Kvöld á Hverfisbarnum

Ég held að ég og vinir mínir hafi örugglega sett Íslandsmet í viðveru á skemmtistað í gærkvöldi. Eftir að við höfðum borðað á Ítalíu vorum við mættir á Hverfisbarinn klukkan 9. Þar vorum við (eða að minnsta kosti ég) til klukkan 5. Það þýðir að ég var inná Hverfisbarnum í ÁTTA klukkutíma. Geri aðrir betur.

Þetta var frábært kvöld. Reyndar þá eyddi ég dágóðum tíma í að tala um fyrrverandi kærustu mína og heillöngum tíma í að dansa við aðra fyrrverandi kærustu. Sem er ekki sniðugt fyrir mann einsog mig í stelpuleit. En reyndar var fyrrverandi kærastan sætasta stelpan á staðnum.

Það er ýmislegt, sem maður kemst að þegar maður er svona lengi á staðnum. Til að mynda það að Señorita, Mess It Up og Rock Your Body eru spiluð 4 sinnum (að minnsta kosti, þar sem ég var ekki til lokunnar) á einu kvöldi. Ég held að Señorita hafi meira að segja einu sinni verið spilað tvisvar á sama klukkutímanum. Ok, ég fíla Justin náttúrulega en öllu má nú ofgera.


Getur einhver bent þessum klámsíðum á að hætta að senda mér spam á Hotmail reikninginn minn? Opnar virkilega einhver email með fyrirsögninni Farm Girls G0ne W1ld With Animals.


Já, og þessi færsla hjá Katrínu er æði. Ég ætla líka að fá að herma og gera svona lista. Upprunalegi listinn hjá Kristínu, sem Katrín stal hugmyndinni frá, er líka mjöög skemmtilegur.


Playlisti fyrir sunnudagskvöld:

I’ve Got a Feeling – Bítlarnir
Mary Jane – Alanis Morrisette
Still Fighting It – Ben Folds
Strangers in the Night – Frank Sinatra
True Love Waits – Radiohead


Ég breytti aðeins “Ég er” síðunni minni. Bætti inn MSN og AIM nöfnunum mínum.

Mér líður vel í dag.

Á næturvakt

Vegna misskilnings, þá mætti einn starfsmaður ekki á næturvakt á Serrano í Hafnarstræti og þar sem Emil var kominn í glas þurfti ég að redda málunum. Þannig að kvöldið, sem átti að fara í andlegan undirbúning fyrir Liverpool-Arsenal varð aðeins viðburðarríkara.

Það er sumt gaman við að vera á næturvakt, en vanalega á ég erfitt með að höndla þær vaktir. Einfaldlega vegna þess að ég tek alla gagnrýni eða kvartanir á staðinn mjög inná mig. Ég stressast allur upp þegar einhver byrjar að kvarta. Og drukkið fólk kvartar mjög mikið útaf minnstu hlutum. 🙂

Allavegana, þá var ekkert vesen í gær. Hins vegar var vaktin mjög fyndin í samhengi við stelpufærsluna mína síðustu. Málið var að þarna kom stelpa utanaf landi og byrjaði ég eitthvað að spjalla við hana. Þá kom í ljós að hún var 18 ára gömul og trúlofuð! Mér fannst þetta einstaklega fyndið, sérstaklega í ljósi þessa komments frá Tryggva. Þegar ég spurði hana nánar útí þetta virtist hún ekki hafa hugmynd um það af hverju hún væri trúlofuð.


Annars losnaði ég af vaktinni um klukkan tvö og fór heim og horfði á síðustu loturnar í Cubs-Atlanta Braves, sem Cubs unnu 3-1 og þurfa þeir nú bara að vinna annan af síðustu tveim leikjunum til að komast áfram. Mark Prior er Guð!

Já, og mikið andskoti getur fótbolti verið ósanngjörn íþrótt! Ekki nóg með það að Liverpool tapi leik, þar sem þeir voru betri aðilinn nær allan tímann, heldur meiðist uppáhaldsleikmaðurinn minn! Er ekki bara kominn tími á að Diouf, Gerrard, Dudek og Kewell meiðist? Þeir hljóta að vera næstir.

Æji, annars það er laugardagur. Læt ósigurinn ekki hafa áhrif á mig. Djamm í kvöld. Gaman gaman! 🙂

Eru allar stelpur á Íslandi á föstu?

