Nýtt líf, dagur 1

Í gær hætti ég í vinnunni. Ég sagði upp í desember, en vegna ýmissa mála ákvað ég að vinna svona lengi. Í gær pakkaði ég loksins saman dótinu á skrifborðinu mínu og labbaði út eftir rúm 3 ár í fullu starfi og fjöldamörg ár í hlutastarfi. Þetta var verulega skrýtin tilfinning.

Í dag byrjaði því nýr kafli í mínu lífi og það var skemmtileg tilviljun að það skyldi gerast á besta degi sumarsins. Í fyrsta sinn í langan tíma finnst mér einsog ég viti hvað ég vil og hvert mig langar. Núna get ég því byrjað að taka þau skref, sem eiga að koma mér á þann stað. Það mun taka einhvern tíma, en núna finnst mér ég ekki lengur vera fastur og get horft jákvætt á framhaldið.

Ef að hlutir í mínu einkalífi væru ekki svona skrýtnir og asnalegir, þá gæti ég sagt að ég væri verulega hamingjusamur – en ég á ennþá eftir að ná því saman að vera hamingjusamur í vinnu og einkalífi á sama tíma. Vonandi gerist það einhvern tíma á næstunni. En það breytir ekki öllu, því mér líður vel með þessa byrjun.

Ég ætla að nýta næstu vikur í að klára ýmis mál, sem hafa setið á hakanum síðustu vikur og mánuði og svo fer ég út í frí.


En mikið var dagurinn í dag æðislegur. Ég æfði útí í ræktinni, lá svo í sólbaði á svölunum og las pappíra sem höfðu legið inná skrifstofu lengi. Ég fór svo og hitti vin minn niðrá Austurvelli þar sem við fengum okkur mat og bjór í hreint stórkostlegu veðri. Það er ekki annað hægt en að vera hamingjusamur á svona góðviðriðsdögum þegar að milljón manns eru í miðbænum, stelpurnar léttklæddar og sætar og allir í góðu skapi. Reykjavík verður 100 sinnum meira heillandi borg fyrir vikið.

Helgin var líka algjört æði, eða réttara sagt laugardagur og sunnudagur. Ég var með vinum mínum að steggja æskuvin minn, sem var æði. Eftir paintball og eitthvað fleira í bænum fórum við svo á Grundarfjörð þar sem við vorum með sumarbústað, en í bænum var hátíð sem ég var líka á í fyrra. Við duttum í það í bústaðinum og fórum svo á eitthvað bryggjuball þar sem félagsmálaráðherra var að syngja fyrir öfurölva fólk á öllum aldri. Enduðum svo á einum barnum þar sem einhver hljómsveit var að spila. Þar var fín stemning með tilheyrandi slagsmálum og látum.

Helgin kláraðist svo á Sigur Rósar tónleikunum á Klambratúni. Þeir voru auðvitað frábærir. Sigur Rós er algjörlega ótrúleg hljómsveit og eftir tónleikana er ég enn vissari í trú minni um að það sé ekki hægt að ljúka tónleikum á flottara lagi en Popplaginu. Ég hef hlustað á það nokkrum sinnum á tónleikum en þessi útgáfa hlýtur að teljast vera sú al magnaðasta.

Ótrúleg hljómsveit!

Vá!

Vá…

– Vá Hvað ég er orðinn brúnn!
– Vá! Ryan í OC var að verða **átján**. Gaurinn, sem leikur hann er ári yngri en ég.
– Vá hvað ég datt gjörsamlega úr öllu formi í þessum veikindum. Ég reyndi að hlaupa eftir Ægissíðunni áðan og var næstum örmagna eftir korters skokk.
– Vá hvað I’m the Ocean með Neil Young og Pearl Jam er gott hlaupalag.
– Vá hvað mig langar í [svona dót](http://www.apple.com/ipod/nike/).
– Vá hvað líf mitt er flókið og skrýtið akkúrat núna. Það er sóun að eyða fáu sólskinsdögunum á Íslandi í vesen.
– Vá hvað ég er búinn að skipta oft um skoðun á því hvert ég ætla að fara í ferðalaginu mínu. Skrifa sennilega um það um helgina.
– Vá, ég trúi því varla að ég á 10 daga eftir í vinnunni minni.

