Alþjóðavæðing fyrir lengra komna

Stefán Pálsson skrifar í dag grein á Múrinn um alþjóðavæðingu.

Greinin er í raun ekki galin, þar sem hún í raun bara nefnir nokkrar tölur um það hvernig hagvöxtur hefur farið minnkandi í ýmsum fátækari löndum heimsins, svo sem Suður-Ameríku og gefur í leið í skyn að vandamálin séu alþjóðavæðingu að kenna.

Stefán talar um efnahagskerfi Suður-Ameríku frá 1960-1980. Á þeim tíma (og reyndar mun fyrr, alveg frá lokum Kreppunnar) var kerfið byggt uppá því, sem kallast “Import Substituted Industrialization” (ISI). Hugmyndin var sú að þessar þjóðir myndu byrja að framleiða flestar neysluvörur sjálfar. Með því yrðu þær ekki eins háðar öðrum þjóðum. Varð þessi hugmynd vinsæl vegna þess að margar þessar þjóðir höfðu horft fram á hrun í hagkerfunum þegar verð á einstökum vörum duttu niður. Þannig kom t.d. Brasilía mjög illa út úr því þegar verð á gúmmíi og kaffi duttu niður. Lausnin var að mati stuðningsmanna ISI að leggja tolla á innfluttar vörur og nota tollapeningana til að styrkja innlendan iðnað.

Hugmyndin við ISI kann að hafa virkað nokkuð góð í upphafi en hún virkaði einfaldlega ekki. Vandamálið var fyrst og fremst að þessar þjóðir urðu með ISI enn háðari erlendum þjóðum vegna þess að þær þurftu að kaupa vélar og tækni frá þróaðri þjóðum.

ISI lofaði í fyrstu góðu og nutu menn einsog Perón í Argentínu og Vargas í Brasilíu góðs af hagvextinum. Vandamálið var hins vegar að skuldir þjóðanna jukust jafnt og þétt. Gripu margir leiðtogar því til þessa ráðs að prenta peninga til að borga skuldir. Leiddi þetta til óðaverðbólgu í mörgum löndunum (verðbólga í Bólivíu varð eitt árið 22.000 prósent!).

Það, sem Stefán minnist ekkert á er af hverju þjóðir hættu að notast við þetta kerfi, sem hann gefur í skyn að sé svo gott. Ég ætla að rifja það upp fyrir honum. Árið 1982 gerðist það nefnilega að stjórnvöld í Mexíkó sögðu einfaldlega að þau hefðu ekki lengur efni á að borga skuldirnar sínar. Landið hafði viðhaldið hagvexti með stöðugum lántökum (mikið af olípeningunum frá OPEC ríkjunum voru lánaðir til ríkja í Suður-Ameríku). Kreppan, sem fylgdi í kjölfarið er oftast nefnd “debt crisis”. Bankastofnanir fóru allt í einu að óttast um innistæður þróunarlanda og sáu menn nú að þessar skuldasafnanir gengju ekki endalaust.

Til að bjarga efnahagnum í Mexíkó kom alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og lagði fram stærsta lán í sögunni. Það var náttúrulega öllum augljóst að bankinn ætlaði ekki bara að lána Mexíkó peningana til að þeir gætu haldið aftur á sömu braut, heldur fylgdu láninu ýmis skilyrði, sem áttu að tryggja að skuldir landsins myndu minnka. Var þetta upphafið að mikilli frjálshyggjubylgju í Suður-Ameríku.

Ég skal vel viðurkenna að alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er alls ekki fullkominn, langt því frá. Til dæmis hefur sjóðnum misstekist að bjarga efnahag ríkja í Suður-Ameríku. Hins vegar má benda á það að sjóðurinn neyðir engar þjóðir til að þiggja peninga. Þjóðir koma til sjóðsins vegna þess að þær eru búnar að koma sér í vanda. Vandinn er langoftast heimatilbúinn.

Það er rangt að gefa það í skyn að lækkun hagvaxtar í Suður-Ameríku sé einhvern veginn afleiðing alþjóðavæðingar. Málið er miklu flóknara en svo. Það er hins vegar auðvelt fyrir marga andstæðinga alþjóðavæðingar að benda á dæmi Suður-Ameríku, einsog margra annara landa og halda því fram að vandamál þeirra landa séu alþjóðastofnunum að kenna. Í langflestum tilfellum skapa alþjóðastofnanir ekki vandann heldur þjóðirnar sjálfar. Þegar svo alþjóðastofnunum mistekst að bjarga þjóðum úr slæmum stöðum er stofnunum kennt um og allir verða vitlausir.

One thought on “Alþjóðavæðing fyrir lengra komna”

Comments are closed.