Að undanförnu hef ég lent í samræðum við nokkrar mismunandi manneskjur um sama hlutinn. Nefnilega: “Eru allar stelpur á Íslandi á föstu?”

Einhver hugsar nú með sér: “Bull og vitleysa er þetta í Einari, hann er bara svona óheppinn að hann finnur ekki allar gellurnar, sem eru á lausu”. Það má vel vera, en ég ætla að færa rök fyrir því að allar stelpur á Íslandi séu á föstu.


  1. Þegar ég fór á Ungfrú Ísland keppnina síðastliðið vor, fylgdi með miðanum mínum ágætis bæklingur um keppendurna. Þrátt fyrir að ég hafi nú verið með stelpu á þeim tíma, þá fór ég að forvitnast um það hver af keppendunum væri nú á lausu. Ég verð að játa það að ég fékk smá sjokk.

    14 af 21 keppenda var á föstu! Semsagt, í litlum hópi af myndarlegum stelpum á aldrinum 18 til 20 ára áttu 67% þeirra unnusta. Reyndar var lang-sætasta stelpan, Helena Eufemía á lausu, þannig að kannski er einhver von enn í þessum heimi.

    Ég nefndi það við systir mína, sem er félagsfræðingur, að það væri athyglisvert að kanna það á milli landa hversu stórt hlutfall af þáttakendum í fegurðarasamkeppni viðkomandi landa er á föstu. Ég efast um að mörg lönd myndu toppa Ísland.

  2. Allir vinir mínir eru á föstu. Og þá meina ég allir! Ég á kannski kunningja, sem eru á lausu, en allir mínir góðu vinir eru á föstu. Þetta er í hróplegu ósamræmi við mína bestu vini útí Bandaríkjunum. Þar eru allir á lausu. Þrátt fyrir það er þetta ekki ólíkt fólk. Flestir vinir mínir í báðum löndum hafa svipað menntunarstig, eru á svipuðum aldri, finnst gaman að djamma, og svo framvegis. Ég get ekki fundið neinn stórtækan mun á fólkinu. Hvernig stendur þá á því að allir íslensku vinir mínir eru á föstu?
  3. Ég hef ítrekað lent í því að reyna við stelpur á skemmtistöðum, sem eru á föstu (nota bene, ég kemst aldrei að því fyrr en eftir laaangan tíma). Síðasta kærastan mín var m.a.s. með strák fyrst þegar við hittumst. Þetta er gengið svo langt að ég er nánast sannfærður um að allar sætar stelpur á skemmtistöðum borgarinnar séu á föstu. Í raun er ég oft svo sannfærður að ég þori varla að reyna við stelpur vegna sannfæringar minnar um að þær séu allar á föstu. Hugsanleg lausn á þessu væri að merkja sérstaklega allar stelpur, sem eru á föstu, einsog ég hef áður lagt til.
  4. Í Bandaríkjunum voru allir steinhissa á því að ég væri í langtímasambandi þegar ég var 25 ára. Á Íslandi eru allir steinhissa á því að ég sé á lausu nú ári síðar.

    Í flestum öðrum löndum myndi 26 ára karlmaður vera talinn á besta aldri og hann væri sennilega alltaf að djamma með hinum “single” vinum sínum. Síðan myndi hann flækjast í og úr samböndum næstu 5-6 árin, svo finna einhverja stelpu þegar hann væri um þrítugt og gifta sig 35 ára.

    Á Íslandi virðast hins vegar margir halda að maður sé alveg einstaklega óheppinn að vera ekki kominn í langtíma samband þegar maður er 22 ára.

    Ég tel að þetta sé dálítið óheppilegt. Fyrst og fremst vegna þess að samfélagið þrýstir á að allir krakkar finni sér maka og séu komin með eigin íbúð, bíl og 90% lán þegar þau eru orðin 25 ára. Ég vil meira að segja halda því fram að margir haldi áfram í óhamingjusömum samböndum, bara af því að allir aðrir séu á föstu. Fólk er hrætt við að þurfa að viðurkenna að sambúð hafi ekki virkað og því haldi það áfram í óhamingjusömum samböndum.

    Erlendis gefur fólk sér betra tækifæri til að kynnast og búa á sitthvorum staðnum. Á Íslandi þarf fólk að flytja saman helst innan nokkurra mánuða.


