Tómt!

Eldhúsinnréttingin, eða allavegana stærsti hluti hennar er farin. Það komu hingað hjón áðan og kipptu henni niður. Ofninn og hellurnar farnar og vaskurinn stendur einn eftir, en hann mun fara um helgina.

Núna hef ég fullkomlega lögmæta afsökun fyrir því að elda ekki, víst að eldavélin er farin. Því er öllum vinum og vandamönnum velkomið að bjóða mér í mat á næstu dögum 😉 Nýja eldhúsinnréttingin kemur víst ekki fyrr en eftir tvær vikur. Því mega staðir einsog Eldsmiðjan, Austurlandahraðlestin og fleiri eiga von á auknum viðskiptum næstu daga.


Annars, þá þótti mér mjög gaman að ummælunum um “[edrú færsluna mína](https://www.eoe.is/gamalt/2004/09/27/23.23.21/)”. Þau bæta talsverðu við færsluna. Mig langar talsvert að djamma (edrú eður ei) um helgina, en tilraunir til að skipuleggja starfsmannapartí og matarboð hafa farið útum þúfur. Það er ekki gott.


Ég er hálf þunglyndur í kvöld eftir að hafa horft og hlustað á baseball tímabilið hjá uppáhaldsliðinu mínu [fara niðrí ræsið](http://chicagosports.chicagotribune.com/sports/baseball/cubs/cs-040930cubsgamer,1,2177858.story?coll=cs-home-headlines). Það er búin að vera hrein martröð að fylgjast með liðinu síðan á laugardag. Það þyrfti kraftaverk á næstu 3 dögum til að bjarga þessu blessaða tímabili.


Ég veit ekki hvort þetta er merki um geðveiki, en ég er búinn að vera með algjört kántrí æði eftir að ég sá [Willie Nelson á tónleikum](https://www.eoe.is/gamalt/2004/09/07/05.42.00/). Auðvitað er mestallt kántrí algjör vibbi, en það er þó inn á milli mikil snilld. Svo sem einsog Johnny Cash, fulltaf Dylan lögum, sum Beck lög, Willie Nelson og platan, sem ég er að hlusta á núna: [Harvest](http://www.amazon.com/exec/obidos/tg/detail/-/B000002KD1/qid=1096587111/sr=8-2/ref=pd_csp_2/103-5958813-3507831?v=glance&s=music&n=507846) með Neil Young. Hún er án efa ein af mínum uppáhaldsplötum.

Hugleiðingar við heimkomu (Einar djammar edrú)

30 dagar á ferðalagi þýðir að maður hefur nógan tíma til að hugsa sinn gang. Í nær öllum borgunum, sem ég fór til í Bandaríkjaferðinni, gisti ég hjá vinum og hékk með þeim mestallan tímann, þannig að ég var lengstum í hópi vina. Inná milli voru þó flugferðir, leigubílaferðir og gönguferðir á eigin spýtum. Auk þess sem ég eyddi nærri viku einn í ferð frá Chicago til Las Vegas, þar með talið 24 tíma lestarferð.

Þess vegna hafði ég nógan tíma til að hugsa um sjálfan mig, fólkið í kringum mig, hvað ég hef gert undanfarna mánuði og hvað ég vilji gera á næstunni.


Á föstudaginn fór ég á djammið. Það þykja nú ekki merkileg tíðindi, enda hef ég sennilega farið yfir 50 sinnum á djammið síðasta árið. Það nýja í þessu öllu var hins vegar að ég var bláedrú allan tímann.

Eitt af því, sem kom aftur og aftur uppí hugann þegar ég fór að hugsa um sumarið og undanfarna mánuði, var hvað ég hafði sagt og gert á djamminu á meðan ég var að drekka. Ég hef gert ófá mistök að undanförnu og satt best að segja vildi ég innilega taka tilbaka nokkur djömm frá því í sumar. Þegar ég hugsaði um þetta allt var ég eiginlega hálf pirraður útí þetta allt saman og umfram allt útí sjálfan mig. Ég er kominn með leið á að gera eitthvað á djamminu, sem ég myndi að öðrum kosti aldrei gera.


