Breytingar á Serrano

Það er voðalega lítið að gerast í mínu einkalífi þessa dagana, þannig að ég ætla aðeins að skrifa um það, sem við erum að gera á Serrano.

Við erum reyndar dálítið á eftir áætlun, en í þessari viku (vonandi fyrir helgi allavegana) ætlum við að kynna örlítið breyttan matseðil. Í fyrsta lagi bætast við tveir nýjir réttir, sem eru aðeins öðruvísi útfærsla á núverandi réttum.

Í öðru lagi, þá breytist útlitið á matseðlinum okkar og öllum skiltunum. Við ákváðum að fara með matinn aftur í myndatöku til að bæta aðeins útlitið.

Fyrsta vörumyndatakan var nefnilega dálítið skrautleg. Hún var gerð um tveim vikum áður en við opnuðum staðinn fyrir rúmi ári. Ég man að þennan dag þá vaknaði ég klukkan 6 um morguninn, tók saman allan matinn frammí eldhúsi hjá mér og keyrði niðrí miðbæ, þar sem myndatakan átti að fara fram. Ég hafði ekki hugmynd hverju ég vildi ná fram á myndunum og þess vegna urðu myndirnar full skrítnar.

Til að mynda, þá er burrito myndin í dag frekar asnaleg (sjá vinstri hluta myndarinnar hér að ofan). Ég kunni nefnilega ekki að vefja upp burrito og því fóru allir vöfðu burritoarnir í hass. Ég og ljósmyndarinn prófuðum allar mögulegar leiðir til að ná burrito-inum saman en ekkert gekk. Þegar við loks vorum búnir að eyðileggja allt hráefnið, þá ákváðum við að skella þessu bara á einsog á pönnuköku og vefja ekki neitt. Úr því varð þessi skrítna mynd, sem hefur prítt matseðilinn á staðnum okkar æ síðan.

En núna er sem sagt kominn tími á breytingar. Myndin hægra megin hér að ofan er semsagt nýja burrito myndin okkar. Að mínu mati er hún mun betri og líkist einnig mun meira þeirri vöru, sem við erum að selja. Vonandi minnkar þetta eitthvað misskilning á staðnum í framtíðinni.


Annars, fyrir þá sem nenntu að lesa þessa færslu, þá er 2 fyrir 1 tilboð í gangi, aðeins á Serrano í Hafnarstræti 18 (við Lækjartorg – þú kaupir burrito og drykk og færð annan burrito frían). Endilega kíkið og prófið. Og ef þið hafið prófað, takið þá með ykkur einhvern, sem hefur aldrei prófað burrito-ana okkar áður! 🙂

Tilboðið gildir í dag, á morgun og á fimmtudag. Fyrir þá, sem hafa ekki komið áður mæli ég með kjúklingaburrito númer 1.