Í dag eru bara tvær vikur í að við opnum næsta Serrano staðinn hérna í Svíþjóð.
Ég er gríðarlega spenntur fyrir þessari opnun því þetta er sú mest spennandi staðsetning sem við höfum opnað stað á hérna í Svíþjóð. Fyrstu tveir staðirnir sem við opnuðum voru í úthverfum, en þessi er í miðbænum. Staðurinn er í nýbyggingu á Kungsbron, sem er gata sem tekur við af Kungsgötunni og nær frá miðbænum yfir á eyjuna Kungsholmen. Þetta svæði er í gríðarlega mikilli uppbyggingu, enda er þetta í raun eina svæðið í miðbæ Stokkhólms þar sem má byggja nýbyggingar. Byggingin sem Serrano er í er byggð ofaná brautarteinum og það á við um margar byggingar þarna í nágrenninu. Serrano staðurinn er því nálægt Aðal-lestarstöðinni í Stokkhólmi.
Þetta verður líka stærsti Serrano staðurinn sem við höfum opnað hingað til, með sætum fyrir um 70 manns. Það er umtalsvert meira en á stærsta staðnum heima á Íslandi. Þannig að það er auðvitað talsverð áhætta af þessari staðsetningu – hún er ekki ókeypis – en þarna í nágrenninu vinnur og býr mikið af fólki.
Ég tók nokkrar myndir þarna í dag og í gær og þær eru hér að neðan:
Serrano staðirnir verða þó eftir sem áður tveir því við ákváðum að loka fyrsta staðnum okkar (það var gert í gær) og færa tæki og annað yfir á Kungsbron. Sú staðsetning virkaði einfaldlega ekki nægilega vel. Við erum þó sannfærðir um að staðurinn á Kungsbron eigi eftir að slá í gegn hjá Svíum. Við munum opna 29.apríl.
Til hamingju með þetta! Var leiður að sjá að þið hafið ákveðið að loka í Vällingby þar sem ég bý bara 5 mínutur þaðan og fer stundum og fæ mér mat hjá ykkur. En nú mun ég geta hoppað niður af 7 hæð í húsinu og fengið mér hádegismat í staðinn þar sem ég vinn í húsinu.
Ef þú vilt fá hjálp við að auglýsa staðinn þar sem ég vinn (þar vinna ca 200 manns og meirihlutinn fer út í hádegismat), láttu mig þá vita.
Takk fyrir það. Ég skal senda á þig póst.