Lightning strikes three of the tallest buildings in Chicago at the same time! on Vimeo – Eldingar á þremur stærstu byggingunum í Chicago á sama tíma. Nokkuð magnað myndband.
Author: einarorn
Punktar um HM
Hérna eru nokkrir punktar í kjölfar HM.
- Mínir menn töpuðu í úrslitaleiknum. Ef ég hefði samt getað valið einhverja mynd í heiminum, þá hefði sennilega engin mynd geta glatt mig jafnmikið í kjölfar leiksins og þessi hér. Fernando Torres með HM styttuna og Liverpool trefil?
- Mér fannst Spánverjar leika hundleiðinlegan bolta á HM. Þeir voru án efa með besta liðið og besta mannskapinn. En að menn haldi því að þeir spili skemmtilegan bolta og að “knattspyrnan hafi unnið” er bara bull. Ég horfði á flesta leiki Spánar og get ekki sagt að neinn þeirra hafi verið skemmtilegur.
- Það að Spánn hafi tapað fyrir Sviss og svo unnið alla hina leikina með einu marki er glatað.
- Fólk vælir ótæpilega yfir leik Hollendinga og hversu grófir þeir voru. Ég er eflaust með litaðar skoðanir, en mér fannst þetta ekki vera jafn slæmt og margir vilja meina. Vissulega eru Van Bommel og De Jong grófir leikmenn og hefðu geta fengið fleiri spjöld, en ég get ekki séð af hverju menn vilja dæma hollenska liðið svona hart. Þeir unnu alla leiki í undankeppninni og uppað úrslitaleiknum. Þeir voru vissulega heppnir með sjálfsmörk andstæðinganna, en yfir allt var ég nokkuð sáttur við mína menn.
- Fernando Torres er minn uppáhalds knattspyrnumaður og það var slæmt að sjá hversu illa hann náði sér á strik í keppninni. Þó er ágætt að benda á að samkvæmt tölfræði Fifa var mesti hraði, sem að Torres náði í keppninni sami hraði og Gareth Barry náði. Það er klárt mál að meiðsli háðu honum. Hann kórónaði svo óheppnina með að meiðast aftur í úrslitaleiknum.
- Mér fannst þessi HM keppni ekki sérstaklega skemmtileg. Ég heyrði einhvers staðar að þegar að Þýskaland komst yfir gegn Úrúgvæ hafi það verið í fyrsta skiptið í keppninni, sem að bæði liðin höfðu haft forystu í sama leiknum. Það er hreint ótrúleg staðreynd. Ég hafði frekar takmarkaðan áhuga á þessari keppni. Kannski að þetta síðasta tímabil hjá Liverpool hafi minnkað áhuga minn á fótbolta aðeins.
- En aðal vonbrigðin eru að Spánn hafi ekki spilað almennilega skemmtilega í neinum leik. Það er með ólíkindum að lið, sem er að kjarna til sama lið og Barcelona skuli spila svona leiðinlegan fótbolta á meðan að Barca spilar svona skemmtilegan. Ég veit að það vantar Messi í liðið, en samt.
Markaðurinn í Mexíkóborg
Hjá Kottke rakst ég á þessa færslu þar sem fjallað er um aðalmarkaðinn í Mexíkóborg, Cental de Abasto.
Central de Abasto er risavaxinn markaður, alls um 3,3 ferkílómetrar að stærð. Þar er hægt að fá nánast allt, sem manni getur dottið í hug. Inná markaðinum eru 2.230 básar sem selja allt. Markaðurinn hefur meira að segja sína eigin lögreglu með um 700 lögregluþjóna.
Ég hef afrekað það að vinna á þessum markaði á nánast hverjum degi eitt sumar þegar ég vann í Mexíkó. Þá vann ég hjá sælgætisfyrirtæki og markaðurinn var mikilvægur söluaðili fyrir okkur. Í Mexíkóborg er það nefnilega þannig að stór hluti af sælgæti er seldur af gríðarlegum fjölda sölumanna, sem að labbar um borgina eða situr á teppi og selur nokkrar tegundir af tyggjói, sígarettum og sælgæti. Öfugt við Ísland þar sem oftast er nóg að tala við 2-3 aðila til að fá góðan markað fyrir nýjar vörur, þá þurftum við að höfða til þessara tugþúsunda sölumanna til að kynna okkar vöru.
