Kvöld í Stokkhólmi

And through it aaaaaaaaaaaaall she offers me protection…

Þetta lag á sennilega það sem eftir er að minna mig á ákveðna stund á ákveðnum stað í Liverpool borg með vinum mínum. Mjög skondið móment, sem rifjaðist upp fyrir mér yfir kvöldmatnum þegar þetta var spilað á veitingastaðnum.

* * *

Þegar ég ferðast einn, þá geri ég oft fulltaf hlutum sem ég elska en geri samt aldrei á Íslandi. Fínt dæmi er gærkvöldið. Þá fór ég útað borða á sæmilegum veitingastað, pantaði mér steik og hálfa rauðvín og drakk flöskuna með matnum um leið og ég las nokkra kafla í frábærri bók. Þetta var æðislegt!

Heima á Íslandi geri ég aldrei svona hluti. Stundum finnst mér æðislegt að vera einn með sjálfum mér, en heima er maður af einhverjum ástæðum hræddur við að vera einn utan heimilisins. Kannski vill maður ekki líta furðulega út. En það er samt sem áður staðreynd að kvöld einsog gærkvöldið eru svo miklu skemmtilegri en sum kvöldin sem maður á heima hjá sér, liggjandi í leti fyrir framan sjónvarpið.

* * *

Var að lesa Bush Falls eftir Jonathan Tropper, sem skrifaði líka How to talk to a widower. Einsog sú bók er Bush Falls æði. Uppáhalds-samtalið mitt í bókinni er milli Joe, söguhetjunnar (34 ára) og Jared, 18 ára frænda hans. Joe byrjar:

>What about the window girl?
Kate.
Kate. You think you’ll talk to her anytome soon?
I don’t know. As frustrating as it is, there’s something nice about this stage.
She doesn’t know you exist. I don’t think you can legally call that a stage.
I know. But I haven’t fucked anything up yet.
Point taken.

Jamm.

* * *

Í kvöld var ég á pöbb og horfði á bæði Arsenal og Man U komast áfram í Meistaradeildinni. Ég er með ofnæmi fyrir báðum liðum. Ég hefði frekar átt að vera heima, baðandi sjálfan mig í sýrubaði fullu af nöglum, hlustandi á Celine Dion.

Það hefði verið skemmtilegra.

Lost og fleira

Fyrir þá, sem eru einsog ég og ná sér í nýjasta Lost þáttinn nokkrum klukkutímum eftir að hann er sýndur í Bandaríkjunum, þá er hérna [afar athyglisverð kenning um það hvernig að þættirnir fjalli í raun um tímaferðalög](http://timelooptheory.com/the_timeline.htm) (nota bene, ef þú ert ekki kominn að nýjasta þættinum þá mun þessi síða rústa öllu fyrir þér). Síðasti þáttur um Desmond ýtir stoðum undir þessa kenningu. Ég er búinn að lesa þetta síðasta klukkutímann og þetta er skemmtilegt lesefni fyrir Lost nörda á sunnudagsmorgni. (via [Fimoculous](http://www.fimoculous.com/))

* * *

Af hverju er ég vakandi og hress svona snemma á sunnudegi? Jú, ég fór heim af djamminu í gær klukkan tvö sérstaklega til að hafa orku til þess að fara á skíði í dag. En svo er bara brjálað hvassviðri í Bláfjöllum og því planið fyrir daginn farið útum gluggann. En fótboltagláp er svo sem ekki slæmur kostur.

Ég var á [málþingi hjá UJ](http://ujr.is/2008/03/01/94/) í gær sem var bæði virkilega fjölmennt og mjög skemmtilegt. Ég fylgdist með umræðum um ESB mál, en einnig voru innflytjendamál rædd í annarri málstofu. Fyrirlestrarnir um ESB voru góðir og sérstaklega flutti Aðalsteinn Leifsson, lektor í HR, frábært erindi um hið stóra hlutverk ESB.

