11. september

Dagurinn í dag er nokkuð merkilegur. Í fyrsta lagi, þá eru liðin 29 ár síðan illmennið Agusto Pinochet rændi völdum í Chile. Svo á Elizabeth vinkona mín 21. árs afmæli. Síðan þá er eitt ár liðið frá því að ég setti met í uppfærslum á þessari síðu, þegar ég setti inn þrettán færslur (sjá 11.sept og 12.sept, sem er sami dagurinn á USA tíma).

Annars þá skrifaði ég aðeins um mína upplifun á 11. september og atburðunum þann dag í þessari færslu.

Ég man bara að á þessum degi þá fannst mér ég vera mikill bandaríkjamaður í mér. Mér fannst einsog þetta væri árás á mitt land og ég átti erfitt með að finna eitthvað að utanríkisstefnu landsins. Ég var einnig gríðarlega reiður þeim vefritum, sem byrjuðu á því að kenna utanríkisstefnu Bandaríkjanna um þennan atburð.

Ég hef reyndar fátt að segja núna ári seinna. Ég vona bara að dagurinn framundan verði ánægjulegri en 11. september fyrir einu ári.

Flutningar

Mikið er búið að ganga á í lífi mínu í dag. Kannski einna merkilegast er að íbúðin mín á Hagamelnum er nú loksins laus og því er ég að fara að flytja á morgun.

Því er ég búinn að vera að pakka niður dótinu mínu hérna í Garðabænum. Reyndar var ég búinn að pakka mest öllu dótinu um jólin og því er ekki mikið eftir. Með flutningunum á morgun verð ég því búinn að flytja þrisvar á síðustu tveim mánuðum. Það verður eflaust góð tilfinning að vera loksins kominn á varanlegan stað, svo ég geti loksins tekið uppúr öllum kössunum mínum.

Bæ bæ Bandaríkin

Á síðustu dögunum mínum í Bandaríkjunum tók ég saman lista yfir það, sem ég vissi að ég myndi sakna. Mér tókst aldrei almennilega að klára listann og uppúr þessu, þá held ég að ég muni aldrei nenna því.

Þannig að ég birti hérna bara það, sem ég var kominn með, ef einhver skyldi hafa áhuga.

Ég veit að ég á eftir að sakna:

Vina minna
Skólans míns
Chicago
Evanston
Chicago Cubs
Chicago Bulls
Northwestern Wildcats
Chicago Bears
tailgating
The Daily Show
ESPN
CPK
Olive Mountain
Potbelly
Starbucks
Dunkin’ Donuts
Bud Light

Ahhh, djamm á Íslandi

Ég átti afmæli í gær og er ég núna orðinn 25 ára gamall. Í tilefni dagsins var ég með partí hérna í Garðabænum. Þetta verður ábyggilega eitt af síðustu partíjunum, sem ég held hér í foreldrahúsum enda er ég búinn að kaupa mér íbúð, sem ég flyt í í byrjun október.

Allavegana, þá var partíið mjög skemmtilegt. Allir mættu um 9 leytið, sem var mjög skrítið, þar sem vinir mínir hafa ekki verið þekktir fyrir það að vera stundvísir. Svo var farið í bæinn um eitt leytið. Ég fór með nokkrum krökkum á Hverfisbarinn. Þar reddaði Gunnar Narfi okkur inn, fram fyrir langa röð. Það er greinilegt að vinir mínir eru með eindæmum sjóaðir í næturlífinu, því Emil tókst að koma okkur fram fyrir röð á Nasa um síðustu helgi.

Allavegana, þá var ég að fara í fyrsta skipti á þennan stað og líkaði mér bara nokkuð vel. Hitti eitthvað af fólki, og meðal annars engan annan en Gumma Jóh. Hann er náttúrulega svo frægur í Blogg heimum að manni leið einsog maður væri að hitta Björgvin Halldórs.

Kvöldið endaði svo á stórskemmtilegan hátt, það er í leit að leigubíl. Ég blótaði því að vera ekki kominn með nýju íbúðina enda hefði ég þá getað labbað heim. Það var ekki glæta að fá leigubíl og því komst ég ekki heim fyrr en um 6 leytið.

Í morgun las ég svo þessa frétt (via Óla). Samkvæmt henni vilja menn fækka leigubílum í Reykjavík. Ég get ekki gert annað en hrósa mönnum fyrir tímasetninguna. Það er mjög líklegt að fólk fagni fækkun leigubíla daginn eftir menningarnótt.

Aðlögun

Ég er í stökustu vandræðum með að ákveða hvað ég á að skrifa nú þegar ég er fluttur heim. Mér fannst áður sjálfsagt að tjá mig um allt, sem ég var að gera. Núna þegar ég er kominn heim finnst mér þetta allt vera miklu meira prívat mál og ég er hræddur um að vera að tala um fólk, sem ég ætti kannski ekki að tala um. Eða að skrifa um atburði, sem ég mun kannski sjá eftir.

