Áramótaávarp 2008

2008 er búið að vera besta ár ævi minnar.

Þrátt fyrir allt sem hefur gerst í haust á Íslandi þá breytir það því ekki að árið markaðist fyrst og fremst af því skemmtilega fólki, sem ég umgekkst og öllu því skemmtilega sem gerði. Ég er eflaust einn hinna heppnu. Ég seldi íbúðina mína í vor á góðu verði og ég bý núna í leiguíbúð með tveim vinum mínum og skulda því nánast ekki neitt. En maður minnist áranna sennilega ekki vegna efnahagsástands, heldur fyrst og fremst vegna fólksins sem var í kringum mann. Mestu góðærisárin með öllu fylleríinu voru ekki mín bestu ár og ég fékk lítið úr því að eiga fína íbúð og nýjan bíl. En núna þegar ég keyri um á 6 ára gömlum bíl og bý í leiguíbúð með öðrum, en umgengst skemmtilegt fólk og á stórkostlega kærustu, þá líður mér miklu betur en áður.

* * *

Árið hefur gengið vel í vinnunni. Emil, sem á Serrano með mér, byrjaði að vinna við staðinn í fullu starfi í upphafi ársins og það gerði mér kleift að einbeita mér að því að setja Serrano upp í Svíþjóð. Við fengum fjármögnun á það verkefni í mars og síðan þá höfum við verið að vinna með sænsku ráðgjafafyrirtæki til að finna staðsetningu fyrir fyrsta staðinn. Sú staðsetning fannst í sumar og núna er staðan sú að við ætlum að opna fyrsta Serrano staðinn í Svíþjóð 21.janúar næstkomandi.

Ég hef verið mikið í Svíþjóð á árinu til að undirbúa staðinn. Er búinn að semja við birgja, banka og alla þá aðila sem við þurfum að vinna með á staðnum. Erum einnig búin að ráða rekstrarstjóra, sem byrjar næsta vor og í byrjun janúar munum við taka viðtöl við starfsfólk fyrir staðinn. Ég er með ágæta íbúð í Stokkhólmi á leigu, en fljótlega á næsta ári þarf ég að finna nýja íbúð.

Heima hefur Serrano gengið vel og veltan tvöfaldast frá því árið 2007. Við opnuðum tvo staði á árinu, á N1 Bíldshöfða og í Dalshrauni í Hafnarfirði.

* * *

Ég ferðaðist talsvert á árinu, mun meira en í fyrra. Í byrjun ársins fór ég ásamt nokkrum vinum mínum í frábæra ferð til Liverpool þar sem við sáum mína menn vinna Sunderland. Stuttu seinna fór ég ásamt Emil til San Francisco, þar sem við heimsóttum fæðingarstað þeirrar típu af burrito, sem við seljum á Serrano. Þar smökkuðum við mikið af mat og undirbjuggum Svíþjóðar planið.

Í maí og júní ferðaðist ég svo um [Mið-Austurlönd](http://eoe.is/ferdalog/#mid-austur-2008) í algjörlega frábærri ferð. Ég fór til Líbanon, Sýrlands, Jórdaníu, Ísrael og Palestínu og upplifiði hluti sem ég hafði aldrei upplifað áður. Ég sá Petra, Jerúsalem, Damaskus, Palmyra og Beirút. Ég kynntist ótrúlegu fólki, borðaði stórkostlegan mat, upplifði nýja siði og kom aftur breyttur maður og ótrúlega hamingjusamur. Mér fannst ég vera sáttur við lífið og hvert ég stefndi.

Og stuttu seinna byrjaði ég með kærustunni minni, Margréti. Það er rúmt ár síðan við kynntumst í fyrsta skipti og við höfðum hist öðru hvoru í gegnum sameiginlega vini, en við byrjuðum ekki saman fyrr en ég bauð henni útað borða í júlí. Fram að því hafði sumarið verið stórkostlegt með frábærri útilegu í Úthlíð sem hápunkt. Og restin af sumrinu var líka lygilega skemmtileg. Þetta var án nokkurs efa besta og skemmtilegasta sumar ævi minnar. Allar helgar gerði ég eitthvað skemmtilegt. Ég fór á ótrúlega skemmtilega Þjóðhátíð, í skemmtilegar sumarbústaðarferðir og útilegur og svo fór ég í brúðkaup hjá gamla herbergisfélaga mínum úr Northwestern nálægt Boston í lok sumars.