Í öllum þessum pælingum mínum í Bandaríkjunum fékk ég eiginlega svolítið ógeð á djamminu og því var ég staðráðinn í að djamma án áfengis eftir að ég kom heim. Og ég gerði það á föstudaginn. Og ég skemmti mér bara frábærlega. Það eina pirrandi var að fólk hafði stanslausar áhyggjur af því að ég væri ekki að drekka allt kvöldið. Held að næst þegar ég geri þetta muni ég þamba pilsner allt kvöldið (já, eða appelsínusafa) svo það líti út fyrir að ég sé að drekka.

Það er hressandi að fara í bæinn svona edrú. Ég var með fólki úr vinnunni á djamminu og við fórum á Vegamót, Sólon og Pravda. Það er margt, sem er öðruvísi svona edrú. Til dæmis verða stelpur ekki sætari þegar líður á kvöldið einsog vill verða þegar maður er að drekka. Einnig þarf maður að borða, því maður fær enga næringu úr áfengi. Ég þurfti því að háma í mig snakk og svo pulsu til að deyja ekki úr hungri. Það að vera bílstjóri er líka mikill ókostur við þetta. Ég endaði kvöldið t.am. á klukkutíma ökuferð um bæinn til að skutla fólki heim. Það hefði ég viljað losna við. 🙂


Ég talaði lengi við Grace vinkonu mína þegar ég var í San Fransisco. Þegar við vorum saman sem skiptinemar í Venezuela, þá var ég lítill og vitlaus 18 ára strákur, sem vissi ansi lítið um sjálfan mig (ekki það að ég viti neitt miklu meira núna). Við gátum eytt heilu dögunum talandi um lífið, fólkið í kringum okkur, hvernig manneskjur við vildum verða og hvað við vildum gera.

Í þetta skiptið höfðum við ekki jafnmörg tækifæri til að tala saman, en þau skipti sem við höfðum voru þeim mun mikilvægari. Það var ótrúlega þægilegt að geta talað við einhvern um stelpur og annað á Íslandi, vitandi það að manneskjan hefur ekki minnstu hugmynd um hverja ég er að tala. Því gat ég talað við hana og hún byggt ummæli sín á því hvernig mér leið og ég vissi að þótt hún segði öllum sínum vinum frá, þá myndi það engu breyta. Þetta var rosalega hressandi.

Á meðan ég var úti komst ég að því að stelpa, sem ég var (er) geðveikt skotinn í, er komin með kærasta. Hún hafði verið á lausu í heillangan tíma en ég gat aldrei andskotast til að gera neitt í því. Hvort sem ég sá hana á djamminu eða edrú, þá fann ég alltaf einhverja ástæðu til að gera ekki neitt.

Mitt í öllum þessum samræðum benti Grace mér alltaf á það augljósa, það er að ég hefði bara átt að drífa mig og gera eitthvað í málunum. Í stað þess að vona að eitthvað gerðist í mínu lífi, þá hefði ég átt að gera eitthvað *sjálfur*. Lífið er alltof stutt til að vonast til þess að einhver stelpa geri eitthvað eða til þess að Guð gefi manni eitthvað pottþétt merki um að maður eigi að gera eitthvað. Maður verður bara að taka áhættu, hvort sem það er í þessum málum eða öðrum. Ég hef gert mig að fífli svo oft á ævinni að það skiptir engu máli hvort ég geri það nokkrum sinnum í viðbót…

Is it true that Iceland is green and Greenland ice?

grandcanyon.jpg

Kominn heim.

Tekinn í tollinum. Kræst!
Framsóknarmaður orðinn forsætisráðherra. Krææst!
Jón Steinar í fréttunum. Krææææææst!

Damien Rice á morgun. Jeeeeesssss!!