Við Íslendingar gleymum því nefnilega oft að ESB snýst hvorki um sjávarútvegsmál né okkar eigið rassgat, heldur að skapa og útbreiða pólitískan stöðugleika, sem var í raun nánast óhugsandi fyrir 60 árum. Jón Þór Sturluson og Ágúst Ólafur komu svo inná aðeins praktískari málefni í sínum erindum um evruna og lýðræði innan ESB. Þessi fundur var ekki til að minnka sannfæringu mína um að það er hreinasta glapræði fyrir okkur Íslendinga að taka ekki upp aðildarviðræður við ESB strax.

Einnig kom Aðalsteinn og spyrjendur útí sal ágætlega inná það sem ég held að sé helsta ástæða fyrir því að fólk er á móti ESB. Ég tel sjálfur að fyrir því séu nokkrar ástæður. Fyrst er það að forystumenn Sjálfstæðisflokksins hafa verið á móti aðild. Um leið og þeir skipta um skoðun, þá held ég að flokkurinn muni breytast í allsherjar ESB flokk. Ég tel nefnilega að í Sjálfstæðisflokknum sé tiltölulega lítill hópur, sem er virkilega á móti aðild og hefur sá hópur sig afskaplega mikið í frammi. Svo held ég að meginþorrinn sé fólk einsog þeir Sjálfstæðismenn sem eru í kringum mig. Fólk, sem sér voðalega lítið mæla gegn aðild, en fylgir oftast flokkslínunni vegna þess að það treystir forystumönnum flokksins. Ég tel að ef að forystumenn íhaldsins byrjuðu að tala vel um ESB, þá myndi flokkurinn fljótt breytast. Og þá munu Moggabloggararnir sem froðufella yfir landráðamönnum einsog mér vakna upp sem lítill minnihlutahópur í stórum ESB flokki.

Önnur ástæðan, sem má varla tala um, er að mínu mati þjóðremba. Við teljum okkur vera betri en önnur lönd. Við teljum (einsog ég hef heyrt marga Sjálfstæðismenn halda fram) að við sem framleiðum örsmátt brot úr prósenti af öllum gæðum heimins getum einhvern veginn náð betri viðskiptasamningum við lönd utan ESB en ESB sjálft. Við teljum okkar kerfi vera betra, að við höfum náð einhvers konar fullkomnu ástandi með EES samningnum. Við teljum að íslenskir ostar séu þeir bestu og að íslensk kjúklingabú séu á einhvern hátt betri en dönsk og að ESB aðild muni á einhvern hátt leggja allt íslenskt í rúst. Og við viljum enga Spánverja veiðandi fiskinn okkar, þrátt fyrir að við stöndum sjálf í því að ryksuga miðin útaf ströndum Afríku.

Ég upplifi mig hins vegar að stóru leyti sem Evrópubúa. Ég held að dvöl mín í Bandaríkjunum hafi gert það að verkum. Eins mikið og ég elska Bandaríkin og Bandaríkjamenn, þá tel ég einfaldlega að þær hugsanir og gildi sem ríki í Evrópu séu svo miklu nær mínum eigin. Og mig langar að vera hluti af einhverju stærra. Mér finnst frábært að vera Íslendingur og það mun aldrei breytast. En mig langar líka að vera hluti af einhverju stærra. Einsog Aðalsteinn sagði, að geta fundið til meiri samkenndar við aðra Evrópubúa. Að ég eigi smá hluta í Alpafjöllunum og ströndunum á Spáni. Við erum Evrópubúar og við ættum að mínu mati að vinna eins náið með öðrum Evrópubúum og við getum. Besta leiðin til þess er að ganga í Evrópusambandið.

* * *

Eftir þingið fór ég svo í partí á 7-9-13 þar sem fulltaf skemmtilegu fólki var samankomið. Ég og einn vinur minn færðum okkur svo yfir á Vegamót þar sem við vorum til 2 með skemmtilegu fólki er ég ákvað að koma mér heim til að vera hress fyrir skíðaferðina sem ekkert varð úr. Ég átti fullt af fróðlegum samræðum um pólitík og líka um áhrif þessarar bloggsíðu á mitt einkalíf. Það samtal verðskuldar eiginlega sjálfstæða færslu sem fer væntanlega í hóp með þeim milljón færslum sem ég hef lofað að skrifa á þessari síðu.