Á “Ég er” síðunni minni setti ég nýlega í gríni inn klausu neðst, sem les: “Ef þú vilt koma einhverju á framfæri við mig, eða ert ýkt sæt stelpa á aldrinum 18-25 og á lausu, endilega sendu mér tölvupóst.”

Fyrir þessa klausu var ráðist á mig á reunion-i Verzlunarskólanema í síðasta mánuði. Ein ágæt stelpa hélt því þar fram að ég ætti ekki að takmarka mig við 18-25, þar sem ég væri nú einu sinni orðinn 26 ára. Ekki nóg með það, heldur vildi hún að ég myndi opna hug minn fyrir eldri konum og ætti því að vera að leita að konum á milli 18-30 ára. Ég hélt því þá fram við hana að það væri engin 26 ára stelpa á lausu á þessu landi. Meira að segja væri engin 20 ára stelpa á lausu. Við þessari fullyrðingu átti hún fá svör en hún og vinkonur hennar héldu samt áfram að kalla mig öllum illum nöfnum.

Eflaust eru einhverjar 25 ára gamlar stelpur á lausu. Það er hins vegar óhóflegur þrýstingur á þær stelpur á að vera í sambandi. Ég þekki til að mynda eina stelpu, sem ég er nokkuð viss um að sé í óhamingjusömu sambandi, sem heldur áfram í sambandinu af því að hún er hrædd við að vera single aftur. Það er nefnilega ekkert voðalega fínt að vera 25 ára stelpa á lausu á Íslandi í dag.

Sem er náttúrulega fáránlegt, því þetta er alveg pottþéttur aldur. Í hvaða vestrænni stórborg sem er, þætti þetta fullkomlega eðlilegur aldur fyrir stelpu til að vera ennþá að vera flakkandi á milli sambanda. En ekki á Íslandi.


En af öllu þessu sögðu, þá er ég samt kominn með leið á því að vera single. Stór hluti af því er náttúrulega þrýstingur frá umhverfinu. Allir aðrir eru á föstu. Einhvern veginn búast allir við að ég ætti að vera á föstu líka. Það er oft frábært að vera single, en gljáinn fer aðeins af því þegar maður er einn á djammi með tveimur hjónum, sem fara heim klukkan 3. 🙂

Niðurrifsstarfsemi

Núna er niðurrifsstarfsemin að hefjast. Ég er kominn á hlýrabolinn, með kúbeinið í hönd.

Er hægt að hlusta á eitthvað annað lag en Break Stuff með Limp Bizkit akkúrat núna. Ég veit samt ekki alveg hvort nágrannarnir verða sáttir við samhljóm brotnandi parkets og öskrandi Fred Durst.

Nú má þetta helvítis parket fara að vara sig!!

Bæ bæ geisladiskar

Í tengslum við nýja parketið, sem ég ætla að setja á íbúðina, hef ég verið í brjáluðu tiltektarstuði í dag. Ég erfði nefnilega þann ágæta kost frá pabba mínum, að eiga auðvelt með að henda hlutum.

Partur af þessum hreingerningum var sú merkilega ákvörðun mín að pakka öllum geisladiskunum mínum (sem eru alveg fáránlega margir) oní kassa og svo niður í geymslu. Ég hef nefnilega varla hlustað á geisladisk í meira en ár. Öll tónlistin, sem ég á, er komin á Makkann minn í bestu gæðum og ég nenni ekki að hlusta á geisladiska lengur. Núna hlusta ég bara á tónlist í gegnum iTunes, sem er besta forrit í heimi. Í heimi, segi ég og skrifa!! Ég er svo með snúru fram í stofu, þar sem tölvan er tengd við græjurnar í stofunni. Svo er hægt að nota símann minn sem fjarstýringu. Alger snilld.

Ég held meira að segja að sumir nýjustu diskarnir mínir hafi aldrei verið spilaðir í geislaspilara. Um leið og ég keypti þá setti ég þá beint í tölvuna og breytti þeim í AAC skrár. Síðan fóru diskarnir uppí hillu, þar sem þeir tóku óþarfa pláss.

iTunes tónlistarsafnið mitt er núna orðið alveg fáránlega stórt, alls um 16.900 lög, sem eru samkvæmt forritinu 47 dagar af tónlist! Áður fyrr reyndi ég alltaf að hafa geisladiskana mína í röð og reglu en ég hafði fyrir löngu gefist upp á því.