Til þess vorum við með nokkrar stelpur, sem unnu á markaðinum á hverjum degi við að kynna okkar sælgæti. Mitt hlutverk var að fara á markaðinn og sjá hvernig þeim gekk, hvernig þær seldu, og þjálfa nýtt sölufólk (sem voru alltaf stelpur). Hálf vinnuvikan mín fór fram á Central de Abasto, en einnig heimsótti ég kynningarstelpur okkar sem unnu í öðrum búðum og mörkuðum í Mexíkóborg. Þetta var einstaklega skemmtilegt starf (allavegana í minningunni) og þarna lærði ég ansi mikið um sölustörf, sem hefur nýst mér. Ég fékk að sjá ansi stóran hluta borgarinnar með þessu og ég kynntist annari hlið af Mexíkóborg en túristarnir gera.
Myndin við færsluna tók ég af sölubás í Central de Abasto árið 1997.
Á HM held ég með…
Kærastan mín heldur því fram að ég sé miklu meiri Liverpool aðdáandi en fótboltaaðdáandi. Þegar að ég horfi á Liverpool leiki er ég spenntur, það má ekki trufla mig með málefnum ótengdum Liverpool, ég missi ekki af mínútu úr leik og svo framvegis. Yfir HM (sérstaklega riðlakeppninni) missti ég hins vegar af leikjum og þegar ég var að horfa á leiki þá var alltaf á Twitter eða að gera aðra hluti.
Þegar ég hugsa þetta er þetta að vissu leyti rétt. Ég er fyrst og fremst Liverpool aðdáandi. Og ég hef líka þann kost/galla að ég þarf að hafa tilfinningar til annars hvors liðsins í íþróttaleik til þess að ná að fylgjast með honum af áhuga. Þetta veldur því meðal annars að ég horfi á mun færri fótboltaleiki en ég myndi annars gera. Margir myndu segja að það væri kostur.
Þegar ég var spurður að því fyrir þessa HM keppni með hverjum ég héldi, þá var svarið nokkuð flókið. Einu liðinu held ég með af því að ég haldið með því síðan ég var 10 ára. Hinum liðunum held ég með af því að ég tengdist þeim á einhvern hátt þegar að ég bjó í löndunum eða var á ferðalagi þar. Ég hélt/held með:
1. Holland: Ég hef haldið með Hollandi síðan ég var lítill strákur. Ég á einhverjar smá minningar frá HM 1982, en ég man svo sem ekki hvort það var af því að ég hafi horft mikið á keppnina eða bara séð hlutina í sjónvarpi einhverju seinna. En á HM 1986 hélt ég með Frakklandi og ég held að ég hafi örugglega gert það mín fyrstu ár. Platini var minn uppáhaldsleikmaður og ég man að ég með Juventus (sem Platini spilaði fyrir), einsog ég útskýrði í þessari færslu á Liverpool blogginu um Heysel slysið.
Eftir 1986 hætti Platini að spila og á einhverjum tímapunkti varð Ruud Gullit minn uppáhaldsleikmaður. Þegar ég var 10 ára voru hann og Marco van Basten keyptir til AC Milan og næstu ár voru það myndir af þeim tveim ásamt Frank Riijkard, sem að þöktu veggina í herberginu mínu. Á EM 1988 byrjaði ég fyrir alvöru að halda með Hollandi og þeir unnu auðvitað þá keppni með glæsibrag. Síðan þá hefur Holland verið mitt lið. Ekki vegna þess að ég hafi einhver sérstök tengsl við landið, heldur er það bara Gullit og félögum að þakka að ég hef haldið tryggð við þá síðan þá.
2. Mexíkó: Síðustu 12 ár hef ég haldið með Mexíkó eftir að ég bjó þar. Ég elska Mexíkó einsog ég held að hafi komið fram hér áður. Og í þessari keppni komst ég að því að tilfinningar mínar gagnvart Mexíkó eru talsvert sterkar. Ég var allavegana nógu andskoti fúll þegar að þeir duttu út gegn Argentínu.
3. Argentína: Ég hef haldið með þeim nokkuð lengi þó ég sé ekki einn af þeim, sem elskaði Maradona á HM 1986. Þá hélt ég með Frakklandi og ég man að ég hafði líka talsvert sterkar tilfinningar til Belgíu, sérstaklega til Jean-Marie Pfaff, markvarðar þeirra. Ég man að í einhverri Þýskalandsferð með foreldrum mínum hafði ég fengið Bayern Munchen plakat þar sem að Pfaff var með félögum sínum.
Allavegana, síðustu ár hef ég haft tilfinningar til Argentínu, aðallega eftir að ég eyddi þrem vikum þar með vinum mínum og fór meðal annars á ógleymanlegan Boca Juniors leik þar sem ég var með heitustu stuðningsmönnum þess liðs fyrir aftan annað markið. Ég komst þó að því á þessu HM að tilfinningar mínar til Argentínu eru ekki jafn sterkar og til hinna tveggja liðanna. Ég varð brjálaður þegar að Argentína sló út Mexíkó og ég varð ekkert svo svekktur í gær þegar að Argentína datt út fyrir Þjóðverjum.
