Leti og iPhone

Ég er búinn að vera óvenju mikið heima hjá mér þessa vikuna. Útaf þessum hnémeiðslum þá var ég heima allan daginn mánudag og þriðjudag og svo hef ég lítið gert undanfarin tvö kvöld. Til viðbótar við það hef ég engar íþróttir geta stundað þessa vikuna. Það sem ég hef komist að er að þessi leti elur af sér frekari leti.

Þegar ég slepp við það að vakna klukkan hálf sjö til að fara í ræktina þá enda ég ekki á því að vaka lengur eða vera betur út sofinn, heldur fer það í akkúrat hina áttina. Núna er klukkan til að mynda ekki orðin 11 og ég er orðinn dauðþreyttur, hef hangið uppí sófa mestallt kvöldið gerandi ekki neitt. Ég veit ekki hvað það er, en ég tengi allavegana þessa leti við hreyfingarleysið.

Því get ég ekki beðið eftir helginni, þegar ég mun fara útúr bænum og næstu viku þegar ég get byrjað að hreyfa mig á ný.

* * *

Apple er búið að gefa út nýja iPhone útgáfu og ég get ekki beðið eftir að uppfæra, en það er samt ekki hægt alveg ennþá þar sem þá fer síminn hjá mér í rugl.

Ég er eiginlega bara spenntur fyrir þessu nýja iPhone kerfi af tveimur ástæðum. Fyrir það fyrsta, þá sync-ast dagatölin sjálfkrafa á milli tölvu og iPhone. Þetta er frábært fyrir mig, þar sem að sirka helminginn af mínum fundum og kontöktum er ég að breyta á símanum og hinn helminginn á tveimur mismunandi tölvum. Það er því nauðsynlegt að þetta uppfærist sjálfkrafa á milli tækjanna.

Einnig er ég spenntur að sjá hvernig forritin í iPhone verða. Til að byrja með veit ég um eitt forrit, sem mun beinlínis breyta minni vinnu en það er OmniFocus fyrir iPhone. Ég nota OmniFocus á Makkanum mínum til að skipuleggja gjörsamlega allt í minni vinnu. Þetta forrit hefur breytt því hvernig ég hugsa vinnuna mína og hjálpað mér gríðarlega. Eini gallinn er að forritið er á tölvunni minni og margt af því sem ég þarf að gera er ég að gera útí bæ þegar ég nenni ekki að taka upp tölvuna. Fyrir þannig atburði er OmniFocus fyrir iPhone nákvæmlega það sem ég þarf. Ég get ekki beðið eftir því að uppfæra og setja forritið inná símann minn.

Fyrir utan OmniFocus væri NetNewsWire sennilega forrit númer 2 sem ég myndi setja inn auk þess sem að Apple gáfu út nokkuð flott forrit, sem gerir manni kleyft að stjórna itunes á Makkanum eða AppleTV með símanum. Það lítur vel út.

Helgin í Úthlíð

Vá hvað þetta var skemmtileg helgi!

Ég fór í útilegu með fullt af vinum mínum í Úthlíð. Tveir vinir mínir voru að útskrifast úr háskóla og þeir buðu heilum helling af fólki á tjaldsvæðið í Úthlíð. Á föstudagskvöldið voru ekkert rosalega margir mættir en þó var þar nóg af skemmtilegu fólki til þess að kvöldið væri frábært. Við grilluðum, drukkum, röltum um svæðið og enduðum í kassagítarstemningu þar sem að Afgan var spilaður sirka 15 sinnum. Á laugardeginum eyddum við svo löngum tíma í sundlauginni og í sólbaði enda veðrið alveg fáránlega gott.

Seinni partinn á laugardeginum kom svo fulltaf fleira fólki og laugardagskvöldið var sögulegt. Um miðnætti safnaðist allur hópurinn saman þar sem að nokkrir snillingar stóðu fyrir fjöldasöng. Þar var alveg ótrúlega góð stemnning og gaman.

Kvöldið hjá mér endaði svo í gamni slag við einn vin minn, þar sem mér tókst að rústa hnénu á mér. Í dag komst ég að því að ég var með áverka á liðþófa, sem er alveg einstaklega vont. Í gær eyddum við aftur heillöngum tíma í sundlauginni, lágum í sólbaði, tókum til á tjaldsvæðinu og vorum svo ekki komin í bæinn fyrr en um 7 leytið. Helgin kláraðist svo í sunnudags kvöldkaffi. Ótrúlega skemmtileg helgi, ein skemmtilegasta útilega sem ég hef farið í og ekki fræðilegur möguleiki að gera henni skil almennilega í bloggfærslu. Ég set þó inn myndir þegar ég endurheimti myndavélina mína, sem ég týndi á laugardagskvöldinu.

* * *

Ég fór uppá bráðamóttöku í dag og þar kom í ljós að það var ekkert slitið í hnénu, sem var það sem ég var hræddur við þar sem að sársaukinn var fáránlegur í gær. Ég er núna kominn í teygjusokk og ákvað að taka því rólega í dag og á morgun. Samkvæmt lækni á þetta að taka um 2 vikur að lagast, en ég má ekki spila fótbolta í 4 vikur.

Ég get ekki verið heima hjá mér í rólegheitunum án þess að fá samviskubit yfir því að ég skuli ekki vera að gera eitthvað gagnlegra. Ég var með smá þrýsting í hnénu þannig að ég lá uppí sófa og spilaði Grand Theft Auto IV. Þann leik keypti ég þegar ég kom heim frá Ísrael, en hafði samt ekki spilað hann, sem sýnir hversu mikið notuð Xbox vélin mín er. Ég fékk samt reglulega samviskubit yfir því að vera ekki að gera eitthvað gagnlegra.

