Aftur af stað

Við Margrétum erum á leið í ferðalag á morgun.

Einsog alltaf hafa síðustu dagarnir fyrir frí verið uppfullir af stressi, sem getur oft verið ansi skemmtilegt.

Í dag prófaði ég m.a. tvo nýja mexíkóska staði, sem hafa opnað í Stokkhólmi undafarna viku. Annar með ekta mexíkóskan mat og hinn með tex-mex. Það þýðir að samkeppnin fyrir Serrano er að aukast, en við bjuggumst svosem alltaf við því og teljum okkur alveg geta staðist samanburð við alla staði. Ekta staðurinn var meira spennandi fyrir mig, enda var þar til sölu tacos al pastor, sem ég hef tjáð ást mína á áður. Í minningunni voru þó tacos í Mexíkóborg umtalsvert betri.

* * *

Ég er með pínu móral yfir því að yfirgefa Stokkhólm þegar að borgin lítur svona út. Veðrið er æðislegt og það eru fáar borgir í heiminum, sem eru fallegri en Stokkhólmur í góðu veðri.

En á morgun eigum við allavegana flug til Bangkok frá Stokkhólmi. Við eigum að lenda í Bangkok klukkan 5.50 morgunin eftir. Við eigum svo ekki flug til Jakarta fyrr en 8 um kvöldið þannig að við höfum daginn allan í Bangkok og getum því tekið smá túristarúnt þar. Svo fljúgum við til Jakarta um kvöldið og lendum þar um miðnætti. Þar ætlum við bara að eyða rúmum degi og svo fara í austurátt á Jövu.

Ég mun auðvitað blogga ferðasögur einsog vanalega.

Ég er orðinn spenntur.

3 thoughts on “Aftur af stað”

  1. Kæru vinir. Hafið það sem allra best á ferðalaginu. Vona að þið hafið pakkað heilladísunum í handfarangurinn og að trippið gangi vel.

    Kv. frá Lundi,.. Borgþór og fjölsk.

Comments are closed.