Þegar ég kom heim var íbúðin mín tandurhrein! Ég veit ekki hver gerði þetta, en mig grunar mömmu um verknaðinn. Hún ætlaði víst að kíkja í íbúðina mína til að sjá hvort “allt væri í lagi”. Á ég bestu mömmu í heimi? Jammmm, pottþétt.

Myndin er af mér við Grand Canyon. Ég tók víst 410 myndir í ferðinni og því mun það taka einhvern tíma að setja þær bestu inná þessa síðu.

Meira síðar…

27

Og án þess að neitt merkilegt hafi breyst í heiminum, þá varð ég 27 ára á þriðjudaginn.

Fokking magnað skal ég segja ykkur. Og þó, ég er bara sáttur.

Átti rólegan afmælisdag. Eða rólegan og ekki rólegan. Vinnan er búin að vera hreinasta sturlun síðustu daga. Þar, sem ég er að fara út og vegna þess að ég er fullkomlega ómissandi (ehm!) þá hef ég verið til klukkan 9-10 öll kvöld að vinna. Síminn minn sló persónulegt met í dag, svo mörg voru símtölin og það lítur út fyrir að ég verði í einhverju algjöru allsherjar stresskasti á morgun. Trúi því varla að ég sé að fara út eftir tvo daga.

Allavegana, það var allt brjálað í vinnunni á afmælisdaginn og var ég kominn heim um 8 leytið. Fór þá strax niðrí Iðnó, þar sem ég [horfði á Jón Baldvin](http://www.jenssigurdsson.com/entry/2004/08/18/23.28.22/index.html), mesta stjórnmálasnilling á Íslandi, halda ræðu. Hafði ætlað að hitta [PR](http://www.jenssigurdsson.com) & frú, en það var fullt útúr dyrum, þannig að ég var frammí anddyri allan tímann. Hitti þau hjónin þó eftirá og við fórum á Thorvaldsen (af öllum stöðum) og fengum okkur bjór í tilefni dagsins.


Í gær fór ég með frænda mínum á [Ísland-Ítalíu](http://www.fotbolti.net/fullStory.php?id=17751). Það var frábært og hef ég ekki skemmt mér jafn vel á landsleik síðan ég og Friðrik fórum á Ísland-Frakkland fyrir nokkrum árum. Allt stappað á vellinum (ég var í stúku, Guði (og KBBanka) sé lof), frábær stemning (ég var m.a.s. hás í dag) og frábær sigur á Nesta, Gattuso og hinum smjördrengjunum í ítalska liðinu. Ljómandi, alveg hreint. Á morgun, Lou Reed.


Annars, þá fer maður ”á tímamótum sem þessum” pínu að hugsa um hvað maður hefur gert á síðustu mánuðum. Lygilega lítið ef eitthvað er. Einhvern veginn rennur þetta allt saman í einhvert vinnu-brjálæði, djamm og endalaust stelpu-vesen.

Jú, ég fór til Rússlands eftir síðasta afmæli og það verður nú að teljast hápunkturinn á þessu síðasta ári. Þá [skrifaði]( https://www.eoe.is/gamalt/2003/08/18/18.51.56/) ég einmitt: ”Þetta er líka gott tækifæri til að jafna mig eftir allt vinnuálagið og vesen í einkalífinu undanfarnar vikur og mánuði.”
Einhvern veginn finnst mér ég vera á nákvæmlega sama punkti og ég var áður en ég fór til Rússlands. Þessi setning passar alveg jafnvel við mig í dag. Jú, ég er búinn að vesenast eitthvað í íbúðinni minni, svo hún lítur betur út, og ég er kominn mun betur inní vinnuna, en samt þá finnst mér einsog svo lítið hafi gerst. Það er ennþá alltaf eitthvað bölvað vesen á manni utan vinnu. Og kræst maður, þarf að fara að finna stelpu, sem er ekki á föstu eða nýhætt í sambandi. Það hlýtur að fara að koma. Ég hlýt að vera búinn að taka út þann skammt. 🙂


