Þetta er búið að vera frábært ár.
Þetta er búið að vera ár mikilla breytinga í mínu lífi. Ég flutti til útlanda, við stofnuðum veitingastað í öðru landi, ég fékk heilablóðfall, við Margrét ferðuðumst til margra landa og við eignuðumst okkar eigið heimili. Þegar ég horfi tilbaka get ég ekki annað en verið ótrúlega ánægður með þetta ár.
* * *
Stærsta breytingin er auðvitað sú að við Margrét fluttum til Svíþjóðar. Það var búið að vera ansi lengi á dagksrá hjá mér að flytjast frá Íslandi. Ég hafði byrjað að pæla í þessu nokkrum árum áður þegar að lífið mitt var mjög ólíkt því sem það er í dag. Það var í raun bara tilviljun að ég flutti frá Íslandi þegar að allt var við suðumark í janúar á Íslandi. Allt þetta ár hef komið þrisvar til Íslands í mislangar heimsóknir, en annars hef ég bara fylgst með ástandinu á netinu. Það hefur verið dálítið skrýtið, en það er líka hálf furðulegt hversu vel maður getur verið inní umræðunni með því að fylgjast með bloggsíðum og Feisbúk statusum hjá vinum sínum.
Dvölin í Svíþjóð hefur verið frábær. Við bjuggum fyrst í lítilli leiguíbúð við Folkungagötuna á Södermalm en í byrjun apríl fluttum við inní íbúðna okkar á Götgötunni. Sú íbúð er algjörlega frábær. Hún er í húsi frá 1890 á allra besta stað á Södermalm, sem er uppáhaldshverfið mitt í Stokkhólmi. Íbúðin okkar vísar inní garð, en um leið og við förum útum útidyrahurðina þá erum við komin í iðandi mannlíf fullt af verslunum, veitingastöðum og börum. Þetta er hverfi sem mér líkar afskaplega vel við að búa í.
Íbúðin hefur svo smám tekið á sig mynd. Margrét hefur auðvitað frábæran smekk og hún hefur stjórnað innkaupum á því dóti sem við höfum smám saman sankað að okkur. Það hefur kannski gengið hægt, en smám saman er íbúðin að verða einsog eftir okkar höfði. Enn er til dæmis álpappír í gluggunum á svefnherberginu, en það mun vonandi lagast á næsta ári.
* * *
Það hefur verið afskaplega fróðlegt að stofna fyrirtæki í Svíþjóð. Þetta fór allt saman rólega af stað, en sérstaklega frá því í haust hafa hlutirnir gengið hraðar fyrir sig og akkúrat núna erum við á fullu við að undirbúa opnun á stað númer 2, sem mun opna í Sundbyberg í lok janúar. Það verður glæsilegur staður með sætum fyrir um 40 manns. Það að opna í öðru landi hefur kennt mér ansi margt varðandi fyrirtækjarekstur, en það hefur hjálpað að ég hef haft frábær fólk í kringum mig, sem hefur komið mér í gegnum þetta ár – sérstaklega þegar að hlutirnir gengu ekki sem best. Næsta ár verður klárlega spennandi ár í rekstri Serrano í Svíþjóð.
Hérna heima hefur Serrano gengið gríðarlega vel og árið 2009 var langbesta ár okkar í sögunni.
* * *
Ég fékk heilablóðfall í mars. Ég gerði því ágætis skil í blogg-greininni sem ég vísa á. Ég hef, að því er virðist, náð mér fullkomlega. Allavegana líður mér alveg jafn vel og fyrir áfallið, sem eflaust breytti einhverju í mínu lífi. Ég kann enn betur að meta hversu yndislega kærustu ég á og líka vini og fjölskyldu.
Ég breytti líka aðeins líkamsræktinni minni í kjölfarið á heilablóðfallinu. Læknirinn minn skipaði mér að hætta að lyfta lóðum, allavegana í einhvern tíma og í stað þess að hanga í líkamsræktarsal, sem mér fannst fáránlega leiðinlegt – þá byrjaði ég í vor að hlaupa á næstum því hverjum degi og í sumar hljóp ég hálfmaraþon. Í haust byrjaði ég svo í CrossFit, sem er án efa skemmtilegasta líkamsrækt sem ég hef stundað (fyrir utan boltaíþróttir). Margfalt skemmtilegra en að lyfta í lyftingasal og ég er líka í betra formi en ég hef verið af lyftingum.