Skortur á góðum drykkjum

Eitt, sem getur hugsanlega talist gott við veikindi er að ég losna við allt samviskubit sem tengist áti. Ef mig langar í kex með mjólk í morgunmat, popp í hádegismat og nammi í eftirmiðdagskaffi, þá fæ ég nákvæmlega ekkert samviskubit yfir því. Ég er veikur og á því að geta leyft mér slíkt.

Ég hef hins vegar komist að því að það er enginn einn drykkur í á þessu landi, sem mér finnst æðislega góður. Dags daglega drekk ég mjólk og vatn og svo sódavatn. Ég hætti fyrir nokkrum árum að drekka kók og því fæ ég mér aðeins Pepsi Max einstaka sinnum (eftir djamm aðallega).

Í þessari veikindapásu langaði mig í eitthvað ofboðslega gott að drekka og hollustan var engin fyrirstaða. Fékk mér því Coca Cola, sem eftir margra ára bindindi bragðast bara hreint ekki vel. Það sama á við um Pepsi fyrir mig og í raun Pepsi Max líka. Ég varð því eiginlega bara að gefast upp eftir smá tíma og biðja um að keypt yrði handa mér Sítrónu Kristall.

Það þykir mér magnað. Að í veikindum, þá gat ég ekki fundið neinn óhollan drykk sem mig langaði meira í en kolsýrt vatn með sítrónubragði. Það er e-ð hálf sorglegt við það.Þegar ég fór að tala um þetta við kærustuna mína, þá gat ég bara rifjað upp tvo drykki, sem (í minningunni allavegana) mig myndi langa í akkúrat núna.

1. Fanta með Greip bragði. Venjulegt Fanta er einhver allra versti gosdrykkur á jörðinni. Hins vegar þegar ég var skiptinemi í Venezuela fyrir nokkrum árum þá fór ég með vini mínum í dagsferð yfir til Kólumbíu. Þar í einhverjum litlum landamærabæ settumst við inná veitingastað og sáum Fanta í gulum og fjólubláum umbúðum, sem hét “Fanta Toronja” eða Fanta Greip.

Kannski var það hitinn og uppbyggður þorsti, en okkur fannst við aldrei hafa bragðað jafn góðan drykk. Við enduðum á að drekka 4-5 dósir yfir þá nokkru klukkutíma sem við vorum í Kólumbíu og tókum svo með okkur fullt aftur til Venezuela.
2. Fanta með Greip bragði kemst þó ekki nálægt uppáhaldsdrykknum mínum, hinu [brasilíska Guaraná](http://en.wikipedia.org/wiki/Guaran%C3%A1_Antarctica). Guaraná er búið til úr samnenfdri jurt og hefur því örvandi áhrif. Það varð sennilega ekki til að minnka aðdáun mína á drykknum, en aðallega var það bragðið sem gerði mig algjörlega háðan drykknum á ferðalagi mínu um Brasilíu. Ég drakk allavegana 3-4 glös á dag í Brasilíu og þegar ég nálgaðist landamæri Paragvæ þá byrjaði ég að auka neysluna umtalsvert, því ég gerði mér ekki grein fyrir því að drykkurinn væri líka til þar.

Frá þeirri ferð hef ég aldrei séð Guaraná til sölu. Ég leitaði talsvert að drykknum í Bandaríkjunum, en fann ekki (fann hins vegar fullt af búðum sem seldu perúska viðbjóðinn [Inca Cola](http://en.wikipedia.org/wiki/Inca_Cola)). Það hefur sennilega gert Guaraná ennþá betra í minningunni.

Þannig að niðurstaðan úr þessum gosdrykkjapælingum hjá mér í dag var sú að mig langaði ótrúlega mikið í tvo Suður-Ameríska gosdrykki, en nákvæmlega ekkert í drykkina sem voru til útí Melabúð. Ég fékk mér því bara sítrónubragðbætt sódavatn.