Oft á tíðum fæ ég endurnýjaða trú á mannkynið. Ein af slíkum stundum átti sér stað þegar ég var á leiðinni heim úr vinnunni um níu-leytið í kvöld. Á einhverju stöðvarápi endaði ég á FM957. Þar var verið að spila Dry Your Eyes með [The Streets](http://www.the-streets.co.uk/)!!! (Já, þrjú upphrópunarmerki, þetta er svo merkilegt). Ekki nóg með það, heldur var þetta lag á FM-listanum!!! (Takið eftir, aftur þrjú upphrópunarmerki) Já, kraftaverkin gerast. Bæ ðe veij, ef þið hafið ekki hlustað á [The Streets](http://www.the-streets.co.uk/), hendið þá frá ykkur tölvunni og hlaupið útí næstu búð. Þessi gaur er snillingur.


Já, og svo fannst mér alveg ljómandi egósentrískt að setja mynd af sjálfum mér á afmælisdaginn við þessa afmælisfærslu. Svona til að vinir og vandamenn gleymi ekki því hvernig ég lít út á meðan ég er í Bandaríkjunum. Þetta er nú einu sinni blogg og fátt er meira egósentrískara en að halda úti bloggsíðu um sjálfan sig. Og hananú!


En núna er það USA. Var að tala við Genna vin minn og svo var ég að klára plönin með Dan, sem ætlar með mér til Las Vegas. Verð að segja að ég er að deyja úr spenningi. Þarf bara að klára tvo stress daga í viðbót og svo er þetta komið. Jibbí!

Ég er viðbjóðslega þunnur.


Þetta er allt þessu bévítans freyðivíni, sem ég drakk í gær, að kenna. Þvílíkt hörmungarástand, sem er búið að vera á mér í allan dag.

En nenni ekki þessu væli… Var í brúðkaupi hjá Borgþóri og Björk, vinum mínum, í gærkvöldi. Þar var nóg af léttvíni og ég varð frekar fullur. Hélt ræðu fyrir hönd vinanna. Vegna þess að við sýndum líka myndband þurftum ég að bíða með að halda ræðuna þangað til að sólin settist, til að hægt væri að horfa á myndbandið. Það varð til þess að ég var kominn veeeel í glas þegar ég hélt ræðuna. Ræðan var blaðlaus, hafði hripað nokkra punkta á blað, sem ég kíkti á. Hún var víst of löng og ég endurtók víst einhverja hluti nokkuð oft. En ég meina hei.

En brúðkaupið var frábært, þrátt fyrir að minnið sé að bjaga mig all svakalega í dag. Fór og keypti ís í þeirri barnalegu trú að ís myndi laga allt. Það hefur hins vegar ekki gerst. Öðru nær.


Mér finnst þessi [vefsíða fyndin](http://www.conservativematch.com/). Þetta er match-making síða fyrir íhaldsmenn. Sá auglýsingu fyrir þetta á Metafilter.

Ég setti reyndar einu sinni fram þá kenningu að hægri sinnaðar stelpur væri sætari en vinstri sinnaðar. Það hefur svo sem ekki verið vísindalega sannað, en held að það sé nokkuð til í þessu. Efast þó um að það sé sniðugt að leita sér að maka byggt á stjórnmálaskoðunum einsog þetta fólk virðist gera.


Úff, tveir dagar í afmælið mitt og vika þangað til að ég fer í frí til USA. Get ekki beðið.

Áætlanagerð á svölunum

Ef ég myndi reyna alveg ofboðslega mikið, þá gæti ég alveg vanist þessu veðri, sem hefur verið síðustu tvo daga á Íslandi.

Ég gafst uppí vinnunni um tvö leytið, enda var hitinn alltof mikill.

Er núna kominn heim og sit útá svölum með kokteil og ljóshærða gellu mér við hlið fartölvu og stunda áætlanagerð af miklu kappi. Þarf að skila af mér gríðarlega hressandi áætlun fyrir morgundaginn. Jedúddamía hvað það er gaman að leika sér í Excel í nokkra klukkutíma. Skrítið að ég hafi aldrei viljað vinna í banka.