* * *
Við Margrét höfum líka ferðast ótrúlega mikið í ár. Við fórum í frábært skíðaferðalag með vinum okkar, í frábæra helgarferð til Madrídar, í mjööö skemmtilegar Íslandsheimsóknir, til San Francisco, Færeyja og svo í mánaðarlanga ferð til Indónesíu, sem var algjörlega frábær.
Svo höfum við endað þetta ár með vinum okkar og fjölskyldu heima á Íslandi. Dagskráin hefur verið ótrúlega þétt, en jafnframt fáránlega skemmtileg. Við höfum flakkað á milli matarboða, partía og fjölskylduboða á síðustu vikum og skemmt okkur frábærlega. Þrátt fyrir að við kunnum rosalega vel við okkur í Stokkhólmi þá er alltaf ótrúlega gaman að koma heim til Íslands og njóta lífsins hér. Næstu dagar verða líka jafn uppfullir af skemmtilegum hlutum. Næsta ár mun byrja með brúðkaupi og svo erum við búin að skipuleggja partí og matarboð alla daga fram að brottför aftur til Svíþjóðar.
Ég veit að alveg einsog í fyrra hefur þetta blogg legið á hakanum ansi mikið. Ég kann ágætlega við það þannig. Að ég geti gripið í það þegar mig langar til að skrifa um eitthvað skemmtilegt, en jafnframt þá er það ekki lengur svo að mér líði einsog ég verði að uppfæra það reglulega. Þannig er ágætt að hafa það.
* * *
Ég er mjög hress við þessi áramót. Mér líður ótrúlega vel í mínu starfi, ég á frábæra vini, fjölskyldu og langbestu kærustu í heimi. Það er allt sem skiptir máli.
Gleðilegt ár. Takk fyrir að lesa.
Sæll Einar,
Ég vil nota tækifærið á þessum tímamótum og óska þér og fjölskyldunni gleðilegs árs, og vona að komandi ár verði þér og þínum gæfuríkt.
Við þekkjumst nú ekki beint, en við eigum sameiginlegt áhugamál, Liverpool. Ég biðst afsökunnar á að hafa vaðið inná þína persónulegu síðu á skítugum skónum, en mig langaði bara að þakka fyrir skemmtileg skrif, bæði hér og á kop.is.
Sérstaklega þóttu mér skrif þín um heilablóðfallið athygliverð. Nú þótti mér hvorki spenndi né skemmtilegt að þú hafir fengið heilablóðfall, en ég hef aldrei, hvorki fyrr né síðar lesið jafn merkilega frásögn og jafn góða lýsingu á þessu fyrirbæri. Mér fannst það bara stórbrotinn lestur, sem veitti mér mikla innsýn inní þetta fyrirbæri.
Takk fyrir mig, og gleðilegt árið Einar…. gæfan fylgi þér…
Insjallah..Carl Berg
( Birkir Freyr – Akureyri)
Takk kærlega! Það er alltaf frábært að lesa svona kveðjur.
Gleðilegt ár sömuleiðis.
Sæll Einar og Margrét Rós 🙂
Það er búið að vera mjög skemmtilegt að hafa ykkur hérna á Íslandi og þrátt fyrir svipaða dagskrá og hjá Obama nokkrum…. þá hefur mér tekist að hitta ykkur bæði tvö, heilmikið 🙂
Eftir að hafa fylgst með þér Einar á blogginu,Facebook og í eigin persónu þá hallast ég að því að þú sért að gera flesta ef ekki alla hluti rétt…hvort sem það er í einkalífinu,viðskiptum eða viðbrögð þín við heilablóðfallinu og síðast en ekki síst hvernig þú kemur fram við einkadóttur mína 🙂
Gangi ykkur báðum allt í haginn,
Kærleikskveðja pabbi.
Gleðilegt ár og haltu ótrauður áfram með ævintýrið í Svíþjóð og með þetta eitt áhugaverðasta blogg veraldarvefsins.
Takk kærlega Sigurjón! 🙂
Og takk HHG!
Þakka sömuleiðis öll árin sem eru að líða. Þó svo bloggið þitt hafi aðeins minnkað í magni finnst mér breytingin til hins betra. Í staðinn fyrir eina hlið á málunum að þá les maður núna líka bloggið hennar Margrétar.
Vona að árið 2010 verði jafn viðburðarríkt og árið 2009 (að heilablóðfallinu undanskildu) þannig að maður geti nú farið að láta sig hlakka til skemmtilegrar ferðasögu.
…. og hver veit nema þú verðir á undan Frikka að fjölga þér árið 2010?
Nýárskveðja frá hávaðaseggjunum í Lundi,
Borgþór, Björk, Margrét Eva og Bríet Lív