* * *

Á morgun er ég á leið til Stokkhólms þar sem ég verð fram á föstudag. Mér tókst því ekki að klára ferðasöguna frá Liverpool ferðinni fyrir þá ferð. Ó jæja.

See you soon

Í kjölfar Whitesnake færslunnar frá því í gær, þá ætla ég að gera heiðarlega tilraun næstu daga til að benda á lög, sem mér finnst vera góð og tengjast mér á einhvern hátt.

Hérna er uppáhaldslagið mitt með Coldplay

Nú er það mikið í tísku að dissa Coldplay, en ég hef ávallt verið veikur fyrir þessu bandi. Katie, fyrrverandi kærasta mín, kynnti mig fyrir þessu lagi en það hefur aldrei komið út á plötu svo ég viti Katie er snillingur og var alltaf að kynna fyrir mér nýja hluti – það var kosturinn við að vera með stelpu, sem var svona ótrúlega ólík mér. Hún kynnti mig fyrir nýjum bókum, nýrri tónlist, nýju fólk og samdi um mig ljóð, sem að snertu mig meira en nokkrar bækur eða lög höfðu áður gert. Bæði góð ljóð um góðu tímana og líka hræðileg ljóð um það hversu mikill asni ég gat verið.

Þegar ég kom heim til Íslands gaf hún mér Grace með Jeff Buckley, sem ég hlustaði á miljón sinnum og svo stuttu seinna kynnti hún mig fyrir þessu lagi með Coldplay. Ég ætlaði á tímabili að loka mig af og bíða bara eftir henni líkt og í laginu:

In a bullet proof vest
With the windows all closed
I’ll be doing my best
I’ll see you soon

En svo brást það auðvitað.

* * *

Ég er að skanna inn myndir af negatívum, sem ég á uppí skáp og veldur það sennilega þessum tveimur síðustu færslum. Hef ótrúlega mikið verið að hugsa um síðustu ár. Það fyndna við að skanna inn myndir af negatívum er að maður uppgötvar aftur myndir, sem maður hafði áður hent. Skemmtistaða-sleikir og aðrir skandalar eru enn til á negatívunum mínum þótt ég hafi eytt sjálfum myndunum fyrir einhverjum árum. Það er ótrúlega skemmtilegt að fara aftur í gegnum þetta og ég ætla að henda inn eitthvað af gömlum myndum á næstu vikum. Ég sleppi þó myndunum sem ég hafði áður hent.

* * *

Á þessari síðu, sem að WordPress benti mér á, er ég settur í hóp með Agli Helga, Sóleyu Tómasar og Henry Birgi yfir þá bloggara, sem að viðkomandi les en pirrast svo yfir eftir lesturinn. Til viðbótar er ég svo kallaður furðulegur. Ég verð að játa að þetta er magnaður félagskapur sem ég er þarna í, en ég sé ekki almennilega hvernig að skrif mín á þessa síðu geti farið í pirrurnar á fólki. Vissulega er ég oft í ham á Liverpool blogginu, en þessi síða verður rólegri með hverju árinu. Ég er m.a.s. hættur að böggast útí Framsóknarflokkinn.

Here I go again on my own

Helgin var frábær!

Á föstudaginn fór ég í fyrsta skipti í langan tíma í leikhús. Bauð stelpu með mér á Kommúnuna í Borgarleikhúsinu. Það leikrit var ágætt – fínasta afþreying sem skilur svo sem ekki mikið eftir sig. Það að fara í leikhús er eitthvað sem ég ætla alltaf að gera meira af, en klikka alltaf á, svo ég var eiginlega ánægður með þá staðreynd að ég væri yfir höfuð staddur í leikhúsi og verkið skipti minna máli. Hvað varðar deitið, þá virkaði það ekkert sérstaklega vel.