Fáar og lélegar færslur

Ég hef að undanförnu verið í talsverðum efa um innihald og framhald á þessari ágætu bloggsíðu. Þeir, sem hafa fylgst með henni í langan tíma, hljóta að hafa tekið eftir því að færslum á þessari síðu hefur fækkað og innihaldið rýrnað. Fyrir því eru nokkrar ástæður.

– Ég hef haldið þessari síðu út í rúmlega 6 ár. Hún hefur fylgt mér í gegnum góða og slæma hluti í mínu einkalífi. Bæði þegar ég hef verið á föstu og lausu og í þeim tilfellum þegar ég hef verið hamingjusamur eða ekki. Það sem hefur hins vegar einkennt skrif mín er að ég hef skrifað meira þegar ég er óhamingjusamur og þegar ég er á lausu. Sumir hafa eflaust fengið þá hugmynd að ég væri alltaf á lausu og alltaf eitthvað fúll útí heiminn. Staðreyndin er hins vegar sú að ég hef ávallt minnkað skrifin þegar ég hef verið á föstu eða þegar mér hefur liðið vel, bæði vegna þess að þá leita ég minna á netið og vegna þess að mér þykir óþægilegt að skrifa um líf mitt þegar önnur manneskja er svo nátengd því.

Það er nefnilega ekkert mál að skrifa um persónulega hluti þegar þeir varða að mestu leyti mig sjálfan. Hins vegar þegar ég er á föstu, þá er önnur manneskja ávallt tengd þeim skrifum og það gerir það að verkum að ég er ekki eins tilbúinn að opna mitt einkalíf.

– Varðandi pólitísk og önnur almenn skrif á þessa síðu þá lendi ég sífellt oftar í því að ritskoða sjálfan mig. Aðalástæðan fyrir því er að ég á veitingastað og það er alltaf möguleiki á því að ákveðin skrif komi illa við ákveðinn hóp viðskiptavina.

Ég hef skrifað eitthvað af pistlum um íslenska pólitík eða dægurmál, en þeir eru talsvert mildari heldur en skrif mín voru áður. Ég er alltaf hræddur um að pirra einhverja eða skemma að einhverju leyti fyrir rekstrinum mínum. Þetta veldur því að ég sleppi því að gera grín að sjónvarpsþáttum á Sirkus eða framsóknarmönnum eða jeppaeigendum (ó, hvað mig langar að skrifa um samtök pallbílaeigenda, sem kvarta undan álagningu í Hvalfjarðargöngunum) því ég veit að hlutar af þessu fólki eru núverandi eða væntanlegir kúnnar á veitingastaðnum mínum. Það er því spurning hvort það borgi sig fyrir mig að hella úr skálum reiði minnar á netinu þegar það kann að hafa slæm áhrif á reksturinn.

Kannski eru þetta ranghugmyndir hjá mér. Kannski ekki. En þetta eru allavegana ástæður fyrir skorti á góðum færslum hérna að undanförnu.

– Mér finnst líka á stundum einsog þessi síða sé að koma í stað venjulegra samskipta við vini mína og vandamenn. Ein vinkona mín, sem býr erlendis, sagðist ekki vilja setja upp bloggsíðu þar sem að hún væri hrædd um að fá ekki tölvupósta frá vinum sínum. Ég held að margir hafi treyst á að fá fréttir af mínu lífi í gegnum þessa síðu í stað þess að hringja eða senda mér tölvupóst. Og að vissu leyti hef ég gert ráð fyrir því að það sé að gerast, svo að ég hef ósjálfrátt minnkað samskiptin. Það er ekki gott. Og því vil ég breyta.

En allavegana núna þegar ég er að hætta í 9-5 vinnunni minni, þá er ég að undirbúa langt ferðalag. Ferðasagan úr því ferðalagi ætti væntanlega að lífga uppá þessa síðu.

Helgin

Ja hérna, Halldór [hættur](http://www.mbl.is/mm/frettir/frett.html?nid=1205686) sem forsætisráðherra!


