Blogg, Verzló og stjórnmál

Vúhú, ég held að ég sé búinn að finna mér nýjan uppáhaldsbloggara, víst að Leti á neti virðist vera hættur. Nýja uppáhaldið er Svansson.net.

Guðmundur, sem heldur úti þeirri síðu er hagfræðinemi (fimm plúsar fyrir það) og svo er hann alveg lygilega góður í að finna hin ýmsustu deilumál milli bloggara, sem hann hefur svo lúmskt gaman af að blanda sér í. Hann skrifar reyndar ekkert um hagfræði, sem er mínus en það er þó fullt af gaurum, sem sjá fyrir því: 1 2.

Allavegana, þá er Svansson að benda á einhverjar deilur í mínum gamla skóla, Verzló. Þar sagði víst féhirðirinn af sér fyrir jól og hann virðist vera snillingur að dragast inní önnur deilumál innan skólans. Reyndar minnir þetta mjög mikið á svipuð mál, sem komu upp fyrir einhverjum 7-8 árum og Jens PR og Geir Gests skrifuðu um í 10 blaðsíðna grein, “Brestir og blóðug barátta”, sem birtist í 64. árgangi Verzlunarskólablaðsins, en ég sat í ritstjórn þess blaðs. Þá sögðu bæði féhirðirinn og forsetinn af sér vegna ásakana um spillingu (að mig minnir).

Allavegana þá á Stefán Einar í stöðugum deilumálum við aðra í skólanum og þá sérstaklega þá, sem vinna í nemendafélaginu. Sjá til dæmis umfjöllun hjá Svansson hér. Það er alveg lygilegt hvað Verzlingar taka þessa nemendafélagspólitík alvarlega. Ég var talsvert mikið í félagslífinu og hafði alveg ótrúlega gaman af. Ég hefði hins vegar aldrei nennt þessu ef að það hefðu verið stanslaus deilumál einsog virðast vera núna innan félagsins. Ég held að menn séu að taka sig full hátíðlega í þessum embættum. (n.b. Ég þekki ekki neinn aðila í þessum málum persónulega, ég hef bara lesið um þetta á netinu.)

Þessi færsla hjá Stefáni er til dæmis nokkuð mögnuð. Þar vitnar Stefán í einkasamtöl, sem ég held að menn ættu ekki að gera á bloggsíðum.

Blogg og stjórnmál

Það er annars eitt, sem ég var að pæla í. Það er nefnilega þannig að margir, sem hafa mjög vissar skoðanir á hlutunum og eru kannski sterkir í ungliðahreyfingum stjórnmálaflokkanna, eru með bloggsíður. Þar eru menn oft mjög óvægir í gagnrýni á stjórnmálamenn og aðra. Hvernig verður það ef þessir menn fara seinna á ævinni í framboð. Ætli þeir muni vilja eyða blogginu, þar sem þar leynast ábyggilega óþægileg ummæli

Stefán Einar virðist líta út einsog framtíðar stjórnmálamaður. Hann fer hins vegar mikinn í gagnrýni á alla vinstri menn, kallar þingflokksformann Samfylkingarinnar “ein allra óhentugasta konan sem komið hefur inn í pólitík á síðustu árum” og segir svo að Ingibjörg Sólrún sé “sjálfhverfasta manneskja stjórnmálanna”. Gæti ekki verið svo að þetta yrði notað gegn honum seinna meir?

Nú eru líka menn einsog Ármannn Jakobsson, sem eru nokkuð áberandi í stjórnmálaumræðunni. Hann var nokkuð hispurslaus á síðunni sinni og kallaði Samfylkinguna “búllsjitt” flokkinn, sem er sennilega ekki jákvætt ef að hann vill í alvöru koma á vinstri stjórn. Ármann áttaði sig hins vegar á því að vegna þess að hann er svona áberandi, þá byrjuðu alltíeinu blaðamenn að lesa síðuna og vitna í hana. Þeir, sem skrifa blogg í dag gætu hins vegar áttað sig á því seinna meir (þegar þeir eru kannski orðnir þekktari í þjóðlífinu) að bloggsíðan eigi eftir að innihalda pistla, sem gætu komið þeim illa.

Ég er viss um að þessi síða mín inniheldur fullt af ummælum, sem gætu komið sér illa seinna meir. Ég er hins vegar ekki á leiðinni í framboð.

Tengt þessu, þá er Bjarni með skemmtilegar pælingar um vægi stjórnmálaumræðu á bloggsíðum.

One thought on “Blogg, Verzló og stjórnmál”

  1. Hmm… þegar þú segir þetta, þá ætti maður kannski að kippa sumu út sem maður hefur skrifað í gegnum tíðina 🙂

    En án gríns, þá er blogg dauðans alvara, einsog margir hafa kynnst. Ekkert grín að “blogga í bakið á sér”.

    Ég held samt að þetta verði ekkert sérstakt vandamál fyrir Stefán Einar, enda mun hann enda sem prestur úti á landi. Einn af þessum sem skrifar mikið í blöðin. Það mun líka eiga vel við, að jarða menn.

    Þetta segi ég þekkjandi manninn utan internetsins. Hann er reyndar sjálfur ekkert sáttur við þessa spá mína, það virðist hinsvegar fara sífellt fjölgandi sálma- og Biblíutilvitnununum á síðunni hans, þannig hver veit?

    En varðandi Ármann Jakobsson þá sannast þar að í pólitík er sannleikurinn alltaf af hinu illa 😉

Comments are closed.