Ég hef aldrei skilið af hverju sumir segja enga “deit” menningu ríkja á Íslandi. Ég get sjálfur vitnað fyrir að þessi menning lifir ágætu lífi, þar sem ég hef farið á allmörg slík undanfarin ár. Ég var orðinn hálf þreyttur á þessu hefðbundnu veitingastaða-deitum, þannig að leikhúsið var tilraun til þess að brjóta það upp. Það gekk misjafnlega. Sumir þurfa bara að mæta á eitt deit á ævinni en mér virðist vera ætlað það hlutskipti að verða fyrsti jarðarbúinn til að fara á deit á öllum veitingastöðum á Íslandi. Þetta er eiginlega orðið hálf vandræðalegt, því ég vil helst ekki fara á fyrsta deit tvisvar á sama staðnum – finnst það asnalegt þar sem ég á til að tengja veitingastaðinn við góðar minningar af kvöldinu. Sumir staðir einsog Einar Ben og Apótekið tengjast of sterkum minningum og því gæti ég varla séð mig fara á deit þar aftur. Þannig að ég fagna alltaf þegar að nýjir veitingastaðir opna.

Ég hef þó aðeins boðið þrem útlenskum stelpum á deit um ævina og uppúr þeim hafa sprottið þrjú af langlífustu og bestu samböndunum mínum. En ætli það sé ekki full mikil einföldun að kenna þjóðerni um þetta allt saman?

* * *

Á laugardaginn náði ég að sofa út og svo kom vinur minn og horfði með mér á Liverpool sigur, sem er alltaf indælt. Stuttu seinna kom svo vinkona mín í heimsókn og við enduðum á því að eyða eftirmiðdeginum öllum og fram á nótt í að spjalla og horfa á vídeó. Góð leið til að eyða laugardegi án áfengis.

Á sunnudag fór ég svo með vinkonu minni á snjóbretti í Bláfjöllum. Við ákváðum fyrir nokkrum mánuðum að prófa snjóbretti og í þessu frábæra veðri gátum við ekki frestað því lengur. Þegar ég var lítill var ég mikið á skíðum en hef hins vegar aldrei prófað snjóbretti. Við fórum því saman í kennslu þar sem við vorum í kaðlalyftunni í Bláfjöllum.

Einsog ég hafði verið varaður við, þá datt ég sirka 100 sinnum þessa fyrstu klukkutíma. Til að byrja með gat ég ekki einu sinni staðið kjurr á brettinu því ég datt alltaf aftur á rassinn. En smám saman kom þetta og í lok tímans gat ég komist niður “brekkuna” án þess að detta. Ég get vel séð hvernig þetta getur verið skemmtilegra en skíði og er spenntur fyrir því að fara aftur sem fyrst.

Myndin sem er hér til hliðar var einmitt tekin á sunnudaginn. Það var vissulega sólskin þegar við mættum í Bláfjöll, en svo byrjaði að snjóa. Á myndinni er ég einmitt á rassinum, sem er ákaflega lýsandi fyrir daginn. Elín, vinkona mín og snillingur, tók myndina.

Ég gerði svo þau mistök að fara í fótbolta um kvöldið eftir þetta snjóbrettabrölt og frammistaða mín þar var ekki merkileg.

* * *

Toyota umboðið er búið að valda því að ég er með Here I go Again með Whitesnake á heilanum. Það lag er spilað í nýju LandCruiser auglýsingunni. Dálítið fyndið þar sem textinn í laginu er hálf sorglegur og spilar ekki beinlínis inná þá ímynd, sem ég hef af fjölskyldu- og úthverfabílnum LandCruiser. Coverdale er í einhverri ástarkreppu og er að sætta sig að vera einn á ný eftir misheppnað samband.

Just another heart in need of rescue
waiting on love’s sweet charity
and I’m gonna hold on for the rest of my days
cause I know what it means to walk along the lonely street of dreams.

And here I go again on my own
going down the only road I’ve ever known.
Like a drifter I was born to walk alone.

Myndbandið við lagið er tímalaus eitís snilld. Ég spilaði þetta hátt þegar ég var lítill.

…And I’ve made up my mind, I ain’t wasting no more time. But here I go again.