Helgin er búin að vera verulega góð – eða allavegana kvöldin. Fór útað borða með kærustunni og svo á smá pöbbarölt á föstudaginn og á laugardag fór ég í giftingu til vina minna. Drakk slatta af léttvíni og bjór, en gerði engan skandal, hélt engar ræður og hegðaði mér almennt séð nokkuð vel. Sem er framför frá fyrri brúðkaupum. Kannski hefur kærastan mín þessi áhrif á mig. Eða kannski er ég bara að þroskast.


Horfði á Bachelorette, sem er stórkostleg skemmtun. Annað eins samansafn af örvæntingarfullum karlmönnum er vanfundið. Einhvern veginn er það búið að stimpla inní hausinn á karlmönnum að konur þrái ekkert meira en karlmann, sem vill binda sig niður og eignast 5 börn. Allavegana þurftu flestir strákarnir að koma því að á fyrstu 5 mínútunum að þeir væru tilbúnir í fjölskyldu.

Einn af strákunum er 29 ára og **hreinn sveinn** af því að hann er að bíða framtil brúðkaups. Ég get skilið margt, en þessi ákvörðun er ekki eitt af því, sem ég get skilið.


5 dagar í HM og vika í Roger Waters. Það er gott mál.

Kosningar, djamm og hettuklætt fólk

Ég verð að játa það að ég er ennþá svekktur yfir úrslitum kosninganna. Hef bara svo lítið álit á Sjálfstæðismönnum að ég efast stórlega um að þeir geri margt til að gera Reykjavík að skemmtilegri eða meira spennandi borg. Flestir, sem kusu xD búa í Grafarvoginum og eru eflaust sáttir við þá borgarmynd, sem þar er. Spurning hvort það sé einhvern tímann hægt að sætta viðhorf þeirra, sem búa í einbýli í úthverfum og okkar hinna, sem búum nær miðbænum. Kannski að við séum bara í minnihluta, sem viljum sjá þéttari og meira spennandi borg.

En kannski er ég bara of svartsýnn. Vona bara að þeir semji við VG, en ekki hina flokkana.

Fór með kærustunni á mótmælin á Austurvelli gegn virkjanastarfseminni. Skrifaði undir mótmælaskjal þar, þrátt fyrir að ég viti ekki nákvæmlega hverju það á að skila. Framsóknarflokkurinn er að þurrkast út, en samt mun sennilega enginn fatta að það gæti verið stóriðjustefnunni að kenna.

Var svo í grilli og horfði á kosningavökuna fram til 12. Fór í þetta umtalaða Kristalla partí, sem menn voru að keppast við [að](http://www.badabing.is/2006/05/kristall_til_soelu.html) [dissa](http://www.this.is/drgunni/gerast.html). Þegar við komum niður í Iðu sáum við að biðröðin var löng og engin hreyfing á henni. Þegar að einhver stelpa kom í röðina fyrir aftan mig og hrópaði yfir hópinn: “hvað er málið með þessa dyraverði, fatta þeir ekki að sumir fengu kristal, en aðrir ekki”, þá ákvaðum við að þetta væri ekki beint sá staður, sem við vildum vera á. Löbbuðum upp Laugaveginn og inná nokkra staði, en alls staðar var troðið. Löbbuðum því aftur niðrí bæ þar sem biðröðin hafði alltí einu horfin og því kíktum við inn. Drukkum nokkra vodka+orkudrykki í boði Kók (takk!). Horfðum á einhver bönd á efri hæðinni, þar á meðal [dr.mister & mr. handsome](http://profile.myspace.com/index.cfm?fuseaction=user.viewprofile&friendid=41026415), sem mér fannst fínt band. Enduðum svo ásamt fleira fólki á Vegamótum.

* * *

Fyrir þetta djamm hafði ég ekki farið á skemmtistaðadjamm í margar vikur. Var reyndar í steggjapartýi í síðustu viku, en það telst varla með. Var alveg óheyrilega slappur og þunnur í gær og held að ég sé ennþá að jafna mig.