Biðraða-kjaftæði

Ok, nú er nóg komið. Þessari geðveiki verður að linna!

Ég fór ásamt vini mínum og kærustu hans á [Vegamót](http://www.vegamot.is) í gær. Ég og vinur minn vorum bara rólegir, höfðum hangið heima hjá mér um kvöldið og vorum mættir á Vegamót um 1.30.

Þar var biðröð, einsog við var að búast enda er nánast alltaf biðröð fyrir utan Vegamót. Fyrir utan Vegamót, líkt og t.d. [Hverfisbarinn](http://www.hverfisbarinn.is/) eru tvær biðraðir. Önnur vanalega löng, hin stutt. Á Hverfis er þetta kallað “VIP” röð, og ég geri ráð fyrir að svo sé líka á Vegamótum. VIP á ensku stendur fyrir “Very Important Person”. Ég hef ýmislegt á móti þessum “VIP” biðröðum, en fyrst að sögunni.

Allavegana, við förum í biðröðina. Við vorum öll frekar róleg og smám saman færðumst við nær staðnum. Þegar við erum komin uppað hurðinni stoppar biðröðin hins vegar enda staðurinn fullur. Við bíðum í smá tíma. Í hina biðröðina (“VIP” röðina) kemur hins vegar hópur af stelpum. Sennilega ekki mikið eldri en 16 ára (á Vegamótum er 22 ára aldurstakmark). Þær voru 10 saman.

Þær byrja strax að væla í dyravörðunum. Vildu fá að komast inn á staðinn án þess að þurfa að bíða í biðröð. Þær halda áfram að röfla og reyna að daðra við dyravörðinn. Ekkert gengur, en allt í einu opnast hliðið á VIP röðinni og þeim er öllum hleypt inn.

Þannig að eftir 5 mínútna röfl var þeim hleypt inn, *aðeins af því að þær fóru í VIP röðina*. Þær þekktu ENGAN, þær voru ekki frægar, og voru ólíklegar til að eyða einni krónu inná þessum skemmtistað.

Nú skal ég játa það að ein af ástæðum þess að ég sæki Vegamót er sú að þar er alveg með ólíkindum mikið af sætum stelpum. Í hópnum voru vissulega sætar stelpur. En í biðröðinni fyrir aftan okkur var líka heill haugur af sætum stelpum. Þær stelpur ákváðu hins vegar að fara í rétta röð og taka lífininu rólega. Fyrir það var þeim verðlaunað með að þær fengu að hanga 20 mínútum lengur en stelpurnar, sem röfluðu í “VIP” röðinni.

**Er eitthvað vit í þessu?**

Við komumst á endanum inn, um 10 mínútum á eftir gelgjunum. Inná staðnum var mjög fínt. Ótrúlega sætar stelpur einsog vanalega og frábær tónlist. Sá stelpu, sem ég er pínu skotinn í (VÁ hvað hún var sæt!) en þorði ekki að segja neitt. Þetta græðir maður á því að fara nánast bláedrú á djammið. 🙂
Continue reading Biðraða-kjaftæði

Haldið norður

Verslunarmannahelgi og ég er á leiðinni norður á land með vinum. Vonandi verður það jafn skemmtilegt og margar fyrri ferðir mínar til höfuðstaðar Norðurlands og nágrennis.

Því verður þessi síða ekki uppfærð næstu daga en Kristján mun halda [Liverpool blogginu](https://www.eoe.is/liverpool/) líflegu næstu daga.

Íslenskir karlmenn og strípur

Í morgun setti ég fram kenningu á síðunni hennar [katrínar](http://www.katrin.is/?nid=4405), sem ég hef lengi verið að velta fyrir mér. Það er sú kenning mín að allir íslenskir karlmenn séu með strípur.

Ég henti þessu fram, en ákvað svo eftir smá umhugsun að slípa kenninguna aðeins til. Úr varð eftirfarandi kenning: “3/4 ljóshærðra karlmanna á Íslandi eru með strípur”.

