það er nákvæmlega EKKERT gott við þetta veður sem á okkur dynur.  Ef einhver æðri vera gæti bent mér á tilganginn við svona veðurfar, þá væri það indælt.  Ég sé hann ekki.

2008

Síðustu dagar eru búnir að vera afskaplega skemmtilegir.  Mér finnst þó alltaf fínt að koma í vinnu eftir át og leti-tíma.

Ég fór á mjög skemmtilegt djamm á laugardaginn.  Byrjaði í jólagleði UJ, sem var frábær skemmtun, fór svo á Vegamót með vinum mínum þar sem ég skemmti mér með góðu fólki og endaði svo á Ölstofunni í skemmtilegum samræðum um sjálfan mig og loks í eftirpartí.

Fór að sofa um 7 leytið en var samt mættur í brunch hjá bróður mínum klukkan 11.  Um eftirmiðdaginn komu vinir mínir í heimsókn að horfa á hrikalega frústrerandi jafntefli hjá Liverpool – og svo um kvöldið var ég með ansi skemmtilegt spilakvöld með vinum mínum.

* * *

Gamlárskvöld var svo frábært.   Ég byrjaði heima hjá systur minni í frábærum mat og fór svo heim til mömmu og pabba þar sem var skotið upp flugeldum.  Upplifði það meðal annars að fá tvær stórar rakettur til að springa í nokkura metra fjarlægð frá mér.  Fyrst tókst bróður mínum að festa stærsta flugeld kvöldsins svo kyrfilega, að eftir að ég kveikti í honum, þá tókst hann ekki á loft.  Þegar ég sá að hann hreyfðist ekki hljóp ég inní bílskúr og slapp við að fá þetta framan í mig.

Svo þegar ég og frændi minn vorum að kveikja á einni tertunni þá fór flugeldur frá nágrönnunum á hliðina, dúndraðist á tré og sprakk þar rétt hjá okkur.  Mjög hressandi allt saman.

Eftir að hafa drukkið kampavín inní húsi fór ég svo í partí niðrí miðbæ.  Þar var gríðarlega gaman.  Ég þekkti fáa í partíinu, en það kom ekki að sök, því að ég kynntist mjög skemmtilegu fólki á staðnum.  Um 5 leytið fór ég með tveimur vinum á Prikið þar sem við vorum í einhvern smá tíma áður en við fórum aftur í partíið þar sem ég var til klukkan 9.  Og það þrátt fyrir að vera nokkurn veginn edrú.  Frábært kvöld.

* * *

Gærdagurinn fór svo í það að snúa sólahringnum aftur við.  Horfði á Ratatouille, sem var mjög góð en kannski ekki jafn stórkostleg og [Metacritic dómarnir gáfu í skyn](http://www.metacritic.com/film/titles/ratatouille?q=ratatouille), borðaði nammi og svaf heil ósköp.

En jæja, þá tekur víst alvaran við.