* * *

Annars vil ég lýsa frati á þessa ríkisstjórn. Á meðan að það er ennþá fólk, sem þarf að safna saman dósum á götunni á meðan aðrir djamma, þá er eitthvað mikið að í þessu velferðarkerfi okkar. Við erum að breytast í fokking Bandaríkin. Fyrirsögnin á DV um að 10 ríkustu einstaklingarnir eigi 712 milljarða (þeir gætu tekið sig saman um að gefa hverjum einasta Íslending 2,3 milljónir) en samt er hettuklætt fólk að safna saman dósum á götunni. Ömurlegt ástand. Af hverju er aldrei skrifað um þetta fólk?

Hár, reykköfun og Seltjarnarnes

Ef ég hefði sent inn bréf til Skjás Eins fyrir tveim mánuðum með þeirri hugmynd að búa til hálftíma sjónvarpsþátt, þar sem 20 krakkar fara saman í reykköfun og í leiki uppí sveit, ætli hugmyndinni hefði verið vel tekið?

Ég sé að einhver hefur fengið þessa hugmynd og búið til sjónvarpsþátt úr því. En líka með því snilldar twist-i að hafa krakkana 20 alla keppendur í Ungrú Ísland. Einsog ég hef nú gaman af sætum stelpum (reyndar mjög gaman), þá breytir það ekki þeirri staðreynd að hugmyndin að sjónvarpsþættinum er ekki góð. Það er fínt að gera þátt um þessa keppni, en menn verða að finna eitthvað skemmtilegra fyrir stelpurnar að gera.


Ég er búinn að fatta að ég horfi ekki á venjulega sjónvarpsdagskrá lengur (fyrir utan íþróttir). Horfi frekar á heilar þáttaraðir þegar mér hentar. Í kvöld þegar ég kom loksins heim ákvað ég þó að horfa á sjónvarpið.

Ég geri fastlega ráð fyrir því að í kvöld sé stelpukvöld á Skjá Einum. Á undan þættinum um Ungfrú Ísland var þáttur af America’s Next Top Model. Það er nú meiri endemis hörmungin. Alveg eins hrifin og ég er af drasl raunveruleikasjónvarpi, þá er vælið í þessum þætti alveg nóg til að gera mig geðveikan. Get a fokking grip!

Ok, horfi ekki á fleiri þætti.


Í dag hrindgi ég í heilsugæslu Seltjarnarnes, sem er víst heilsugæslan mín þar sem ég bý í Vesturbænum. Ég spýtti næstum því kaffinu útúr mér þegar mér var sagt að ég fengi tíma útaf auma puttanum mínum *á morgun*! Á MORGUN! Finnst ykkur það ekki merkilegt? Ég tek tilbaka allt ljótt, sem ég hef sagt um Seltjarnarnes og Sjálfstæðismenn á Seltjarnarnesi. Æ, reyndar var það ekkert ljótt – þeir eru algjörar dúllur.


Ég fór í klippingu á föstudaginn og stytti hárið um 3-4 sentimetra. Það er svo sannarlega efni til skrifa á þessari síðu. Hafði bara einu sinni verið svona síðhærður áður. Hárið var orðið það sítt að ef ég teygði toppinn (hárið mitt krullast mjög mikið) þá gat ég snert hárið með tungunni. Ég sýndi þetta m.a. uppá Serrano, en þetta vakti takmarkaða hrifningu þrátt fyrir að mér finndist þetta vera æðislega merkilegt.

En allavegana, þessi síði toppur gerði það að verkum að ég gat verið ofboðslega hipp og kúl og haft toppinn fyrir augunum. Ég hafði talið mér trú um að það væri kúl og myndi fara mér vel. Hins vegar komst ég að því að ég hef nákvæmlega *enga* þolinmæði í þá greiðslu, þar sem ég var alltaf að taka toppinn úr augunum á mér, sérstaklega þegar toppurinn sveiflaðist til og stakkst í augað á mér á fullri ferð, sem mér fannst gerast frekar oft.