* * *

Og já, einsog allir aðrir í útilegunni þá er ég alveg fáránlega brúnn eftir helgina. Ég held að ég hafi verið eini maðurinn, sem að tók með mér sólarvörn í útileguna. Íslendingar virðast almennt halda að þeir geti ekki brunnið á Íslandi. Það er misskilningur. 🙂

17. júní

Hæ hó jibbí jei og allt það.

  • Ég svaf í fjóra tíma í nótt eftir djamm í gærkvöldi og hef ekki verið með snefil af þynnku í dag.  Kannski er þetta svar við þynnkuvandamálum.  Ég var mættur á vinnufund klukkan 11 á 17.júní.  Það kalla ég hörku.
  • Fór í bæinn með vinum mínum í gær eftir frábært matarboð hjá öðrum vinum og það var afskaplega skemmtilegt.
  • Núna er ég hins vegar fáránlega latur, ligg uppí sófa og horfi á Age of Love á Skjá Einum.  Ég horfi vanalega aldrei á S1, en rakst á þennan þátt þegar ég var að flakka á milli stöðva eftir að hafa horft á Hollendinga vinna á EM.  Ég bloggaði um þennan þátt fyrir um ári og S1 hafa greinilega lesið þann pistil.  Semsagt, þá fjallar þátturinn um að hinn 31 árs gamli Mark Philippoussis er í nokkurs konar Bachelor hlutverki en twist-ið er að stelpurnar skiptast í tvo hópa, annars vegar stelpur sem eru á milli 20-30 ára og svo aftur þær sem eru nær fertugu (sú elsta 48 ára).  Ég myndi segja að það væru svona 99,7% líkur á að hann velji einhverja úr yngri hópnum.

    Sætasta stelpan í hópnum er 25 ára, en þessi 48 ára lítur ótrúlega vel út.

  • Ég heyrði af því í gær að Ölstofan og Vegamót þyrftu framvegis að loka klukkan 3 um helgar.  Grófari aðför af mínu skemmtanalífi hefur ekki verið gerð í sögu Reykjavíkur.  Af hverju í andskotanum gat þetta ekki komið fyrir Sólon eða Hressó eða einhverja ámóta staði, sem ég sæki aldrei um helgar?  Af hverju þurftu þetta akkúrat að vera staðirnir tveir sem að ég sæki hvað mest?  Hvernig verður Kaffibarinn þá eiginlega klukkan þrjú?  Ætla þeir að byrja að stafla fólki oná hina gestina?
  • Ég ætla að vaka í nótt og horfa á Boston Celtics vinna 17. NBA titilinn.
  • Einn kostur við það að hafa verið svona lengi í fríi er að á meðan safnaðist upp slatti af sjónvarpsþáttum, sem ég get horft á.  Ég stóðst ekki freistinguna og horfði á fjóra Office þætti í röð, en er búinn að spara Lost aðeins betur.  Á þrjá þætti eftir, sem er æði.  Ó ég elska Lost.

Fyrsta helgin, kaffi og ljósmyndapælingar

Fyrsta helgin á Íslandi er búin að vera verulega góð. Á föstudagskvöld horfði ég heima hjá vini mínum á Holland spila frábærlega gegn Frakklandi og þar á meðal Dirk Kuyt skora mark, sem gladdi mig mjög. Fór síðan í þrítugs afmæli hjá Guðföður bloggsins á Íslandi.

Í gær fór ég svo annan daginn í röð út að hlaupa. Er með harðsperrur nánast alls staðar eftir fáránlega létt hlaup og lyftingar. Það er með ólíkindum hvað maður er aumur eftir svona langt ferðalag. Í gærkvöldi fór ég svo í tvær útskriftir. Fyrst hjá bestu vinkonu minni í sal á Seltjarnarnesi og svo til vinar míns í Garðabænum. Þar var ég fram eftir kvöldi. Fór svo heim til annars vinar í partí og þaðan í bæinn. Ég var ekki alveg að höndla bæinn, þannig að ég fór frekar snemma heim.

* * *

Ég komst að því í ferðinni að það er bara eitt, sem ég get ekki lifað án og það er kaffi. Ég drakk nánast ekkert áfengi í þessar sex vikur, drakk sjaldan sódavatn, borðaði ekki pizzu né taílenskan mat og leið ekkert sérstaklega fyrir það.

En það sem ég var tilbúinn að leggja mest á mig var fyrir góðan kaffibolla. Á shabbat í Jerúsalem labbaði ég fjóra kílómetra til að finna kaffihúsakeðju, sem reyndist svo lokuð. Það voru gríðarleg vonbrigði.  Ég held að ég reyni ekkert að þræta fyrir það að ég er háður kaffi.

* * *

Ég er byrjaður að fara í gegnum myndirnar úr ferðinni.  Þær eru um 1.200 talsins, sem er hreinasta geðveiki.  Ætli ég hendi ekki um 60-70% af þeim en eftir munu þá standa nokkrar mjög góðar myndir.  Ég ætla í leiðinni að kenna sjálfum mér á Aperture, sem ég keypti í London.  Ég hef notað iPhoto í gegnum tíðina, en ætla að prófa að skipta til þess að geta leikið mér aðeins meira með myndirnar.

Og þá kem ég að einni spurningu fyrir ljósmyndanörda.  Málið er að fyrstu vikuna var ég óvart með 20D vélina mína stillta á ISO 800.  Það gerði það að verkum að myndirnar eru sumar grófar.  Ég tók allar myndirnar í RAW.  Og spurningin er, get ég gert eitthvað til að laga þetta?  Það er það klúður að hafa haft ISO alltof hátt þegar ég tók sjálfar myndirnar?

