Síðustu mánuði hef ég fengið að hlusta á Lady Gaga ansi oft. Hún er í miklu uppáhaldi hjá Margréti og það þýðir að í tíma og ótíma hef ég heyrt lögin hennar. Ég hélt því fram við Margréti að ég þekkti bara eitt lag með Lady Gaga (Pokerface) en ég komst að því að það var nær því að ég þekkti 10 lög með henni.
Fyrir nokkrum vikum buðust mér svo boðsmiðar á tónleika með henni hérna í Globen. Lady Gaga hafði selt upp tvö kvöld í Globen og við fengum miða á fyrra kvöldið í gegnum auglýsingastofunna okkar hérna í Stokkhólmi.
Ég var ekkert sérlega spenntur fyrir tónleikunum fyrirfram, en ég verð að segja að þeir komu mér skemmtilega á óvart. Tónleikarnir eru settir upp sem nokkurs konar leikrit eða ópera. Sviðið var einsog leikmynd í leikhúsi og tónleikarnir skiptust í 4 hluta, sem voru með ólíkar sviðsmyndir og hún í ólíkum búningum. Á milli laga (kannski í 3-4. hverju lagi) kom upp risastór tjald með einhverjum stuttum vídeóskotum (oftast undir Dance in the Dark). Þetta þýddi að tónleikarnir voru einsog lítið leikrit með söguþræði.
Þetta hljómar kannski ekkert alltof spennandi, en þetta gekk ótrúlega vel upp. Ég komst að því á tónleikunum að ég þekkti auðvitað fulltaf lögum með Lady Gaga og þótt að ég hefði ekki verið að tapa mér, grátandi og öskrandi einsog 13 ára stelpurnar fyrir aftan okkur, þá skemmti ég mér bara ótrúlega vel. Lady Gaga er nefnilega helvíti flott og hæfileikarík söngkona, sem hefur samið alveg helling af alveg ótrúlega grípandi lögum.
Eftir tónleikana var ég svo með lög með henni nánast stanslaust á heilanum. Fyrst var stef úr Dance in the Dark, svo kom Bad Romance og Telephone og öll hin lögin. Í vikunni sá ég að þetta gekk ekki lengur og setti tónlist frá henni inná iTunes hjá mér. Síðan þá hef ég varla hlustað á aðra tónlist.
Þannig að á nokkrum vikum þá hef ég farið frá því að lýsa frati á Lady Gaga yfir í það að hlusta á hana í símanum á hverjum degi. Gott popp getur haft svona áhrif á mann.
ég trúi ekki að enginn ætli að kommenta á hversu góð áhrif ég er að hafa á popp kúltúr heimilisins!