Ryugyong hótelbyggingin í Pyongyang í Norður-Kóreu hefur lengi heillað mig. Hún byrjaði sem eitthvað brjálæðislegt verkefni Norður-Kóreustjórnar og átti að verða að aðal-kennileiti borgarinnar. Þrátt fyrir að í Norður-Kóreu séu nánast engir túristar þá átti þetta að verða hæsta hótelbygging í heimi þegar að þeir byrjuðu að byggja árið 1987. En málið var að penigarnir kláruðust og árið 1989 var byggingu hætt þegar að það var ennþá byggingarkrani oná sjálfu hótelinu.
Hótelið leit því næstu 20 árin svona út.
Þetta var frekar neyðarlegt fyrir Norður-Kóreustjórn. Official gædar fyrir túrista á vegum stjórnarinnar neituðu til að mynda að viðurkenna að byggingin væri til. Ég hef lesið sögur á netinu þar sem að gædinn neitaði að svara spurningum um bygginguna, þótt að hún væri beint fyrir aftan hann. Hún var einnig tekin útaf kortum af borginni. Allt var gert til að reyna að gleyma byggingunni, sem er auðvitað ómögulegt því hún gnæfði yfir alla Pyongyang borg með byggingarkranann oná og innviðina í rúst. Það mátti engin fara inn því menn voru hræddir um að þá myndi allt hrynja.
Þegar ég sá þessa frábæru myndaseríu í The Atlantic frá Norður-Kóreu þá sá ég að loksins er byrjað að klára hótelið. Það er víst egypskt fyrirtæki sem tók við verkefninu og núna hefur byggingin verið klædd að utan og þar á að opna veitingastaður á efstu hæðinni á næstu árum. Ryugyong lítur því svona út í dag. Talsverð breyting, þótt að ég hafi ekki séð neinar myndir af byggingunni innan frá ennþá.