Mið-Austurlandaferð 18: Endalok

Ég er kominn heim.  Kom í gærkvöldi með flugi frá London eftir að hafa eytt einum degi þar í að versla og hitta systur mína.

Er að henda myndunum inná tölvuna mína – þær eru sennilega hátt í þúsund talsins og því mun taka tíma að laga þær og flokka.  Þessa fyrir neðan tók ég í Wadi Rum eyðimörkinni í Jórdaníu.  Þarna er ég að horfa á sólsetur yfir eyðimörkinni, sem var gríðarlega fallegt (myndavélinni var stillt upp á steini – smellið til að sjá stærri útgáfu)

Horft á sólsetur í Wadi Rum

Þetta var frábær ferð. Sennilega besta ferðalag, sem ég hef farið í síðan ég ferðaðist með vinum mínum um Suður-Ameríku fyrir 10 árum. Algjörlega ógleymanlegir staðir, yndislegt fólk, ótrúlegur matur og frábært veður hjálpaði til við að gera ferðina svona vel heppnaða.

Hápunktarnir:

  • Sýrlendingar – Vinalegasta fólk, sem ég hef kynnst
  • Jerúsalem – ótrúleg borg með milljón merkilegum stöðum
  • Stelpur í Tel Aviv
  • Damaskus – yndisleg borg, sem að alltof fáir heimsækja. Umayyad moskan ein og sér nægir sem ástæða fyrir heimsókn, en þegar maður bætir við lífinu, fólkinu og matnum þá er það orðinn frábær pakki.
  • Götumatur í Ísrael – Shawarma laffa var það fyrsta sem ég lærði í hebresku. Ótrúlega góður matur, sama hversu veitingastaðirnir voru shabby.
  • Baalbek í Líbanon – Skemmtilegustu rómversku rústirnar
  • Petra í Jórdaníu – Ótrúlegar fornminjar

Þrátt fyrir að eiginlegri ferðasögu sé hér með lokið, þá á ég eftir að skrifa eitthvað meira um þetta ferðalag á næstu vikum.  Það eru nokkrar sögur ósagðar og svo langar mig líka til að skrifa um pólitík og trúmál tengd þessari ferð – og eins almennar ráðleggingar varðandi ferðalög til þessara landa. Hvort ég hef orku til þess að klára þau skrif veit ég ekki.  En ég mun allavegana setja inn myndir á næstu dögum eða vikum.

Það frábæra við þessi ferðalok er líka að mér líður ótrúlega vel við heimkomu varðandi mitt líf.  Eftir síðustu ferðalög hef ég alltaf komið heim fullur efasemda um það hvert ég er að stefna og hvort ég sé ánægður með mitt líf.  Það að vera úti í svona langan tíma einn gerir það auðvitað að verkum að maður hugsar mikið um sinn gang.  Oft hef ég því komið heim ákveðinn í að breyta öllu í mínu lífi.

En núna við heimkomuna er ég sáttur við hvert ég stefni.  Vinnan virðist hafa tilgang og ég sé hvert ég stefni þar.  Og í einkalífinu finnst mér hlutirnir líka vera á réttri leið.  Þannig að eina áhyggjuefnið við heimkomu er að ná af mér einu eða tveimur aukakílóum, sem fylgdu því að borða shawarma, endalaust af arabísku brauði og öðru góðgæti.  

Ég vona að þið hafið haft gaman af því að lesa þessar ferðasögu. Ég vona allavegana að mér hafi tekist að koma því á einhvern hátt til skila hversu frábært þetta ferðalag, þessir staðir og þetta fólk voru.

Takk.

Skrifað í Vesturbæ Reykjavíkur klukkan 23.14

Mið-Austurlandaferð 17: Tel Aviv er Tel Aviv

Þá er síðasti dagur þessarar Mið-Austurlandaferðar næstum því búinn. Klukkan er að verða fimmhér við Miðjarðarhafið í Tel Aviv. Búinn að eyða deginum á ströndinni, lesandi, horfandi á mannfólkið, drekkandi bjór, borðandi morgunmat og góðan hádegismat á veitingastöðum á ströndinni. Í kvöld ætla ég svo að mæta á einn strandbarinn og horfa á Holland vinna Ítalíu á stórum skjá á ströndinni.

* * *

Það fyrsta sem maður einsog ég hlýt að spyrja mig að eftir nokkra daga í Tel Aviv er: “Af hverju í andskotanum bý ég ekki í Tel Aviv?” Þetta er æðisleg borg!  Frjálslynd, falleg, býður uppá fullkomið veður, strendur, Miðjarðarhafið, fallegar stelpur, gott næturlíf, öflugt menningarlíf, góða veitingastaði og svo framvegis og framvegis. Þetta er einfaldlega frábær borg.

Það er líka erfitt að ímynda sér að Jerúsalem sé álíka nálægt Tel Aviv og Selfoss er nálægt Reykjavík – því borgirnar tvær gætu vart verið ólíkari. Í Jerúsalem þverfótar maður ekki fyrir trúarbrögðum – moskum, bænahúsum, kirkjum, haredi gyðingum á leið að Grátmúrnum, nunnum, rabbíum og svo framvegis og framvegis. Og Jerúsalem er íhaldsöm. Á shabbat lokar hreinlega allt. Veitingastaðir og kaffihús líka.

Ég kom hingað til Tel Aviv á föstudaginn og spurði stelpuna í afgreiðslunni hvort það væri ekki allt lokað á shabbat einsog í Jerúsalem. Hún svaraði einfaldlega “Jerúsalem er trúuð – Tel Aviv er Tel Aviv”. – Og ætli það sé ekki besta lýsingin á Tel Aviv – hún er einfaldlega Tel Aviv. Að vissu leyti minnir hún á svæði í kringum Los Angeles eða Barcelona. Mannlífið mótast að vissu leyti af nálægðinni við ströndina. Á shabbat hópast allir á ströndina og síðan nýtur fólk næturlífsins í miðborginni fram eftir morgni. Hérna virðist oft eingöngu búa ungt fólk – og borgin virðist að vissu leyti gerð fyrir ungt fólk.