Heim.is

Jæja, kominn heim.  Eftir tvær ferðir til útlanda á tveim vikum skulda ég víst tvær ferðasögur.  Ferðin til Liverpool var tær snilld og ég sá loksins Liverpool vinna á Anfield eftir 3 töp í röð.  Ég gæti svo skrifað heila ritgerð um það hversu mikið álit ég hef á breskum stelpum.  En allavegana, ég reyni að henda inn ferðasögu – en hér eru allavegana komnar inn myndir frá San Francisco og Boston ferðinni. – og hérna eru myndirnar sem slideshow.

Út

Ég og Emil erum farnir út.  Eigum flug eftir 3 tíma til San Francisco þar sem við ætlum að eyða 5 dögum áður en við munum eyða 2 dögum í Boston.  Veit ekki hvort ég blogga e-ð frá Bandaríkjunum.

Veikindi á laugardagskvöldi

Hérna sit ég uppí sófa, veikur á laugardagskvöldi.  Er búinn að vera ferlega slappur í dag eftir kvef og vesen alla vikuna.  Dreif mig reyndar í fótbolta í morgun, en haltraði útaf velli eftir um hálftíma.  Kom heim, afboðaði það sem ég hafði lofað mér í í dag og lagðist uppí sófa, þar sem ég hef legið í allan dag.

Horfði á öööömurlegan fótboltaleik.  Núna er ég kominn í allavegana tveggja vikna frí frá Liverpool leikjum þar sem ég ætla að sleppa því að horfa á Luton leikinn og svo er ég að fara til Bandaríkjanna á föstudaginn þannig að ég missi af leiknum um næstu helgi.  Er að spá í að horfa ekkert á liðið þangað til að ég mæti á Anfield með 5 vinum mínum þann 2. febrúar.  Það er eins gott að eitthvað hafi skánað fyrir þá ferð.

Svo kláraði ég Bioshock á Xbox360, sem er sennilega einn af allra bestu leikjum sem ég hef spilað um ævina.  Ég hef eytt ótal klukkutímum fyrir framan sjónvarpið í niðamyrkri með bullandi gæsahroll yfir einhverjum ófögnuði sem er að ráðast á mig.  Frábær leikur.

* * *

Fór í bíó í gær á I’m not there, sem er ansi skringileg mynd sem fjallar um Bob Dylan.  Beisiklí gengur hún útá það að Dylan er túlkaður sem 5 mismunandi karakterar í myndinni, sem eru leiknir af ólíku fólki og heita ólíkum nöfnum.  Á þetta auðvitað að sýna hversu mótsagnakenndur persónuleiki Dylans getur verið.  Tónlistin er  stórkostleg í myndinni, en yfir höfuð var ég ekkert alltof hrifinn.  Sumir partar voru frábærir, aðrir nánast óbærilega leiðinlegir.  Til að mynda fannst mér Richard Gere kaflinn hryllingur á meðan að kaflinn þar sem Cate Blanchet leikur Dylan er frábær.  Sá hluti bjargar eiginlega myndinni, en hennar hluti hefst á tónleikum þar sem Dylan rafvæðist.

Ágæt mynd, sem ég myndi þó ekki mæla með fyrir neinn nema Dylan aðdáendur, sem að þekkja sögu hans ágætlega.  Ég get ekki ímyndað mér að aðrir geti haldið þræði yfir þessari mynd.

Djamm í Reykjavík og hættur í Kringlunni

Eftir 2 vikna hlé er ég byrjaður aftur á fullu í World Class.  Hafði reyndar mætt þar í jólafríinu og skokkað í rólegheitunum, en það var meira af skyldurækni en áhuga.  Í morgun var ég hins vegar mættur klukkan 6.30 og tók almennilega á eftir jólafríið.  Mikið afskaplega var það gott fyrir samviskuna núna seinni partinn.

Sem var fínt því ég borðaði á tveimur ofboðslega góðum veitingastöðum um helgina.  Á föstudagskvöldið borðaði ég hreindýrakjöt á La Primavera, sem var algjörlega frábært.  Á laugardaginn (eftir að hafa eytt eftirmiðdeginum í vinaboði) þá hittumst við Liverpool bloggararnir allir saman á Austur-Indíafélaginu (sjá blogg hjá Kristjáni Atla).  Ég hafði ekki farið þangað mjög lengi, enda síðasta heimsókn á þann stað ekki mjög skemmtileg (maturinn var góður, aðstæður í mínu lífi ekki).

