Ég hef lengi ætlað að setja saman lista um uppáhalds veitingastaðina mína í Stokkhólmi. Ég og Margrét höfum borðað gríðarlega oft úti eftir að við fluttum hingað. Við erum bæði miklir áhugamenn um mat og okkur þykir fátt skemmtilegra en að borða á nýjum og spennandi veitingastöðum. Núna er þessi listi loksins kominn á netið hjá mér – og það er hægt að nálgast þessa síðu sem tengil í hausnum á þessu bloggi.
Stokkhólmur býður uppá ótrúlega mikið af frábærum veitingastöðum. Það eru margir gallar við framboðið af stöðum (svo sem slæmt úrval af ódýrum stöðum, pizzum og asískum) en á mörgum sviðum er Stokkhólmur alveg frábær veitingastaðaborg.
Ég setti saman listann yfir okkar uppáhalds staði eftir flokkum. Þarna eru bara staðir, sem ég myndi mæla með fyrir mína vini. Allt frá ódýrum hádegisstöðum yfir í 2ja stjörnu Michelin staði.
Fyrir fólk, sem er að skipuleggja ferðalag til Stokkhólms þá mæli ég klárlega með að skoða þennan lista og plana fyrirfram á hvaða veitingastöðum er borðað því það þarf að panta borð á öllum bestu stöðunum. Ef að fólk sleppir því að skipuleggja, þá endar það oftast á einhverjum hroðalegum túristagildrum á Gamla Stan, sem ég myndi ekki mæla með fyrir mína verstu óvini.