(Barna)klám

Ég nenni varla að blanda mér í umræðuna um þessa blessuðu klámráðstefnu. En þetta finnst mér [fullkomlega fáránlegt](http://www.visir.is/article/20070216/FRETTIR01/70216077) af borgarstjóra okkar:

>Borgarstjóri hefur óskað eftir að lögregla rannsaki hvort þátttakendur á klámráðstefnu kunni að vera framleiðendur barnakláms, eða annars ólögmæts klámefnis

Er þetta framtíðin? Á að kanna aðra ráðstefnuhópa líka? Það gætu reynst morðingjar á ráðstefnu sportveiðifélagsins. Hvað með næstu NATO ráðstefnu? Ætlar borgarstjóri að láta rannsaka hvort að ráðstefnugestir þar hafi eitthvað á samviskunni? En næsta friðar-ráðstefna? Þar gætu leynst hryðjuverkamenn. Eigum við ekki bara að skoða alla sem hingað koma?

Skemmtilegar nornaveiðar í boði hins [fjölskylduvæna](https://www.eoe.is/gamalt/2007/01/06/14.21.04/) borgarstjóra.

While we’re on the subject, finnst engum nema mér skrýtið að hægt sé að kalla klám með 15 ára stelpu barnaklám og klám með 5 ára stelpu líka barnaklám? Eða að flokka barnaníðinga í sama flokk sama hvort þeir leiti á 5 ára krakka eða 15 ára?

14 thoughts on “(Barna)klám”

 1. Ég er gjörsamlega sammála þér, hvar á að draga línuna? Nú er ég sjálfstæðismaður en mér finnst þetta fáránlegt. Annað hvort á að skoða alla eða engann.
  Ég veit ekki hvað ykkur finnst en ég er á móti þessu

 2. Í báðum tilfellum er barnaníðingurinn að misnota einstakling sem býr skv. skilgreiningu íslenska ríkisins ekki yfir nægilegri dómgreind til að taka ákvarðanir sjálfur um eigin líf nema að takmörkuðu leyti. Svo að því leyti að þetta sami glæpurinn. En er nokkuð eins tekið á málinu þegar um er að ræða 5 ára barn annars vegar og 15 ára hins vegar? Ég meina, eru ekki refsingar yfirleitt þyngri í fyrra tilfellinu en því seinna? (Ég spyr í alvöru, því ég hef ekki hugmynd um það.) Ekki það, að í báðum tilfellum er verið að brjóta niður einstaklinga og oft ræna þá stórum hluta lífshamingjunnar, svo mér finnst það verðskulda þungar refsingar hvort sem fórnarlambið er 5 eða 15. Mér finnst allavega enginn geta ákveðið 15 ára að hann “langi” að taka þátt í þessu, ég gat ekki einu sinni ákveðið í hvaða menntó mig langaði þá…
  PS. takk fyrir skemmtilegt blogg, les alltaf en kommenta aldrei.

 3. Ef til Islands væru ad koma hrydjuverkamenn… ekki til ad fremja hrydjuverk… heldur bara til ad ræda um hrydjuverk yfir øli og kikja svo a skidi og i blaa lonid… fyndist ther tha jafn fullkomlega faranlegt ad borgarstjori hefdi ahyggjur af ad radstefnugestir myndu fremja glæp eda leggja grunnin af einhverjum glæp…

  Framleidsla og utbreidsla klams er oløgleg a Islandi (210.gr. almennra hegninglaga 19/1940)… thessi radstefna er fyrir folk i klammyndaidnadinum sem einmitt ser um framleidslu og utbreidslu klams…

 4. Erum við virkilega að líkja klámleikurum við hryðjuverkamenn?

  Málið er að borgarstjóri er að gefa það í skyn að athæfi þessa fólks sé skuggalegra en það er (það er að þarna sé í gagni barnaklám í stað kláms með fullorðnu fólki). Get ekki séð að hann hafi ástæðu til þess að gruna það, þar sem fólkið hefði væntanlega verið kært áður því það er ólöglegt alls staðar. Finnst þetta líkara því að hópur Araba myndi koma til landsins og að borgarstjóri myndi athuga hvort þeir væru nokkuð hryðjuverkamenn.