Auk þessara þriggja liða hélt ég að mestu leyti með liðum útaf Liverpool mönnum. Ég held með Spánverjum útaf Reina og Torres, en ég verð að játa að um leið og Torres var tekinn útaf í gær varð mér eiginlega alveg sama um leikinn. Þó vildi ég heldur sjá þá áfram því ég vil ekki sjá Þýskaland í úrslitunum. Ég hélt pínu með Englendingum útaf Gerrard og Johnson, en það var ekki mjög sterkt. Auk þessara liða þá hefði ég væntanlega haldið með Svíþjóð og Venezuela ef þau hefðu komist á HM. Eina landið, sem ég hef búið í en held ekki með er sennilega Bandaríkin. Ég bara get ekki haldið með Bandaríkjunum í fótbolta.
Í þessi 22 ár, sem ég haldið með Hollandi, hefur liðinu aldrei gengið jafnvel og á þessu HM móti. Það er ánægjulegt og ekki skemmir fyrir að þeir eru með Liverpool-manninn Dirk Kuyt, sem ég elska að hata og elska. Ég er nokkuð öruggur á því að Holland komist í úrslitin og ég held að á góðum degi ætti liðið að geta unnið bæði Þýskaland og Spán.
Örvitinn: Hvar var gvuð Brasilíumanna?
Örvitinn: Hvar var gvuð Brasilíumanna?. – Matti veltir fyrir sér af hverju Guð virðist hafa yfirgefið brasilíska knattspyrnumenn í þessari HM keppni.
%title%
The Entire Series of LOST Re-Enacted By Cats In 1 Minute. – @TremendousNews! – Allir Lost þættirnir endurleiknir af köttum á innan við mínútu (og engir spoilerar). Stórkostleg snilld.
Hálf maraþon – önnur tilraun
Jæja, ég skráði mig í kvöld í Stokkhólms hálfmaraþonið, sem fer fram 11.september.
Ég prófaði að hlaupa hálfmaraþon í fyrra og fór þá svipaðan hring og er hlaupinn í Stokkhólms maraþoninu á 1 klukkutíma og 51 mínútu. Ég stefni á að fara á 1 klukkutíma og 35 mínútum í þetta skiptið. Ég tel það sæmilega bjartsýnt takmark. Í dag er ég ekki í eins góðu hlaupaformi og ég var í í fyrra, en á móti er ég í mun betra almennu líkamlegu formi eftir að hafa æft CrossFit síðan í september. Hins vegar er enn talsverður tími í hlaupið, svo ég ætti að geta komið mér í betra hlaupaform.
Ég ætla að leggja aðeins meiri áherslu á að hlaupa á jöfnum hraða núna og smám saman byggja upp þol til þess að ég geti klárað þetta á 1.35. Það þýðir að ég þarf að fara hvern kílómeter á sirka 4 og hálfri mínútu, sem er talsvert hraðara en ég er vanur að hlaupa á þegar ég hleyp lengri hlaup. Planið næstu þrjá mánuði er að æfa CrossFit þrisvar í viku og á móti hlaup þrisvar í viku. Ég held að ég sjái svo fljótt hvort ég get klárað þetta á þessum tíma.
10 ár
Ég er frekar slappur í því að halda utanum stóra áfanga á þessu bloggi. Oftast er það þannig að ég les færslu hjá Gumma Jóh þar sem hann fagnar sínu bloggafmæli og þá man ég að ég hef gleymt bloggafmælinu mínu. Ég byrjaði nefnilega að blogga nokkrum vikum á undan honum.
Þetta blogg er núna orðið 10 ára gamalt. Það er ótrúlegt. Fyrstu færsluna skrifaði ég á þetta blogg 22.apríl 2000. Þá notaði ég Blogger.com, sem var á þeim tíma nokkuð nýtt tól. Það voru ekki mörg blogg á Íslandi – ég man að ég las blogg hjá Björgvin Inga og Geir Freys, en mikið fleiri voru þau ekki bloggin á Íslandi þá. Fyrstu árin var þetta frekar þröngur hópur, sem bloggaði reglulega, mest strákar á milli tvítugs og þrítugs.