Núna er hins vegar allt í röð og reglu í iTunes og forritið heldur m.a.s. utan um það hvaða lag ég hef hlustað oftast á (Last Goodbye með Jeff Buckley, 41 skipti). Reyndar er sú tölfræði aðeins rúmlega hálfs árs gömul en verður sennilega mun áhugaverðari í framtíðinni. Mér þætti til dæmis gaman að vita hvað ég hef hlustað oft á Wonderwall, Comfortably Numb, One Day með The Verve og fleiri lög, sem ég hef hlustað alltof oft á í gegnum tíðina.

Parket Nasistinn

Ég er ennþá brosandi eftir baseball úrslit gærdagsins. Byrjaði daginn í dag á því að horfa á fagnaðarlætin aftur. Ég veit ekki hvort það er eitthvað að mér, en ég táraðist við að horfa og hlusta á fagnaðarlætin. Hmmm… Kannski tek ég íþróttir of alvarlega.

Allavegana, þá er ég það ánægður að mér var bara drullusama þótt Liverpool hefði tapað. Það hefur aldrei gerst áður. Ég er búinn að komast að þeirri niðurstöðu að Emile Heskey er anti-kristur, sendur af illum máttarvöldum til að fara óheyrilega í taugarnar á mér.


Annars er ég búinn að finna mér parket, sem ég ætla að leggja á íbúðina. Málið er að svalahurðin fauk upp meðan ég var í Rússlandi og það rigndi inná parketið, svo það er í rúst. Það er nokkuð skemmtileg tilfinning að vita til þess að parketið sé að fara. Ég hef til dæmis mjög gaman að því þessa dagana að draga húsgögn eftir parketinu, helst á þann hátt að þau rispi það sem allra mest.

Ég er hins vegar viss um að ég mun breytast í algeran parket nasista þegar nýja parketið verður komið á. Mun breytast í geðveikt tense típu, sem mun fríka út þegar fyrsta rispan kemur á nýja parketið. Banna öllum að vera í skónum inni og hundskamma þá, sem verða ekki við þeim tilmælum.


Í gær fór ég á djammið með tveimur hjónum! Ekki nóg með það, heldur var ég elsti maðurinn í hópnum. Er ég að verða gamall? Neibbs! Meira um það síðar.

Er til leiðinlegra sjónvarpsefni en þessi blessaði Formúla 1 kappakstur? Ég leyfi mér að efast um það.

It feels like something's heating up

Það virðist vera standard á djamminu að það er ávallt einhver stelpa, sem lætur það fara alveg óheyrilega í taugarnar á sér að ég rekist óvart í hana á dansgólfinu. Þetta hefur að ég held gerst þrjú síðustu skiptin, sem ég hef farið á Hverfisbarinn, nú síðast í gærkvöldi. Magnað að sumt fólk skuli vera í vondu skapi á djamminu, en ég skemmti mér samt meiriháttar vel. Hey, ég þarf mitt pláss þegar það er verið að spila Justin 🙂

Úff, Cubs spila tvo leiki í dag við Pittsburg. Ég er að deyja úr spennu!! Þeir eru í efsta sæti og eiga 3 leiki eftir, svo þeim dugar að vinna þá.

By the way, hvað varð um Ágúst Fl.? Trúi ekki að hann sé hættur líkt og Svansson.

Röndótt djamm

Er það bara ég, eða er röndótt í tísku?

Af einhverjum ástæðum finnst mér voðalega gaman að fletta í gegnum myndasöfn skemmtistaðanna eftir helgar. Ég veit ekki alveg hvað það er sem höfðar til mín.

Jú, það er gaman að skoða sætar stelpur, en þær eru flestar frekar fullar, svo myndirnar eru oft ekkert alltof góðar. Svo virðast ljósmyndarar sumra staða reyna að taka myndir án þess að neinn sjái. Þannig að fólk verður alltaf ýkt asnalegt og hissa á myndunum.

Og svo skoðar maður þetta líka til að sjá hvort stelpur (eða stelpan), sem maður er skotinn í, voru á djamminu og þá getur maður svekkt sig yfir því að hafa verið á vitlausum stað.