* * *

Seinni part ársins hef ég flakkað mikið á milli Reykjavíkur og Stokkhólms. Í ágúst flutti ég úr íbúðinni minni við Hagamel, sem ég hafði átt í 6 ár. Þar með má segja að ákveðnu tímabili í mínu lífi hafi lokið. Í þessari íbúð var ég búinn að upplifa ansi margt. Ég valdi hana með fyrrverandi kærustu minni, svo hættum við saman áður en ég flutti inn. Á Hagamelnum hef ég búið síðustu 6 ár, haldið öll þessi partí og verið í öllum þessum samböndum, sem ekki hafa gengið upp. Undir það síðasta var mér hætt að þykja vænt um íbúðina, ég var hættur að laga hluti sem biluðu og ég vildi bara komast í burtu. Þegar ég flutti út þá byrjaði ég að leigja með tveim vinum mínum í miðbæ Reykjavíkur. Það hefur verið skemmtilegt, enda frábært að vera nánast alltaf umkringdur fólki eftir að hafa búið svona lengi einn.

Í janúar mun ég svo flytja til Stokkhólms ásamt kærustunni minni. Hún ætlar að leita að vinnu þangað til í haust þegar hún fer í háskóla, en ég ætla að reyna að koma af stað fyrsta Serrano staðnum. Ég hreinlega get ekki beðið. 2008 er búið að vera stórkostlegt ár og ég er gríðarlega bjartsýnn á að næsta ár verði líka gott. Ég veit að þetta blogg hefur ekki verið burðugt fyrir utan kannski ferðasöguna, en ég vona að það batni á næsta ári. Mér líður ótrúlega vel við þessi áramót og bíð spenntur eftir næsta ári.

Gleðilegt ár. Takk fyrir að lesa.

9 thoughts on “Áramótaávarp 2008”

 1. Yndislegt að lesa, enginn bölmóður á þessum bænum. Vona að lífið haldi áfram að leika við þig. Gleðilegt ár.

 2. Yndislegt að heyra og lesa 🙂 Gangi þér og þínum alltaf sem allra allra best 🙂

 3. Gleðilegt nýtt ár Einar minn,,
  vona að 09 verði jafn frábært hjá okkur báðum & 08 🙂
  Hlakka til að kíkja í heimsókn til ykkar í Svíþjóð..

 4. 65 ára í marz og les allt um þig reglulega..undirliggjandi í þínum frábæra frásagnastíl er dýpt.
  Einar Örn , gleðilegt ár. Hamingjan sem þú kannt svo vel að meta, fylgi þér og vinum Þínum. Mundu bara að halda áfram heiðarleika og sannleika.Horfðu á okkur sem vissulega á þínum aldri ætluðum okkur að vera föður- og móðurbetrungar og klúðruðum því STÓRT. Að leiðarljósi::ég er sannur:
  Umvef þig ungi maður og trúi á að þú og þínir líkar, kynslóðin sem ólst upp við að möguleikarnir væru ótæmandi, taki við keflinu og útrýmið klíkuskap,spillingu og sóðaskap okkar sem eldri eru.

  Stokkhólmur er falleg og kúltiveruð borg, gangi þér vel þar með fyrirtækið, en ég tel að þú og vinirnir vinnið meiri afrek að vera í Reykjavík og endurskipuleggja,t.d.SUS. ýta Sigurði Kára,Birgi og Guðlaugi út í hafsauga.Þessir Susarar hafa aldrei sagt satt orð, settir í kóperingmaskínu Davíðs og verja vígið sitt með óheiðarleika og mállæði.Fyrirgefðu að ég skuli setja þig á einhvern bekk með þessum viðriðnum..en Einar Örn, skoraðu þá á hólm, okkur vantar í alla flokka trúverðuga einstaklinga, hef trú á globetrottaranum þér..

  Með góðri kveðju…

Comments are closed.