* * *

Smá útúrdúr: Ég studdi Hillary Clinton í bandarísku demókrata forkosningunum, en er þó sæmilega sáttur við Barak Obama. Eftir því sem að leið á kosningabaráttuna varð ég þó alltaf spenntari og spenntari fyrir Hillary. En allavegana. Einsog flestir hér í Ísrael var ég spenntur fyrirAIPAC ræðunni hans og hún var að mörgu leyti mjög góð. Obama talaði um tímann sinn hér í Ísrael, heimsóknina á Yad Vashem (hann notaði hebreska orðið Shoa til að nefna Helförina) og hann lýsti yfir stuðningi við Ísrael og sjálfsagðan rétt Íslraelsríkis til sjálfsvarnar. En svo tókst honum að klúðra ræðunni með einum punkti þegar hann sagði að Jerúsalem yrði áfram höfuðborg Ísraels (gott) og að hún yrði óskipt (glórulaust). Með þessum eina punkti um það að Jerúsalem yrði óskipt, sem er fáránlegt að halda – því hún er mikilvæg borg fyrir Araba og að mörgu leyti mjög arabísk á stórum svæðum – missti hann aðdáun ansi margra í Mið-Austurlöndum. Óskiljanleg mistök, sem munu gera lítið til að auka stuðning Gyðinga við hann, en munu auka andúð Múslima.

* * *

Ég kann afskaplega vel við Ísraela, en þeir eru þó að mörgu leyti mjög ólíkir þeim Aröbum, sem ég hef kynnst í nágrannalöndunum og Palestínumönnum. Ég vissi alltaf að ég myndi losna við mína ísraelsku fordóma eftir smá tíma í sjálfu landinu. Einsog margir bakpokaferðalangar hef ég nefnilega ekki haft neitt sérstaklega góða reynslu af Ísraelum á bakpokaferðalögum. Það kann vel að vera vegna tímasetningarinnar á bakpoka-ferðalögum Ísraela, sem flestir fara í strax eftir herþjónustu, sem hlýtur að taka á sálina.

Allavegana, Ísraelar eru mun lokaðri en Arabar. Besta orðið, sem ég hef séð lýsa þeim er brusque. Flestir virka smá þurrir við fyrstu kynni, en það breytist þegar maður hefur kynnst fólkinu betur. Stelpurnar eru uppteknar af því að vera svalar og láta sem þeim sé sama um allt sem er í gangi í kringum þær – og flest ungt fólk virðist vera upptekið af því að líta út eins töff og mögulegt er. Þetta er mjög ólíkt Arabalöndunum þar sem maður hefur á tilfinningunni að allir vilji vera vinir manns. Ætli sú þjóð, sem líkist Ísraelum í viðhorfi einna best sé ekki… Íslendingar?

* * *

Hvað er ég búinn að gera í Tel Aviv gæti einhver spurt? Jú, ég ætlaði að fara á Diaspora safnið í morgun, en það reyndist lokað. Og jú, ég kíkti til Jaffa í smá stund, en ætli besta lýsingin sé ekki einfaldlega sú að ég hef notið lífsins. Gleymt því í smá stund að ég er túristi í ókunnu landi og einfaldlega notið góðrar helgi í Tel Aviv. Ég hef legið á ströndinni, lesið tvær bækur, horft á EM, drukkið bjór, kíkt á djammið – notið lífsins. Ég er búinn að gera nóg af því að túristast síðustu vikurnar. Ég hef séð nóg af rústum, nóg af söfnum og svo framvegis. Ég hafði alltaf ætlað mér að einfaldlega slappa af í Tel Aviv og það hef ég gert.

Hérna skín sólin og hitinn er passlegur. Ég veit að ég hef nánast ekkert talað um veðrið í þessari ferðasögu og ástæðan er einföld. Veðrið hefur verið nánast fullkomið. Og eftirfarandi segi ég án þess að ýkja hið minnasta. Ég hef ALDREI á þessum 6 vikum séð rigningu. ALDREI! Ég heyrði að það hefði rignt eina nóttina í Damaskus en það er allt og sumt. Og annað: Það hefur verið sól ALLA dagana. Hvern einn og einasta dag! Þetta er með ólíkindum magnað.

* * *

Á morgun á ég svo flug til London, þar sem ég ætla að vera í einn dag og á svo flug heim á miðvikudaginn.

Núna sit ég hérna inná netkaffihúsi ótrúlega sáttur við þessa ferð. Ég er enn með sand í eyrunum eftir dag á ströndinni, lykta af After Sun, orðinn ágætlega brúnn og mér líður afskaplega vel. Eina sem ég á eftir að gera er að setjast niður með bjór í kvöld og horfa á fótbolta. Það er ekki slæm leið til að enda tímann minn í Mið-Austurlöndum.

Skrifað í Tel Aviv, Ísrael klukkan 16.30

Mið-Austurlandaferð 16: Masada mun aldrei aftur falla

Eg er ad skrifa thetta a mjog svo modins internet sjalfsala inna hoteli hja Masada i Israel.  Thessi sjalfsali bydur ekki uppa islenskt lyklabord, thannig ad thessi faersla verdur med utlenskum stofum og thvi sennilega stutt.