En núna er hárið komið niðrí [þessa sídd](https://www.eoe.is/ummig/), sem er umtalsvert þægilegra.


Já, og ef einhver hefur fleiri tillögur fyrir Parísarferðina mína, endilega [komið með þær](https://www.eoe.is/gamalt/2006/05/03/10.58.02/).

Út

Ég er að fara út í fyrramálið. Fer til Utrecht í Hollandi, þar sem ég mun sitja ráðstefnu um sælgæti. Hún mun vera fram á fimmtudag. Föstudeginum ætla ég að eyða á [Rijksmuseum](http://www.rijksmuseum.nl/index.jsp) í Amsterdam. Hef ekki enn farið á það ágæta safn, þrátt fyrir að ég hafi komið alloft til Amsterdam.

Svo fer ég um næstu helgi yfir til Brussel. Ég hef komið til Belgíu áður, en ég man ekki neitt frá þeirri heimsókn, þannig að það ætti að vera eitthvað nýtt. Veit ekki hversu vel mér gangi að komast í tölvu og hversu miklu ég hef frá að segja á næstu dögum.

Síðustu vikur

Á síðustu vikum hef ég:

– Ekki nennt að blogga (nema á Liverpool blogginu)
– Verið hamingjusamur
– Farið á laugardagskvöldi á Ólíver (enn léleg tónlist), Rex (ég er ekki enn nógu gamall fyrir þann stað), Victor (verulega skrýtið), Vínbarinn (í 15 mínútur, til að hitta fólk – ef ég er ekki nógu gamall fyrir Rex, þá er ég ekki nógu gamall fyrir Vínbarinn), Pravda (veit ekki af hverju), Sólon (í 5 mínútur – í fyrsta skipti í 3 ár – sama stelpan er enn að afgreiða á barnum, það hlýtur að vera einhvers konar met), 11 (reyndar of snemma um kvöld), Apótek (brilljant Mojito) og Vegamót (loftræsting – halló?!)
– Borðað hamborgara á Óliver – sem hlýtur að vera besti hamborgari á Íslandi.
– Farið uppí sveit oftar en einu sinni.
– Prófað eitthvað annað en pad thai af matseðlinum á krua thai. Kjúklingur í panang karrý er líka fokking snilld!
– Verið tekinn fyrir of hraðann akstur í Hvalfjarðargöngunum.
– Orðið reiður yfir Íslandi og álæðinu.
– Uppgtövað að það kostar bara 250 kall að þrífa og strauja skyrtu í efnalauginn í JL húsinu. Þessi uppgötvun olli nánast byltingu í mínu lífi.

Svo hafa orðið breytingarnar í mínu persónulega lífi. Þær hafa verið góðar.

Fótboltaferð

Ég er að fara út í fyrramálið í massíva fótboltaferð. Vona að hún verði jafn vel heppnuð og [síðasta fótboltaferð](https://www.eoe.is/liverpool/gamalt/2005/06/04/21.34.16/).

Planið er semsagt að fara út á morgun til Barcelona. Þar verð ég á þriðjudag á fundum hjá fyrirtæki, sem ég sé um að markaðssetja hér á landi, og svo um kvöldið fer ég í boði þess fyrirtækis á **Barcelona-Chelsea** á Nou Camp!

Þetta er náttúrulega leikur ársins hingað til og ég er orðinn alveg fáránlega spenntur. Ég hef séð Barcelona spila 3svar áður á Nou Camp, en aldrei í jafnstórum leik og núna.

Á miðvikudaginn á ég svo flugmiða frá Barcelona til Liverpool. Þar mun ég á miðvikudagskvöld vera mættur í Kop stúkuna til að horfa á **Liverpool-Benfica**. Þar þarf Liverpool að vinna upp eins marks tap frá fyrri l eiknum og er ég bjartsýnn á að það gerist. Ég er einnig nokkuð viss um að Robbie Fowler mun skora sitt fyrsta mark í þeim leik. Gott ef það verður ekki bara beint fyrir framan nefið á mér. 🙂

Allavegana, býst ekki við að uppfæra fyrr en ég kem heim.