  Og Unnur, takk fyrir hrósið. Ég var nú aðallega að tala um orðanotkunina, en ekki refsirammann. Finnst það skrýtið að nota sama orð yfir mann sem leitar á 5 ára börn og mann sem svarar auglýsingu frá unglingi um kynlíf líkt og var t.d. í Kompás.

  Ég er ekki að afsaka það athæfi, bara að benda á að mér finnst orðanvalið skrýtið.

 5. Ég er ósammála því að þetta sé pólitískt málefni. Það að skjóta á borgarstjórann, sem er Sjálfstæðismaður, er ekki nóg Einar bara af því að þú ert Samfylkingarmaður. Það er fólk úr öllum flokkum sem gengst upp í þessari vitleysu í nafni velsæmis og fjölskylduvæni.

  Þetta mál er allt svo ruglað að það hálfa væri nóg. Þetta fólk er að fara að hittast yfir drykk, kíkja á Bláa lónið og skoða Gullfoss & Geysi. Svo mun það borða góðan mat á einhverri árshátíð og skemmta sér vel eins og fólk úr öðrum starfsgreinum. Ef það að þau skuli voga sér að ræða klámiðnaðinn sé svona hræðilegt, af hverju er okkur þá ekki vísað úr landi sem erum að fremja nákvæmlega sama glæp á þessari vefsíðu?

  Ég veit ekki hvað það er með klám sem vekur upp ofstækismanninn í öðrum hverjum Íslendingi, en ég upplifi mig eins og ég sé búsettur í þröngsýnasta smábæ í miðju Biblíubelti Bandaríkjanna þegar þessi umræða kemur upp. Þetta er fullorðið fólk sem stundar samfarir fyrir framan myndavélar, og græðir vel á því. Get over it! Þetta er EKKI ÞAÐ SAMA og að fá hryðjuverkamenn eða ofbeldismenn til landsins!

 6. >Ég er ósammála því að þetta sé pólitískt málefni. Það að skjóta á borgarstjórann, sem er Sjálfstæðismaður, er ekki nóg Einar bara af því að þú ert Samfylkingarmaður. Það er fólk úr öllum flokkum sem gengst upp í þessari vitleysu í nafni velsæmis og fjölskylduvæni.

  Nú ertu að gera mér það upp að ég sé ekki nógu mikill prinsipp maður til að gagnrýna þetta líka hjá fólki í mínum flokki. Sem er fjarri sannleikanum, enda hef ég ítrekað gagnrýnt þetta hjá samflokksmönnum mínum.

  Það er bara svo að Samfylkingin ræður ENGU á Íslandi nema í Hafnarfirði. Sjálfstæðismenn ráða hins vegar ÖLLU á þessu landi, þannig að það er eðlilegt að gagnrýnin beinist gegn þeim.

 7. Kynferðislegur lögaldur á Íslandi er 14 ár (lægri en í flestum nágrannalöndum) þannig að sá sem leitar á (eða sefur hjá) 15 ára stelpu með hennar samþykki er ekki að fremja lögbrot nema hann hafi blekkt hana eða borgað henni fyrir.

  Aftur á móti er miðað við lögræðisaldur í löggjöf um barnaklám þannig að það er löglegt að hafa kynmök við 15 ára stelpu en að ekki setja mynd af því á netið …

  Furðulegt ósamræmi og auðvitað ætti að hækka kynferðislegan lögaldur í 16 ár.

 8. “Furðulegt ósamræmi og auðvitað ætti að hækka kynferðislegan lögaldur í 16 ár.”

  Af hverju 16, en ekki 18 þegar fólk er lögráða?

 9. Af því að mér finnst reyndar að það ætti að lækka lögræðisaldurinn aftur í 16 ár. Sá engin rök fyrir því að hækka hann á sínum tíma og sé það ekki enn.