Myndirnar eru líka afskaplega villandi. Til dæmis eru alltaf sætustu stelpurnar á þessum myndum á Vegamótum. Það finnst mér hins vegar ekki vera raunin þegar ég er á staðnum. Fyrir því geta verið 3 ástæður:

  1. Sætu stelpurnar eru ekki þarna þegar ég er á staðnum
  2. Ljósmyndarinn á Vegamótum er betri í að finna fallegar stelpur en ljósmyndarar annarra skemmtistaða.
  3. Það er alltaf svo troðið á Vegamótum að maður sér aldrei lengra en á manneskjuna, sem er beint framan í andlitinu á manni.

Ég aðhyllist aðallega kenningu 3.

Er það óeðlilegt að hlakka til næstu helgar strax á mánudagskvöldi??

Flugur

Ég hef einhvern tímann minnst á það en mér líður sjaldan jafn skringilega og á sunnudagskvöldum eftir að ég er búinn að ná þynnkunni úr líkamanum.

Einhvern veginn virðast allar tilfinningar, áhyggjur, gleði og svo framvegis margfaldast. Dálítið skrítin tilfinning. Mér langar svo oft að skrifa eitthvað stórkostlegt um líf mitt, reyna að fanga einhvern veginn hvernig mér líður. Það er sennilega ástæðan fyrir því að ég skrifa alltaf langmest í persónulegu dagbókina mína á sunnudagskvöldum.


Annars var ég í geðveikt skemmtilegu partíi í gær. Með skemmtilegri partíum í nokkurn tíma. Ein af ástæðunum var sennilega sú að við ákváðum nokkuð snemma að fara ekki niður í bæ og því var ég fullkomlega sáttur við að vera bara í partíinu allt kvöldið. Málið er nefnilega að þegar maður er síngúl einsog ég er, þá finnst manni maður alltaf þurfa að kíkja í bæinn.

En allavegana, þetta var tvöfalt afmæli haldið í Kópavoginum og var alveg hellingur af skemmtilegu fólki. Enginn var þó skemmtilegri en eldra afmælisbarnið, sem fór gjörsamlega á kostum, sérstaklega þegar tók að líða á partíið.

Mjög gaman að þá komst ég að því að Justin Timberlake er orðinn mun vinsælli meðal fólks á mínum aldri en ég hélt. PR viðurkenndi m.a. að hann væri aðdáandi. Dálítið fyndið að við tveir, sem höfum (að okkar mati) verið þekktir fyrir vandaðan tónlistarsmekk skulum hafa verið mest áberandi JT aðdáendurir á staðnum. 🙂


Já, og það er alveg nauðsynlegt að hlusta á Galapogos að minnsta kosti einu sinni á sunnudagskvöldum. Ég hlustaði á það á iPodinum mínum á meðan ég labbaði útá Snæland að leigja mér DVD disk áðan og var með gæsahúð nær allt lagið. Æðislegt lag.


Ef þessar tvær húsflugur, sem hafa verið að gera mig geðveikan undanfarna daga, lesa þetta blogg þá vil ég segja ykkur eitt.

Varið ykkur! Þið munið eiga von á hroðalegum dauðdaga um leið og ég næ ykkur. Þið getið ekki flúið endalaust!!

Vekjaraklukka

Ef þig vantar góða vekjaraklukku til að sjá til þess að þú fáir aldrei að sofa út um helgar þá geturðu gert tvennt: 1. Eignast barn eða 2. Stofnað skyndibitastað.

Starfsfólk skyndibitastaðarins mun nefnilega sjá til þess að þú fáir alltaf skemmtileg símtöl snemma á laugardagsmorgnum um að það vanti lykla, hráefni eða eitthvað annað. En annars, þá er það pínku ljúft að vakna svona snemma á laugardegi, sérstaklega þegar veðrið er svona leiðinlegt. Er búinn að lesa fullt af Moggum frá því í síðustu viku yfir morgunmatnum.


Annars hefur sá merkisatburður í mínu lífi gerst að mér hefur tekist að halda íbúðinni tandurhreinni í heila viku, alveg síðan ég hélt fjölskylduboð hérna á sunnudaginn. Á þessari viku hafa ekki safnast saman fatahaugar, né haugar af óhreinum diskum. Ég hef alltaf gengið frá Weetabixinu inní skáp eftir notkun og svo hef ég tekið upp sóp tvisvar í vikunni. Ég er viss um að mamma myndi tárast af gleði ef hún myndi lesa þessa færslu.

Mikið er ég ánægður með Djibril Cisse. Það er sko fótboltakappi að mínu skapi.

Já, og þetta er gott blogg.