Eg kom hingad til Masada i gaer med rutu fra Tiberias, med stoppi i Jerusalem.  Hotelid i Masada liggur i fjallshlidinni vid hlidina klafnum, sem fer uppad sjalfu virkinu.  Ur herberginu minu er svo utsyni yfir Dauda Hafid.  Einsog fyrri skiptin min vid Dauda Hafid (i Jordaniu og Jeriko), tha er hitinn nanast obaerilegur.  Eg var thvi otrulega hamingjusamur thegar eg komst ad thvi ad eg gat eytt eftirmiddeginum i sundlauginni a hotelinu a milli thess sem eg las um 6-daga stridid i solbadi.

* * *

Eg eyddi tveim dogum vid Galilee vatn, en Jesus bjo i nagrenninu mestalla aevi.  Eg gisti i Tiberias, sem er ospennandi resort baer fullur af Israelum i helgarfrium, storum hotelum og storum sundlaugum.  Kannski ekki alveg tipiskur stadur sem ad eg saeki i.  En eg var a agaetis loftkaeldu hoteli og fann mer strax rosalega godan shawarma stad, sem eg bordadi allar minar maltidir a.

I fyrradag leigdi eg mer svo fjallahjol og akvad ad hjola i kringum Galilee vatn.  Thetta reyndist erfid en skemmtileg ferd.  Alls eru thetta um 70 kilometrar og thar sem eg hjola vanalega aldrei, tha var thetta pinu erfitt.  Eg stoppadi nokkrum sinnum, thar a medal a Ein Gev kibbutz-inu (samyrkjubu) thar sem eg bordadi morgunmat og lika a saemilegri strond thar sem eg badadi mig i vatninu.

* * *

I morgun vaknadi eg svo um half-sex leytid og labbadi uppad Masada virkinu.  Leidin er eftir gongustig med um 700 troppum og haekkunin a labbinu er um 350 metrar.  Gongustignum er vanalega lokad klukkan 10 vegna thess ad hitin verdur tha obaerilegur fyrir slika gongu.

Allavegana, thad ad horfa a solarupprasina yfir Dauda Hafinu fra Masada virkinu var storkostlegt.

Masada er mikilvaegur stadur i sogu Gydinga.  Thad var her sem ad sidustu Gydingarnir i Israel vordust arasum Romverja.  Thegar ad Romverjarnir voru ad komast ad virkinu fromdu their allir sjalfsmord i stad thess ad gefast upp.  I dag eru allir skolakrakkar i Israel teknir i synisferd i Masada og israelskir hermenn voru adur fyrr teknir inni herinn her med ordunum “Masada mun aldrei aftur falla”.

* * *

Nuna er eg adeins ad bida eftir rutunni til Tel Aviv.  Thar aetla eg ad reyna ad djamma og eyda shabbat a strondinni.  Thad hljomar ekki illa.  Eg a svo flug fra Ben-Gurion flugvelli til London a thridjudagsmorgun.

Skrifad i Masada, Israel klukkan 9.00

Mið-Austurlandaferð 15: Haifa

Þá styttist í lokin á þessari ferð. Mér er búið að líða hálf einkennilega eftir Jerúsalem. Aðallega vegna þess að eftir að ég kláraði þá borg, þá er ég búinn með alla þá hluti, sem mig hlakkaði mest til að sjá þegar ég var að skipuleggja ferðina.

Ég á um viku eftir og hlutirnir sem ég á eftir að sjá eru ekki svo rosalega spennandi miðað við það, sem er búið í ferðinni. Kannski liggur leiðin alltaf niður á við eftir Jerúsalem. Ég er reyndar alveg ofboðslega þreyttur akkúrat núna eftir mikið labb í miklum hita í dag. Vaknaði hress í morgun syngjandi Three Little Birds (ó hvað ég elska það lag) þrátt fyrir að ég hafi drukkið stærsta hlutann af rauðvínsflösku í garðinum á hótelinu í gær á meðan ég sagði einhverjum Könum ferðasögur, heyrði sögu annars Kana – sem er að ganga í ísraelska herinn, og sagði Portúgala hversu mikið ég hataði Cristiano Ronaldo.

* * *

Allavegana, í gær komst ég loks uppá Musterishæðina í Jerúsalem. Þar er hægt að taka myndir af byggingunum að utan, en við infidels getum víst ekki farið inní Al-Aqsa moskuna né heldur Dome of the Rock. Þannig að það er lítið að gera á hæðinni nema að pósa fyrir framan þessar byggingar, sérstaklega hina mögnuðu Dome of the Rock.

Ég labbaði svo einu sinni enn um miðbæinn og tók svo rútu hingað upp til Haifa. Ég er því aftur kominn að Miðjarðarhafinu, þar sem þessi ferð hófst fyrir um fimm vikum. Haifa er þriðja stærsta borg Ísrael. Hér er svo sem ekki margt merkilegt að gerast. Borgin er helgur staður fyrir Bahaía og í morgun heimsótti ég Bahaía garðana, sem eru í Carmel fjallshlíðinni.

Í dag eyddi ég svo tímanum í hafnarborginni Acre, sem er rétt fyrir norðan Haifa. Gamli miðbærinn í þeirri borg er mjög fallegur og vel þess virði að eyða einum degi labbandi um þröngar götur og drekkandi bjór við Miðjarðarhafið.

* * *

Ég er ekki alveg viss um það hvað er næst. Er að gæla við það að fara til Nazareth á morgun og þaðan að Galilee vatni. Er einnig að hugsa um að fara suður og skoða Masada. Allavegana ætla ég að vera kominn til Tel Aviv á föstudaginn. Þar ætla ég að eyða helginni á djammi og á ströndinni og fljúga svo til London frá Ben-Gurion á þriðjudagsmorgun.

Já, og svo er YNDISLEGT að skoða þessa töflu. Loksins get ég glaðst yfir árangri míns liðs í íþróttum.

