Á þessu ári hef ég sennilega ekki hlustað jafnmikið á neinn listamann líkt og hina sænsku Veronica Maggio. Veronica er þrítug, frá Uppsala og hefur gefið út þrjár plötur. Sú nýjasta hefur verið spiluð gríðarlega mikið heima hjá okkur Margréti síðustu mánuði, sem og á nánast öllum útvarpsstöðvum í Svíþjóð.
Á morgun ætlum við Margrét að sjá Veronicu spila á Cirkus á eyjunni Djurgården í Stokkhólmi. Ég er gríðarlega spenntur.
Ég held að Veronica hafi verið nokkuð vinsæl í Danmörku og Noregi, en sennilega ekki á Íslandi. En hérna eru tvo æðisleg lög sem eru af nýju plötunni sem heitir Satan i Gatan. Ef þú hlustar á þau 2-3svar sinnum þá er ég sannfærður um að þú fallir fyrir henni.
Fyrst stuðlagið Jag kommer, sem er sennilega mest spilaða lagið af plötunni. Ég þurfti bara að heyra það tvisvar til þess að fá það algjörlega á heilann.
Og svo Mitt hjärta blöder, sem er líka frábært lag.
Ég veit ekki hvað það er með sænskar stelpur, en Robyn átti án efa besta lag síðasta árs (Dancing on my own) og Veronica Maggio á á þessu ári það lag sem ég hef mest hlustað á. Einhvern tímann hefðu það nú þótt fréttir.