Þetta virðist kannski ekki vera byltingarkennd kenning, en samt er þetta mögnuð kenning. Ég hangi eyði mínum tíma kannski bara á svona fáránlegum stöðum, en það er ekki lengur fyndið hversu margir ljóshærðir karlmenn á Íslandi eru með ljósar strípur. Eru allir að reyna að líkjast Eið Smára, eða er þetta eitthvað annað?

Nú hef ég ekki verið með strípur síðan ég var í Verzló (í þeim skóla var hárið mitt, nánast án undantekninga, hræðilegt. Annaðhvort sökum síddar eða hræðilegs háralits) en hætti því þegar ég fór til Bandaríkjanna, enda var maður nánast litinn hornauga ef maður setti gel í hárið í háskólanum mínum. Allir voru svo ofboðslega líbó á því að maður skar sig úr ef maður greiddi sér á morgnana. Hefði ég verið með strípur þar, hefði ég sennilega verið rekinn úr skólanum.


Æi, voðalega er þetta eitthvað losaraleg færsla. Ætli þetta sé ekki bara prelude að nýrri færslu um hárið á mér, þar sem ég hef ekki skrifað um það í langan tíma (fyrir nýja lesendur, þá má fræðast um hárið mitt með að lesa þessar færslur: [1](https://www.eoe.is/gamalt/2003/07/14/21.39.09/), [2](https://www.eoe.is/gamalt/2004/01/04/13.25.11/) og [3](https://www.eoe.is/gamalt/2004/01/13/00.06.24/)).

Það hefur nefnilega margt breyst síðan ég skrifaði síðast. Ég hef nefnilega ekki verið með síðara hár í mörg ár (með sítt að aftan og allt). Ég veit að lesendur iða í skinninu eftir því að lesa um hvernig það hefur breyst síðustu vikurnar. Það verður hins vegar að bíða. Í stað ætla ég bara að benda á hvað [Biblían](http://www.amazon.com/exec/obidos/tg/detail/-/1573227633/ref=sib_rdr_dp/002-1934317-6236015?%5Fencoding=UTF8&no=283155&me=ATVPDKIKX0DER&st=books) segir um þetta allt:

>No man should dye his hair

Þar segir líka:

>Fleece is for exercising and snow-shoveling and-let us not forget-is manufatured from recycled soda bottles.

Já, og þetta:

>Hats will make a comeback someday.
It is not that day

Mikil speki.

Og þetta er að öllum líkindum sundurleitasta færslan á þessari síðu í marga mánuði. Er þetta þreyta, Popplagið með Sigur Rós eða eitthvað verra? Ég veit nefnilega varla hvað ég á að skrifa á þessa síðu lengur. Mig er farið að hlakka Ég hlakka til helgarinnar.

Steggjapartí

Var í steggjapartíi í gær. Það var æði.

Við vinirnir vorum búnir að skipuleggja þetta steggjapartí fyrir Borgþór vin okkar nokkuð lengi. Ég asnaðist til að trúa veðurspánni, en það var búið að spá skýjuðu veðri fyrir laugardaginn alla vikuna. Veðrið í gær var hins vegar með ólíkindum gott.

Við fórum með stegginn í listflug, sjóstangveiði, fótbolta og sund. Veðrið var æði allan daginn og við vorum allir brunnir í andlitunum, enda úti allan daginn. Við kíktum svo í bæinn og enduðum á Hverfis. Eftir að hafa andað að mér reykmettuðu loftinu á barnum fattaði ég að ég var talsvert drukknari en ég hafði haldið og ákvað því að rölta heim í Vesturbæinn. Það er eitthvað mikið að þegar ég nenni ekki að vera lengur í bænum.


Ég hef oft verið hressari en ég var í morgun. Ef það er eitthvað verra en að vakna þunnur, þá er það að vakna þunnur í íbúð fullri af drasli og tómum bjórdósum. Fékk hjálp við að þrífa og nú lítur þetta allt betur út.

Nú stefnir allt í það að innan mánaðar verði fjórir af mínum bestu vinum giftir. Það er helvíti magnað.