Skrifað í Haifa, Ísrael klukkan 21.51

Mið-Austurlandaferð 14: Hin ótrúlega Jerúsalem

Það er ómögulegt að hrífast ekki af Jerúsalem.

Á sama götuhorninu getur maður séð kristna asíubúa berandi krossa, palestínska götusala, múslima biðjandi í átt að Mekka og Hasidi gyðinga á leiðinni að Vesturmúrnum.

Í gærkvöldi fylgdist ég með munkum bera kross eftir Þjáningarveginum (sem ég sit nú við á netkaffihúsi). Ég fylgdi svo hópnum inní Grafarkirkjuna. Þar beið ég svo í biðröð, á meðan munkarnir sungu, eftir því að komast inní grafhýsi Jesús. Eftir það klifraði ég svo uppá aðra hæð þar sem er geymdur steinninn sem að kross Jesús var festur á.

Einsog þetta væri ekki nóg af trúarþemanu, þá labbaði ég því næst að Vesturmúrnum á Musterishæðinni, sem er þekktur sem Grátmúrinn, helgasti staður Gyðinga. Á Musterishæðinni í Jerúsalem var eitt sinn annað hof Gyðinga, sem að Rómverjar eyðilögðu. Á þeim stað þar sem hofið var er í dag Dome of the Rock, sem að múslimar byggðu. Steinninn, sem að nafnið gefur til kynna, er sá steinn sem að Gyðingar trúa að allt líf hafi sprottið út frá.  Samkvæmt trúnni mega Gyðingar ekki heimsækja Musterishæðina sjálfa, þar sem steinninn er – og því er Vesturmúrinn það næsta sem að Gyðingar komast að steininum.

Á sama punktinum getur maður því séð helgasta stað Gyðinga og þriðja helgasta stað Múslima. Allt nokkrum metrum frá þeim stað þar sem Jesús var krossfestur.

Ég er því búinn að skoða Grátmúrinn tvisvar.  Fyrst á fimmtudaginn þegar ég fór líka í skoðunarferð um göngin meðfram múrnum. Í gegnum árin hefur sprottið upp byggð meðfram stórum hluta Vesturmúrsins og er sá hluti múrsins sem við þekkjum í dag af myndum aðeins lítið brot af múrnum sjálfum. Í ferðinni er farið undir byggðina og múrinn skoðaður einsog hann var fyrir 2000 árum. Ég setti líka á mig kippa húfu og labbaði uppað múrnum og fylgdist með.

Um kvöldið fylgdist ég svo með Gyðingum fagna Shabbat fyrir framan Grátmúrinn. Það er frábær upplifun. Torgið fyrir framan múrinn var fullt af Gyðingum – næst múrnum voru Hasadi gyðingar, sem að vögguðu sér fram og tilbaka og báðu og kysstu múrinn. Fyrir aftan þá voru svo hópar af strákum (aðkoma að múrnum er kynjaskipt) sem að dönsuðu og sungu. Því miður má ekki taka myndir á shabbat, en þetta var ógleymanleg upplifun.

* * *

(Sjitt hvað unglingsstrákar í Counter Strike eru viðbjóðslega óþolandi þjóðfélagshópur! Hérna á netkaffihúsinu er ég umkringdur palestínskum strákum, sem öskra uppí eyrað á mér einhver fagnaðaröskur á sirka mínútu fresti).

Fyrir utan þessa staði er ég búinn að túristast alveg fullt í Jerúsalem.  Ég er reyndar búinn að taka því frekar rólega í dag, þar sem að ansi stór hluti af Jerúsalem lokar dyrum sínum á shabbat.  Nánast allar búðir loka (nema þær sem eru reknar af múslimum eða kristnum), flest kaffihús loka og túristastaðir líka).  Ég fór þó í morgun í gamla borgarvirkið þar sem er rekið nokkuð gott safn um sögu Jerúsalem. Í hádeginu var ég grand á því og fékk mér hádegisverð á hinu fræga American Colony Hotel í Austur Jerúsalem. Ef ég kem einhvern tímann aftur til Jerúsalem, þá ætla ég að gista á því hóteli. Ég labbaði svo um borgina og fann loks opið kaffihús þar sem ég kláraði að lesa A Thousand Splendid Suns (sem er frábær).

* * *

Í gær fór ég líka í tvö frábær söfn.  Fyrst fór ég í Ísraels-safn, sem inniheldur meðal annars Dauðahafshandritin, ásamt öðrum fornminjum og listaverkum.

Síðan fór ég uppá Yad Vashem hæðina.  Þar er samansafn af minnismerkjum um Helförina.  Þar á meðal er frábært Helfarar-safn, sem er jafnvel betra en Helfararsafnið í Washington DC, sem ég heimsótti fyrir nokkrum árum.  Þótt að maður þekki atburðina býsna vel, þá er alltaf hollt að rifja þessa hluti upp.  Sérstaklega fyrir þá, sem á viðbjóðslegan hátt líkja saman Helförinni og aðgerðum Ísraelsmanna á Vesturbakkanum.

* * *

Lífið í borginni er líka magnað.  Ég gisti á hóteli í múslimska hluta gömlu borgarinnar.  Þrátt fyrir alla þessa túristastaði í Gömlu Borginni, þá er borgin líka lifandi borg – hér býr fulltaf fólki.  Í stað þess að borgin hafi breyst í safn, þá er hún iðandi af lífi allan daginn.  Flestir túristarnir virðast vera fólk í hópum tengdum trúarbrögðum.  Fulltaf kristnum Bandaríkjamönnum, útlenskum Gyðingum og fleirum.  Ef maður vippar sér framhjá þessum hópum, þá verður maður ekki svo var við túristana, því að göturnar eru fullar af fólki, sem að býr hér.