Áhugi minn á bloggi hefur komið og farið í gegnum árin. Í byrjun var þetta rosalega gaman. Færslurnar á mínu bloggi voru alltaf mjög stuttar, en ég bloggaði á tímum oftar en einu sinni á dag. Með auknum vinsældum bloggsins hefur áhugi minn aðeins dafnað. Í dag eru blogg um pólitík alltof áberandi á Íslandi. Flest bloggin á Mbl og á Eyjunni virðast fjalla nær eingöngu um pólitík og ég les ekki mörg þeirra. Það vantar blogg frá skemmtilegu fólki, sem hefur frá einhverju áhugaverðu að segja – ekki bara fólk sem hefur skoðanir á öllu, sem er að gerast á Íslandi. Mér finnst til dæmis ótrúlegt að það skuli ekki vera til fleiri skemmtileg blogg um tónlist, sjónvarp, bíó, íþróttir og svo framvegis.
Liverpool bloggið, kop.is – sem í dag er mun vinsælla en þessi síða – er nokkurs konar afsprengi þessa bloggs og bloggsins hjá Kristjáni Atla. Ég skrifaði alltof mikið um fótbolta á þessa síðu og síðustu mánuðirnir áður en við stofnuðum Liverpool bloggið voru einmitt líka síðustu mánuðir Houllier hjá Liverpool, þannig að pistlar mínir um Liverpool voru ekki beint jákvæðir. Síðan að við stofnuðum Liverpool bloggið hefur sú síða vaxið gríðarlega í vinsældum og er haldið uppi af frábærum pennum, sem skrifa með mér og Kristjáni, og gríðarlega góðum hópi af málefnalegum og skemmtilegum lesendum.
* * *
Áhuginn minn á þessu bloggi hefur kannski verið meiri í gegnum árin. Síðustu 2 árin hef ég fært rosalega mikið af því, sem ég hefði einu sinni bloggað um, yfir á Twitter eða Facebook. Þar fæ ég meiri og fljótari viðbrögð fólksins í kringum mig (auk þess að margir gamlir bloggarar eru vinir mínir á Facebook) og því hef ég oftast meira gaman af þeim miðlum. Ég hef þó aldrei hætt að blogga hérna – og held að í þessi 10 ár hafi aldrei liðið meira en 2 vikur á milli færslna. Og mér finnst enn gott að hafa bloggið sem vettvang þegar að ég vil tjá mig um eitthvað. Heimsóknum á þessa síðu hefur líka eitthvað fækkað í gegnum árin eftir því sem að ég set inn færri færslur.
Áherslurnar hafa líka breyst. Áður var ég gríðarlega fljótur að blogga um eitthvað, sem ég var pirraður yfir. Núna bíð ég oftast í talsverðan tíma áður en ég skrifa um eitthvað, sem ég er æstur yfir. Ég blogga líka mun minna um pólitík og er oftast mun kurteisari en ég var fyrstu árin. Kannski er það aldurinn og eflaust er það líka að vegna Serrano finnst mér ekki passa að ég sé að æsa mig um of á blogginu mínu.
* * *
Stelpubloggin hafa líka breyst með aðstæðum mínum. Ég er búinn að búa í þremur löndum, Bandaríkjunum, Íslandi og hér í Svíþjóð og aðstæður í mínu einkalífi hafa líka breyst. Ég er auðvitað að mestu hættur að skrifa um stelpur, enda tókst mér að finna ástina í mínu lífi. Ég átti það líka til að blogga meira þegar að mér leið ekki vel og bloggið hjálpaði mér oft mikið. Í dag er ég svo miklu hamingjusamari en ég var stóran hluta þessara 10 ára, að bloggið þarf að líða fyrir það. Það er í góðu lagi.
* * *
Ég ætla að halda þessu bloggi áfram vonandi sem lengst. Ég hef alltaf eitthvað að segja öðru hvoru og ég á vonandi eftir að fara í slatta af skemmtilegum ferðalögum, sem einhverjir hafa gaman af að lesa um.
Ég held örugglega að það sé til fólk þarna úti, sem hefur lesið þetta blogg nánast frá fyrsta degi. Þeim og öllum öðrum, sem hafa lesið bloggið, þakka ég kærlega fyrir. Þessi bloggsíða hefur gefið mér margt í gegnum árin og ég er alveg klár á því að líf mitt er miklu skemmtilegra í dag en það hefði verið hefði ég ekki tekið þá ákvörðun fyrir 10 árum að prófa að blogga. Allt fólkið sem ég hef kynnst í gegnum bloggið og allar samræðurnar sem ég hef átt hafa gefið mér mikið.
Takk.
Giant Sinkhole Pierces Guatemala
Pictures: Giant Sinkhole Pierces Guatemala – Hola í miðri Gvatemala borg.
20 Worst Drinks in America 2010
20 Worst Drinks in America 2010 | Eat This, Not That – Listi yfir 20 verstu drykkina, sem seldur eru á bandarískum veitingastöðum. Hreint ótrúlega magnaður listi.