 10. Mér fannst líka soldið fyndið það sem að kom fram um að þessi ráðstefna myndi skaða ímynd Íslands og á einhvern hátt eyðileggja það markaðsstarf sem að farið hefur fram erlendis. Þessi ráðstefna fór fram í Austurríki að ég held á sl. ári. Ég fylgist nú ágætlega með og hef ekki orðið vör við það að ímynd Austurríkis hafi skaðast neitt sérstaklega vegna þeirrar ráðstefnu 🙂

 11. Ég er brjálaður, ég fór á skíði á Kaprun svæðinu í Austuríki um jólin og ætla að skrifa sveitarfélaginu bréf og biðja um endurgreiðslu og sálfræðihjálp. Áfallið er skelfilegt og ástandið í Kaprun eftir síðustu ráðstefnu má líkja við miðborg Bangkok. Þessi ráðstefna eyðileggur líf, fjölskyldur og almenn gildi í siðmenntuðu samfélagi.

  Ég á ekki til orð að það eigi leyfa þessu fólki að koma til landsins, og jafnvel saurga gjaldmiðill okkar með glæpum þeirra og athöfnum.

  Við byrjuðum á að banna þekktu leiðtogum heimsins sem lítilsvirtu, myrtu og hunsuðu almenn mannréttindi, eins og t.d. forseta Kína og Luo Gan — Öryggismógúll Kína sem lét m.a. fjölga aftökum — sem ekki var tekið á móti í Alþingishúsinu 2003 sem höfðingja undir sama yfirskini; að koma til landsins og því er sjálfsagt að beita sér næst gegn slíkum iðnaði, sem klám-iðnaðurinn vissulega er.

 12. Tek það fram að ég er ekki mikið búin að velta mér upp úr þessum pælingum. Til þess að geta verið með í “heitustu” þjóðfélagsumræðunni (tók eftir því í mannfögnuði í vikulokin að ég var ekki með á nótunum, vegna anna, og vissi ekki hvaðan á mig stóð veðrið þegar fólk var að tala um klám í hverju horni) ákvað ég að líta á lagagreinina í almennum hegningarlögum nr. 19/1940. Hér er sá hluti 210. gr. sem snýr ekki eingöngu að börnum.

  “210. gr. Ef klám birtist á prenti, skal sá, sem ábyrgð ber á birtingu þess eftir prentlögum, sæta sektum …1) eða fangelsi allt að 6 mánuðum.
  Sömu refsingu varðar það að búa til eða flytja inn í útbreiðsluskyni, selja, útbýta eða dreifa á annan hátt út klámritum, klámmyndum eða öðrum slíkum hlutum, eða hafa þá opinberlega til sýnis, svo og að efna til opinbers fyrirlestrar, eða leiks, sem er ósiðlegur á sama hátt.”

  Það má velta fyrir sér hvað menn hafa virkilega lagaheimild fyrir að gera á þessari ráðstefnu svona yfir höfuð. Aðstandendur hennar hljóta að hafa kynnt sér það til hlýtar og væru varla að koma hingað í þeim tilgangi einum að brjóta lögin (nema það vanti nokkrar blaðsíður).

  Skv. lagagreininni lítur út fyrir að þáttakendur og aðstandendur geti lítið gert nema kannsi, RÆTT klám og deilt reynslu sinni, svo fremur sem þeir eru ekki að deila með sér efni eða halda fyrirlestra. Ef sú er ætlunin, er þá kannski ekki bara allt í lagi að ræða klám yfir rauðvínsglasi ef fólk kýs að gera það? Hver hefur ekki sagt klámbrandara eða hlustað á hann og hlegið?

  Það sem ég hins vegar skil ekki í urmæðunni er að fyrst yfirvöld eru að “skoða þetta” á annað borð hvers vegna “málið” fyrir í heild sinni.

  En ef svo er ekki, heldur aðeins að raunin sé sú að siðferðiskennd sumra sé misboðið þá er lítið að gera! Mér þykir svo sem ekki aðlaðandi að fá þessa gesti til landsins, en kannski er þeim jafn illa við ráðstefnur sem “við hin” kjósum að sækja í þeirra heimalöndum! Ef tilgangurinn er sá að fólk hittist og ræði “áhugamál sitt”, enda sýnist manni lítið annað löglegt hér á landi, þá whuuuut is the fuss abát? Maður spyr sig:)

  (Restina af lagagreininni er að finna hér: http://www.althingi.is/lagas/132b/1940019.html))

Comments are closed.