En þetta kvöld var algjörlega frábært.  Fyrir það fyrsta var félagsskapurinn frábær og umræðuefnið (Liverpool) gríðarlega hressandi.  En maturinn var líka alveg ótrúlega góður.  Þetta er einn af þessum veitingastöðum þar sem ég fer alltaf 100% sáttur frá.  Ég fékk mér blandað Tandoori grill og drakk Cobra bjór með.

* * *

Eftir matinn var mér falið að leiða liðið um borgina.  Liverpool bloggararnir eru annaðhvort úr sveit, búa í Danmörku eða hætta sér ekki út fyrir úthverfin og því þurfti ég að vera guide um næturlíf Reykjavíkur.  Ég byrjaði á að fara með þá á Ólíver, þar sem mér datt í hug að þar væri hægt að spjalla í sæmilegum rólegheitum á efri hæðinni.  Mig grunaði samt ekki hversu mikil rólgheitin myndu verða.  Ég man þá tíð að Ólíver var pakkaður heilu laugardagskvöldin frá níu, tíu en á laugardaginn var nánast ekki Íslendingur inná staðnum þegar við vorum þarna á milli ellefu og miðnættis.  Flestir sem voru þarna inni virstust vera túristar, sem eru kannski ekki alveg jafn fljótir að finna á sér breytingar á íslensku skemmtanalífi og innfæddir.  Apótekið virðist hafa tekið gríðarlega af Ólíver og ef að þetta er það sem koma skal, þá á sá staður eftir að eiga í vandræðum.

Næst fórum við á annan stað, sem virðist líka vera á niðurleið í kjölfar opnunnar Apóteksins – Rex.  Mér datt líka í hug að við myndum fá borð þar (við reyndum í millitíðinni árangurslaust að fá borð á Ölstofunni og Boston).  Ég hafði rétt fyrir mér því að Rex var nánast algjörlega tómur.  Þegar við komum þangað voru ekki meira en 10 manns inná staðnum.  Með tímanum komu örfáir í viðbót og virtust flestir vera miðaldra túristar.  Nú hef ég ekki stundað Rex (reyndar ekki farið þangað inn í meira en ár), en þetta hlýtur að vera vonbrigði.

Þrátt fyrir þennan skort á fólki á Rex var gaurnum á undan mér meinuð innganga vegna þess að hann var í hettupeysu.  Ég, sem var í hettupeysu og jakka yfir, var hins vegar ekki stoppaður.  Ég hef alltaf verið á móti dress code, sem að byggir á því að banna einhverja ákveðna flík (strigaskó, hettupeysur) – þar sem menn geta verið með ólíkindum illa klæddir og komist inn, á meðan að vel klæddu fólki er meinaður aðgangur bara fyrir að vera í strigaskóm (eða hettupeysum).  Ég var að tryllast yfir þessum reglum í Liverpool þar sem að fólk komst inn í ljótustu fötum í heimi á meðan að tísku-fyrirbærinu mér var meinaður aðgangur vegna þess að ég var í strigaskóm.  🙂

Allavegana, við enduðum svo allir á Ölstofunni þar sem við (ég reyndar bara) vorum til lokunnar.  Þar hitti ég fulltaf vinum og skemmtilegu fólki og skemmti mér alveg hreint ljómandi vel.  Ég er fyrir löngu búinn að taka Ölstofuna í sátt, sérstaklega eftir reykingabannið.  Frábært kvöld.

* * *

Í Fréttablaðinu í dag er viðtal við e-a konu, sem segir:

“Ég fór með ömmu minni í Kringluna 3. janúar. Þar mættum við heilu hjörðunum af fólki og allt hljóp það við fót með græðgisglampa í augum. Við amma urðum að gæta okkar á því að troðast ekki undir

Það er varla að ég þori aftur í Kringluna eftir þessa lýsingu.

2008

Síðustu dagar eru búnir að vera afskaplega skemmtilegir.  Mér finnst þó alltaf fínt að koma í vinnu eftir át og leti-tíma.

