Ég er viðbjóðslega þunnur.


Þetta er allt þessu bévítans freyðivíni, sem ég drakk í gær, að kenna. Þvílíkt hörmungarástand, sem er búið að vera á mér í allan dag.

En nenni ekki þessu væli… Var í brúðkaupi hjá Borgþóri og Björk, vinum mínum, í gærkvöldi. Þar var nóg af léttvíni og ég varð frekar fullur. Hélt ræðu fyrir hönd vinanna. Vegna þess að við sýndum líka myndband þurftum ég að bíða með að halda ræðuna þangað til að sólin settist, til að hægt væri að horfa á myndbandið. Það varð til þess að ég var kominn veeeel í glas þegar ég hélt ræðuna. Ræðan var blaðlaus, hafði hripað nokkra punkta á blað, sem ég kíkti á. Hún var víst of löng og ég endurtók víst einhverja hluti nokkuð oft. En ég meina hei.

En brúðkaupið var frábært, þrátt fyrir að minnið sé að bjaga mig all svakalega í dag. Fór og keypti ís í þeirri barnalegu trú að ís myndi laga allt. Það hefur hins vegar ekki gerst. Öðru nær.


Mér finnst þessi [vefsíða fyndin](http://www.conservativematch.com/). Þetta er match-making síða fyrir íhaldsmenn. Sá auglýsingu fyrir þetta á Metafilter.

Ég setti reyndar einu sinni fram þá kenningu að hægri sinnaðar stelpur væri sætari en vinstri sinnaðar. Það hefur svo sem ekki verið vísindalega sannað, en held að það sé nokkuð til í þessu. Efast þó um að það sé sniðugt að leita sér að maka byggt á stjórnmálaskoðunum einsog þetta fólk virðist gera.


Úff, tveir dagar í afmælið mitt og vika þangað til að ég fer í frí til USA. Get ekki beðið.