Gamla borgin er líka mjög ólík nýja miðbænum.  Á mörgum stöðum minnir gamla borgin á gömlu borgina í Damaskus.  En nýrri hlutar af Jerúsalem minna á vestræna borg, þar sem umferðarreglum er sinnt, græn svæði útum allt og ekkert rusl. 

* * *

Ég verð að játa það að ég er mjög hrifinn af Ísrael.  Eftir 4 vikur í frábærum Arabalöndum, þá er svo margt sem að heillar við Ísrael.  Allt frá hreinlætinu, skipulaginu til lýðræðis og kvenfrelsis.  Á landamærunum voru konur landamæraverðir og kona keyrði leigubílinn sem fór með mig frá landamærunum til Eilat. Slíkt væri óhugsandi í mörgum nágrannalöndunum.

Og svo er auvðitað magnað að vera í þessum heimshluta í landi, þar sem að fólk getur óhrætt talað um stjórnmál.  Í Sýrlandi þorði fólk oft ekki að tala um stjórnmál og það fyllti mig alltaf smá óhug að sjá allar þessar myndir af Assad forseta útum allt.  Það sama gildir um Jórdaníu, þó að ástandið þar sé vissulega betra.

Vissulega er öryggisgæslan mikil útum allt, en ég vandist því vel í Líbanon að sjá hermenn með Ak-47 riffla útá götu einsog er hér.  Ég var líka búinn að venjast því frá Jórdaníu að þurfa að fara í gegnum vopnaleit þegar ég fór inní verslunarmiðstöðvar eða á hótel.  Þannig að öryggisgæslan er sennilega ekki jafnmikið sjokk fyrir mér og hefði ég komið beint frá Íslandi til Ísrael. 

En ætli aðalástæðan fyrir því hve vel mér líður séu ekki stelpurnar.  Guð minn góður, stelpurnar!

Eftir að hafa verið í Arabalöndum í 4 vikur, þá var það nánast sjokk fyrir mig að koma til Ísrael.  Að sjá allt í einu stelpur í pilsum.  Að sjá berar axlir, bera fótleggi, bera handleggi.  Að sjá sítt hár.  Að í stað þess að stelpur séu klæddar í föt, sem gera þær sem mest óaðlaðandi, þá megi stelpur hér klæða sig einsog þær vilja.  Þetta hljómar kannski allt sjálfsagt fyrir okkur, en það er samt frábært að koma til þessa litla lands í þessum heimshluta og sjá hlutina með eigin augum. Og svo hjálpar það auðvitað að hérna í Ísrael er ótrúlega mikið af fallegum stelpum.

Hérna dettur engum í hug að banna konu sinni að sitja fyrir á ljósmynd, eða banna henni að fara útúr húsi án þess að vera með hulu fyrir andlitinu.  Hérna dettur engum í hug að banna konum að keyra bíla eða vinna ákveðin störf.

Ég hef alltaf verið sannfærður um réttmæti Ísraelsríkis og sú sannfæring hefur ekki minnkað á þessum dögum hér.  Ég held að hrifning mín á Sýrlandi og Jórdaníu hafi engum dulist, sem hafa lesið þessa síðu.  En það breytir því ekki að ansi margt mætti betur fara í þeim löndum, sérstaklega þegar að kemur að málfrelsi, lýðræði og réttindum kvenna.  Í öllum þessum málaflokkum mættu þau lönd taka sér Ísrael til fyrirmyndar.

* * *

Ég ætla að vera í Jerúsalem í einn dag í viðbót.  Á morgun ætla ég að fara uppá Musterishæðina og skoða nokkra fleiri staði.  Seinnipartinn ætla ég svo að fara til Haifa í norður Ísrael.

Já, og ég er búinn að setja inn nokkrar myndir frá Sýrlandi og Jórdaníu inná Flickr. Einsog áður, þá eru þetta eingöngu myndir úr litlu vélinni minni (sem ég svo týndi / var stolið á Vesturbakkanum), þannig að þær mynda ekki merkilega sögu.

Skrifað í Jerúsalem, Ísrael klukkan 20.58 

Mið-Austurlandaferð 13: Punktar frá Palestínu

Ég er staddur inná hóteli í Ramallah á Vesturbakkanum, um 20 kílómetra frá Jerúsalem. Ég kom hingað fyrir um klukkutíma eftir frábæra dagsferð um Nablus og smærri bæji í nágrenninu. Ég er búinn að hugsa um svo marga hluti í dag að ég held að það sé best að koma þeim á blað í punktaformi.

  • Ég hefði aldrei trúað því hversu ótrúlega mikið er af landtökubyggðum Gyðinga hér á Vesturbakkanum. Þær eru hreinlega ÚTUM ALLT. Það verður aldrei friður á þessu svæði á meðan að Vesturbakkinn er skorinn upp með þessum hætti. Landtökubyggðirnar eru einstaklega skrýtin fyrirbæri. Hver byggð inniheldur oft aðeins í kringum 200-250 (oftast strangtrúaða) íbúa. Vanalega eru byggðirnar vel stæðar, sem er svo sem ágætt. En hins vegar er öryggisgæslan og umstangið í kringum þær fáránlegt. Við þurftum í dag að keyra í klukkutíma vegna þess að landtökubyggð var kominn, þar sem hefði verið augljós 5 mínútna leið frá Nablus til smábæjar.