Ég fór á mjög skemmtilegt djamm á laugardaginn.  Byrjaði í jólagleði UJ, sem var frábær skemmtun, fór svo á Vegamót með vinum mínum þar sem ég skemmti mér með góðu fólki og endaði svo á Ölstofunni í skemmtilegum samræðum um sjálfan mig og loks í eftirpartí.

Fór að sofa um 7 leytið en var samt mættur í brunch hjá bróður mínum klukkan 11.  Um eftirmiðdaginn komu vinir mínir í heimsókn að horfa á hrikalega frústrerandi jafntefli hjá Liverpool – og svo um kvöldið var ég með ansi skemmtilegt spilakvöld með vinum mínum.

* * *

Gamlárskvöld var svo frábært.   Ég byrjaði heima hjá systur minni í frábærum mat og fór svo heim til mömmu og pabba þar sem var skotið upp flugeldum.  Upplifði það meðal annars að fá tvær stórar rakettur til að springa í nokkura metra fjarlægð frá mér.  Fyrst tókst bróður mínum að festa stærsta flugeld kvöldsins svo kyrfilega, að eftir að ég kveikti í honum, þá tókst hann ekki á loft.  Þegar ég sá að hann hreyfðist ekki hljóp ég inní bílskúr og slapp við að fá þetta framan í mig.

Svo þegar ég og frændi minn vorum að kveikja á einni tertunni þá fór flugeldur frá nágrönnunum á hliðina, dúndraðist á tré og sprakk þar rétt hjá okkur.  Mjög hressandi allt saman.

Eftir að hafa drukkið kampavín inní húsi fór ég svo í partí niðrí miðbæ.  Þar var gríðarlega gaman.  Ég þekkti fáa í partíinu, en það kom ekki að sök, því að ég kynntist mjög skemmtilegu fólki á staðnum.  Um 5 leytið fór ég með tveimur vinum á Prikið þar sem við vorum í einhvern smá tíma áður en við fórum aftur í partíið þar sem ég var til klukkan 9.  Og það þrátt fyrir að vera nokkurn veginn edrú.  Frábært kvöld.

* * *

Gærdagurinn fór svo í það að snúa sólahringnum aftur við.  Horfði á Ratatouille, sem var mjög góð en kannski ekki jafn stórkostleg og [Metacritic dómarnir gáfu í skyn](http://www.metacritic.com/film/titles/ratatouille?q=ratatouille), borðaði nammi og svaf heil ósköp.

En jæja, þá tekur víst alvaran við.

Áramótaávarp 2007

Þar sem ég gerði upp árið í jólakortum til vina minna, þá hef ég verið að hugsa um þetta ár nokkuð mikið síðustu vikur. Við áramót finnst mér alltaf ágætt að skoða aðeins mitt líf.

Ég var búinn að impra á því aðeins í [stuttri tónlistarfærslu](http://eoe.is/gamalt/2007/12/11/23.29.18/) hvað ég væri mikið hamingjusamari um þessi áramót en ég var fyrir ári og tveim árum. Fyrir ári var ég í raun enn að jafna mig á nokkuð erfiðu sambandi og í raun má segja að ég hafi tekið mig saman í andlitinu í kjölfar þess að ég skrifaði [áramótapistilinn fyrir ári](https://www.eoe.is/gamalt/2006/12/31/17.20.39/#comments). Það fyrsta í því var að hætta að treysta á sambönd við stelpur. Ég var orðinn þreyttur á því að eignast vini í kringum sambönd við stelpur, sem svo slitnuðu um leið og samböndin slitnuðu.

Mér fannst ég því þurfa að eignast nýja vini. Vinir mínir úr barnaskólum og Verzló hafa allir verið í samböndum í fjölmörg ár og því hlaut það að gerast að þeirra áhugamál fjarlægðust mín. Alltof lengi lét ég þetta fara í taugarnar á mér og lét pirringinn bitna á þeim, í stað þess að gera eitthvað í mínum málum. Mér fannst því við síðustu áramót að ég þyrfti að kynnast nýju fólki.

