3 speed

>life is funny
but not ha ha funny
peculiar I guess
you think I got it going my way
then why am I such a fuckin’ mess?

Af einhverjum ástæðum líður mér einsog það sé sunnudagskvöld. Ég er ógeðslega þreyttur, ennþá þunnur og lyktin af pizzunni sem ég pantaði er ógeðsleg (*note to self: Þér finnst pepperoni pizza frá Domino’s ekki lengur góð!*).

Íbúðin er í drasli og mér líður asnalega.

Ég er með hundruðir klukkutíma af sjónvarpsefni á mynd-diskum, en einhvern veginn finn ég ekkert sem mig langar að horfa á. Og því er ég að hlusta á Electro-shock blues með Eels, sem er ein af mínum uppáhaldsplötum, en svosem ekki plata sem maður grípur vanalega í á laugardagskvöldum.

Þegar ég kom heim í morgun fattaði ég að lyklarnir mínir voru ekki í jakkanum mínum. Ég veit ekki enn hvað varð um þá. Hvort að einhver fáviti hafi stolið þeim eða hvort mér hafi tekist að missa þá einhvers staðar.

Allavegana, ég þoli ekki að vera til vandræða og vildi því ekki hringja í mömmu um miðja nótt til að fá hennar eintak. Þannig að ég fór útá Hótel Sögu og ætlaði að fá mér hótelherbergi. Ég var orðinn svo örmagna af þreytu og mér var hálf óglatt eftir þennan laukfyllta Hlöllabát sem ég hafði borðað, að ég hefði borgað hvaða upphæð sem er fyrir hlýtt herbergi og mjúkt rúm.

En það var fullbókað á Sögu, þannig að stelpan í afgreiðslunni lagði til að ég myndi hringja á lásasmið. Og hann kom og kom mér inn, þurfti að brjóta upp lásinn og setja nýjan á íbúðinni minni.

Ég fór svo að sofa og mér dreymdi svo fáránlega asnalega og leiðinlega drauma að ég hef eiginlega ekki náð mér í allan dag. Það er fáránlegt hvað manni getur liðið æðislega fabjúlöss þegar maður er vel til hafður á skemmtistað í Reykjavík – og svo liðið svona ferlega asnalega heima hjá sér, þunnur í íþróttagalla, daginn eftir.

Ég er farinn að sofa.

**Uppfært (sunnudagsmorgunn)**: Óttalegt væl er þetta. Mér líður æðislega. Ég held að ég hafi ekki sofið betur í margar vikur. 🙂

2 thoughts on “3 speed”

  1. Er þetta ekki bara veðrið sem veldur? Konan mín var sofnuð eldsnemma í gærkvöldi á meðan ég hékk á netinu og horfði á DVD. Fór svo að sofa allt of snemma (fyrir klukkan tvö) í einhverju þokukasti.

    Með öðrum orðum, svona týpískt virkt kvöld bara … nema hvað þetta var laugardagur.

    Ég kenni veðrinu um.

  2. Jú, veðrið átti svo sannarlega þátt í þessu. En líka að fótbolti sleit daginn í sundur og ég fékk ekki síðdegisblundinn, sem að reddar vanalega þynnkunni hjá mér. 🙂

Comments are closed.