    Landtökubyggðirnar virðast líka vera (allavegana í augum utanaðkomandi aðila einsog ég er) byggðar að vissu leyti til þess að segja FOKK JÚ framan í andlitið á Palestínumönnum.  Löngu áður en maður kemur að byggðunum blasir við manni ísraelski fáninn á hverjum einasta ljósastaur og þær eru víggirtar og oft byggðar uppá hæðum, sem gnæfa yfir aðrar byggðir.  Allt þetta á landi, sem að Palestínumenn eiga.  (Ég sá fleiri ísraelska fána en palestínska í dag)

    Vandamálið er auðvitað að landtökumennirnir trúa því að landið sé þeirra vegna þess að það sé vilji Guðs.  Þeir trúa því að það sé á móti vilja Guðs að veita einn einasta fermetra af Ísrael undir áhrifasvæði Palestínumanna.

    Af öllu sem ég hef séð á Vesturbakkanum, þá kom það mér mest á óvart hversu ofboðslega margar og áberandi landtökubyggðirnar eru.  Það er ekki furða að þær veki upp reiði Palestínumanna.

  • Af mjög yfirborðskenndum skoðunum á þessum palestínsku bæjum, þá sýnist mér efnahagurinn hérna vera mjög svipaður og á mörgum stöðum í Sýrlandi og Jórdaníu.  (Ég get auðvitað ekki heimsótt Gaza þar sem ástandið ku vera mun verra.) 

    Miðað við þá mynd sem oft er reynt að draga upp af Palestínu, þá á hér allt að vera í rúst.  Svo sýndist mér ekki vera, þótt að leigubílstjórinn hefði verið viljugur til að sýna mér allt það slæma sem að Ísraelsmenn hafa hér gert (og af nógu er að taka) og við fórum meðal annars inní Balata flóttamannabúðirnar.  Hins vegar þá hef ég á mörgum stöðum séð verra efnahagsástand.  Ef fólk kemur beint frá Evrópu til Ísraels og sér svo palestínska bæji, þá eru viðbrigðin mikil – en ef bæjirnir eru bornir saman við bæji í nágrannalöndunum þá er munurinn (allavegana á yfirborðinu) ekki mikill.

  • Ég tók leigubíl frá Jeríkó til Nablus og þaðan til Ramallah, með mörgum stoppum á leiðinni í minni bæjum og löngu stoppi í Nablus.  Leiðin snérist að mörgu leyti um það hvernig væri hægt að komast í gegnum varðstöðvar Ísraela.  Á einum staðnum fengum við þær upplýsingar að ég kæmist í gegn, en ekki tilbaka.  Þannig að á tímabili vorum við í þeirri stöðu að á Leið A gat ég farið en ekki (palestínskur) bílstjórinn, en á Leið B gat bílstjórinn farið en ekki ég.  Leið C, sem við uppgötvuðum síðar faldi það í sér að við keyrðum eftir malarveg framhjá engjum í um hálftíma.Þessi endalausu stopp eru auðvitað niðurlægjandi fyrir Palestínumenn.  Vesturbakkinn á að heita þeirra land, en þeir þurfa samt sem áður að sætta sig við endalaust áreiti frá ísraelskum hermönnum.  Á meðan að ísraelskir bílar með gulum númerum geta keyrt útum allt á Vesturbakkanum, þá þurfa palestínskir bílar að bíða í biðröðum eftir að vera skoðaðir.  Við sáum í dag 15 ísraelska bíla keyra framhjá okkur við einn vegatálmann.  Ég skil það afskaplega vel hvernig slíkt elur á óvild.
  • Mér var boðið heim til tveggja fjölskyldna í dag og þurfti að pína oní mig allavegana 4 bolla af arabísku kaffi en það var vel þess virði.
  • Seinni heimsóknin var nokkuð skemmtileg.  Þegar við komum inn var okkur boðið af húsbóndanum inní stofu og dyrunum að restinni af húsinu var læst.  Þegar ég bað um að fara á klósettið þurfti húsbóndinn að fara inní húsið og fela allar konurnar, sem voru orðnar kynþroska (eiginkona og ein dóttir) áður en mér var hleypt inn á klósettið.

    Í þessum bæ koma engir túristar og því gátu um 15 krakkar skemmt sér við það í hálftíma að kíkja innum gluggann og “skrýtna útlendingsins” og hlaupa svo í burtu öskrandi af hlátri þegar ég veifaði til baka.  Algjörlega æðislegt. 

  • Nablus er ein þeirra borga, þar sem að mótstaðan við Ísrael hefur verið hvað sterkust.  Ég labbaði um borgina í dágóðan tíma í dag.  Hún lítur út einsog hefðbundin Araba borg, ekki ósvipuð borgum einsog Hama og Aleppo (nema að klæðaburður kvenna er mun frjálslyndari).Það sem aðskilur Nablus þó frá þeim borgum er að á hverjum einasta vegg eru tugir plakata þar sem að litlir strákar með stórar byssur eru hylltir sem hetjur.  Þetta er dapurleg menning.
  • Á mörgum stöðum fá Palestínumenn ekki leyfi til að byggja eða bæta húsin sín.  Það að landið sé hernumið hlýtur líka að þýða það að fólk sjái minni hvata í því að sinna húsum sínum og nánasta umhverfi.  Þetta er bara einn af fjölmörgum hlutum sem gerir fólki hér lífið leitt.

Jæja, þetta er ágætt.  Á morgun ætla ég að skoða mig um hér í Ramallah og svo seinnipartinn að halda aftur Jerúsalem.

Fyrir þá, sem hafa áhuga þá er auðvelt að finna hér fyrri skrif mín um Ísrael.  Ég hef oft varið Ísraelsríki gegn oft á tíðum fáránlegum málflutningi í íslenskum fjölmiðlum – og verið kallaður ótrúlegum nöfnum fyrir það. 

Ólíkt því sem margir virðast halda þá þýðir það þó ekki að ég sé einhver sérstök klappstýra fyrir Ísraelskríki.

Skrifað í Ramallah, Palestínu klukkan 22.35