Í dag er 17.apríl. Ef að allt gengur vel munum við Margrét á næstu dögum eða vikum eignast son.
Ég er orðinn 34 ára gamall. Hérna í Stokkhólmi þykir það ekki hár aldur til að vera barnlaus, en á Íslandi er það svo að flestir jafngamlir vinir mínir eiga að minnsta kosti eitt barn. Pabbi átti þrjú börn á sama aldri og bróðir minn líka. Þegar ég skoða fólk sem eru kunningjar mínir frá því í barna- eða framhaldsskóla þá finnst mér stundum einsog það fólk sé 10 árum eldri en ég. Fjölskyldufólk með börn í skóla, sem sækir krakka í fiðlutíma og á fótboltaæfingar.
Lengi vel þótti mér það líf ekki spennandi. Ég var jú á lausu þangað til að ég varð 31 árs gamall. Á stundum dreymdi mig um aðeins meiri stöðugleika í mínu lífi með góðri konu, en ég naut þess líka að vera single. Ég naut þess að ferðast um heiminn, ég setti af stað fyrirtæki og vann tvær vinnur á löngu tímabili. Ég gerði það sem mér fannst ég þurfa að gera áður en ég var tilbúinn til þess að róast aðeins.
Svo breytist maður, eldist og allt það og einn daginn finnst manni allt í einu spennandi að eignast börn og stofna fjölskyldu. Ég hef alltaf vitað að mig langaði að eignast börn, en það var alltaf eitthvað sem ég sá fyrir mér í einhverri óskilgreindri framtíð. Svo bara smám saman varð þessi framtíð að veruleika. Og ég var búinn að finna hina fullkomnu stelpu til að giftast og stofna fjölskyldu með. Þannig að þetta passaði.
Margrét er núna gengin aðeins yfir 36 vikur og þetta óléttutímabil hefur verið gott. Einsog ég bjóst við þá er maður sem karlmaður auðvitað í öðru sæti á þessu tímabili. Það er jú konan sem gengur með þetta barn og það verður engin breyting á mínum líkama. Þannig að ég hef lítið geta gert nema að reyna að hjálpa eins mikið og ég hef getað. Elda oftar, þrífa meira og svo framvegis. Verkefnunum er vanalega nokkuð jafnt skipt á okkar heimili, en ég hef reynt að taka yfir stærri hluta af verkefnunum en ég geri vanalega. Og maður reynir að vera extra tillitsamur, því verkefninu er jú fáránlega misskipt. Við ákváðum saman að eignast þetta barn og líf mitt hefur haldið áfram einsog vanalega síðustu mánuði á meðan að Margrét hefur ekki farið í crossfit í 4 mánuði og á tímabili mátti hún ekki fara útúr húsi og lá uppí sófa mestallan daginn.
Því er það besta sem maður getur gert bara að vera til staðar. Mæta í alla tíma sem maður er boðaður í án þess að spyrja – jafnvel þótt það þýði fæðingarnámskeið á nákvæmlega sama tíma og Liverpool mætir Everton í úrslitum FA bikarsins. Miðað við þær fórnir sem að maki manns færir þá er það ekki merkilegt.
En það er samt ekki hægt að komast framhjá því að líkt og með öðru í óléttunni, þá erum við karlar bara í áhorfendasæti. Það er jú gaman að finna fyrir sparkinu á maganum á Margréti, en Margrét er hins vegar að upplifa það að það er einstaklingur inní maganum á henni!!! Mér finnst það magnað þegar að ég verð svangur og eitthvað loft hreyfist til í maganum á mér. Mér fannst líka einu sinni magnað að kaupa svona nammi sem að sprakk í munninum á manni. Hvernig tilfinning er það þá að hafa lífveru inní maganum á sér, sem hreyfir sig allan daginn? Það hlýtur að vera alveg stjarnfræðilega furðulegt og því varla undarlegt að stelpur verðu mun uppteknari af óléttunni og séu á óléttutímanum búnar að bindast barninu sterkari böndum en við karlar.
Ég hef hugsað mikið um það undanfarna mánuði hvernig ég var alinn upp og hvernig samband mitt við foreldra mína var. Sumir hlutir breytast bara af því að við erum af annarri kynslóð. Ég held einhvern veginn að uppeldi okkar Margrétar verði allt öðruvísi en mitt uppeldi var. Ekki af því að mér finnist foreldrar mínir hafa gert neitt vitlaust, heldur eru bara breyttir tímar. Og ég hef áttað mig á þeim hlutum sem mér langar að hafa öðruvísi í sambandi mínu við minn son.
Hvernig sem hann verður, þá vonandi tekst okkur vel upp. Vonandi gerum við ekki of mörg mistök og vonandi verða mistökin okkar ekki of alvarleg svo að við getum ekki bætt úr þeim.
Ég veit allavegana að ég hef aldrei á ævinni verið jafn spenntur fyrir neinu verkefni og þessu.
Einar minn, þetta er alveg sérlega vel skrifað í alla staði og hittir mig beint í hjarta stað ! Svipaðar pælingar hafa átt sér stað hjá mér (nokkrum sinnum) en maður gerir sér mun betur grein fyrir hlutunum þegar búið er að koma þeim á blað….takk Einar 🙂
Takk takk.