Og á þessu ári hefur það tekist. Ég lærði að dansa salsa á ný og eignaðist um leið bestu vinkonu sem ég hef átt. Og ég fór að taka virkari þátt í félagsstarfi, þar sem ég um leið eignaðist frábæran vinahóp. Fyrir þetta er ég ótrúlega þakklátur og þetta er gríðarlega stór þáttur í því af hverju mér líður vel í dag.

* * *

Árið hef líka markast afskaplega mikið af vinnu. Ég byrjaði í lok síðasta árs að vinna eingöngu sem framkvæmdastjóri Serrano. Á þeim tíma hefur gríðarlega margt gerst í rekstri staðarins. Við opnuðum í janúar nýjan stað á Hringbraut, sem hefur gengið frábærlega frá upphafi. Í nóvember opnuðum við svo [glæsilegan stað í Smáralind](http://eoe.is/gamalt/2007/11/12/18.15.02/) sem byrjar líka gríðarlega vel.

Í tengslum við þetta höfum við farið í gegnum mikla vinnu til að bæta staðinn. Í Smáralindinni unnum við með hönnuði til að hanna heildarútlit staðarins, sem mun nýtast okkur í framtíðinni. Einnig hef ég lagað ýmislegt í rekstri staðarins og því hvernig staðirnir ganga í gegnum hvern dag. Auk þess höfum við svo breytt ýmsu í matnum og meira mun gerast í þeim málefnum á næstu mánuðum.

Allt hefur þetta skilað alveg frábærum niðurstöðum. Salan í Kringlunni hefur aukist áfram á árinu og hinir nýju staðir hafa verið viðbót við þann stað. Í desember vorum við til að mynda að afgreiða nærri því fjórfalt fleiri viðskiptavini en í desember í fyrra. Einnig keyptum við taílenska veitingastaðinn Síam, sem við ætlum okkur stærri hluti með á næsta ári.

* * *

En þessi mikla vinna hefur líka gert það að verkum að ég hef nánast ekkert komist til útlanda á árinu og hef í raun bara tekið mér 3 frídaga allt árið. Ég fór þó í [frábæra ferð til Liverpool](http://www.kop.is/gamalt/2007/03/08/11.02.39/) þar sem ég sá Liverpool spila við Man Unitd og slá Barcelona útúr Meistaradeildinni.

Emil og ég fórum svo [til Stokkhólms](http://eoe.is/gamalt/2007/05/22/16.11.42/) og um verslunarmannahelgina fór ég til [Skotlands](http://eoe.is/gamalt/2007/08/09/20.42.53/).

Lengsta ferðin var svo til Bandaríkjanna. Ég og Birkir yfirkokkur á Serrano fórum til Austin þar sem við skoðuðum fjöldan allan af veitingastöðum. Ég tók mér svo smá frí þar sem ég eyddi frábærri helgi með [vinum mínum í Chicago](http://eoe.is/gamalt/2007/07/02/16.33.05/) þar sem við fórum á Cubs leiki og nutum þeirrar æðislegu borgar. Svo kom ég við í Washington DC þar sem ég heimsótti Genna og Söndru, vini mína.

* * *

Og jú, ég var í einhverjum samböndum með stelpum á þessu ári. Ekkert þeirra entist þó lengur en einn mánuð. Allt mjög fínar stelpur, sem mér fannst ég á endanum ekki passa nógu vel við. Ólíkt fyrri árum sé ég þó eftir afskaplega fáu í þessum málefnum á árinu.

En mér líður semsagt afskaplega vel við þessi áramót. Nánast allt í mínu lífi er miklu betra í ár heldur en í fyrra og því get ég ekki annað en verið ánægður með árið 2007. Það eina sem skyggði á árið voru veikindi í fjölskyldunni minni, sem að vonandi eru yfirstaðin núna. Ég er líka mjög spenntur fyrir næsta ári. Ég er með gríðarlega spennandi plön í vinnunni, sem ég mun eflaust fjalla um á þessari síðu á næstunni og vonandi fæ ég líka tækifæri til að ferðast á ný. Það hefur nauðsynlega vantað góðar nýjar ferðasögur inná þessa síðu.

2008 skal vera gott ár.

Gleðilegt ár. Takk fyrir að lesa.