Allavegana, þá ætla ég að halda áfram að halda einhvern veginn dagbók á síðunni. Ég held þó að þetta muni færast meira út í skrif um stjórnmál. Það er erfitt fyrir mig að vita hvað fólk, sem sækir síðuna, vill lesa. Kannski er fólk bara hérna af því að það rakst inn í smá stund og nennir svo ekkert að lesa. Ég veit að það eru nokkrar síður á Nagportal, sem ég skoða oft, en nenni svo aldrei að lesa.

Allavegana, þá er ég ennþá að koma mér fyrir hérna heima og hefur það gengið misvel. Ég er búinn að vera eitthvað frekar slappur á kvöldin og ég hundskammast mín fyrir að hafa ekki talað við neina. Það eru meira að segja vinir, sem ég hef ekki hringt í einu sinni eftir að ég kom heim. Ég veit ekki hvað veldur. Það er búið að ganga svo mikið á hjá mér síðustu vikurnar að ég var í hálfgerðu sjokki þegar ég kom heim.

Verslunarmannahelgi

Ég er alltaf í hálfgerðum vandræðum með að skrifa á þessa síðu þegar ég er kominn til Íslands. Það er allt öðruvísi að tala um það, sem maður er að gera, þegar allir, sem ég tala um, geta lesið og skilið það sem er skrifað á síðunni.

Allavegana, þá fór ég um helgina með nokkrum vinum í Skaftafell og var það mjög skemmtileg ferð. Ég tók ekki þátt í vali á staðsetningu en Skaftafell varð víst fyrir valinu vegna þess að veðrið átti að vera best þar. Og eftir að ég sá myndir frá Vestmannaeyjum þá verð ég bara að hrósa stelpunum fyrir gott val. Veðrið var nefnilega bara mjög gott alla helgina. Það rigndi í nokkrar mínútur á meðan við vorum að tjalda en eftir það var frábært veður, logn, sæmilega hlýtt og engin rigning. Reyndar hafa veðurstaðlar mínir farið hríðlækkandi, enda taldi ég fyrir einni viku frábært veður vera sól, 30 stiga hita og logn.

Ég var í bíl með Borgþór og Björk og vorum við komin í Skaftafell um níu leytið og settum niður tjöld, grilluðum og drukkum nokkra bjóra. Þótt ótrúlegt megi virðast þá vorum við alveg látin í friði af landvörðum og öðrum gestum á svæðinu, þrátt fyrir að flestir gestir hafi verið útlendingar og fjölskyldufólk.

Á laugardag fór ég svo með Björk, Borgþóri, Önnu og Gústa í smá túristapakka. Við byrjuðum á því að labba uppað Svartafossi og svo keyrðum við að Jökulsárlóni, sem er án efa einn af fallegustu stöðunum á þessari eyju.

Um kvöldið kom svo fleira fólk: Tinna, Davíð, Jóna og PR. Auk þess höfðu Emil og Ella komið með okkur daginn áður en þau voru þó ekki með í túristapakkanum. Við strákarnir spiluðum þá fótbolta við einhverja litla stráka og gekk það bara ágætlega fyrir utan það að Borgþór rotaði næstum einn strákinn.

Eftir boltann var svo grillað og svo sátum við og drukkum og spjölluðum eitthvað fram eftir nóttu. Fórum reyndar í smá ferð að brennunni en mestallt kvöldið sátum við fyrir framan tjöldin okkar. Á meðan að drykkju stóð bættist svo misskemmtilegt fólk í hópinn en það var svo sem alltílagi.

Í gær sátum við á spjalli eitthvað fram eftir degi en ákváðum loks að drífa okkur í bæinn enda virtist veðrið eitthvað vera að versna.

Ég tók fulltaf myndum og ætla að setja eitthvað af þeim inn hér á síðuna þegar ég get.

Kominn heim.is

Þá er ég kominn aftur heim til Íslands eftir hrikalega leiðinlega flugferð, mikið stress og mjög erfiða kveðjustund.

Ég er ennþá að átta mig á hlutunum og er búinn að tala við mjög fáa, enda var ég hálfruglaður í gær. Ferðin frá Chicago tók um 24 tíma enda þurfti ég að stoppa í 11 tíma í Boston. Vegna þess að skrifstofa Flugleiða opnar ekki fyrr en klukkan 4 á Logan flugvelli þurfti ég að bíða flugvellinum allan daginn í stað þess að fara inní Boston.

Ég nýtti þó tímann ágætlega og kláraði 1984 eftir Orwell, auk þess sem ég las Catcher in the Rye eftir J.D. Salinger. Báðar mjög góðar bækur.

Síðustu dagarnir í Evanston voru erfiðir. Það var erfitt að kveðja alla vinina, því ég veit ekkert hvenær ég sé þá aftur. Það er gallinn við að búa í nýjum löndum að maður skilur alltaf eftir fulltaf góðum vinum, sem maður sér kannski aldrei aftur. Bíllinn minn olli mér líka miklu stressi, því enginn vildi kaupa. Loks síðasta kvöldið hringdi stelpa, sem hafði skoðað hann, og vildi kaupa. Við hittumst um 11 um kvöldið og keypti hún bílinn.

Síðusta kvöldið kvaddi ég svo alla vinina og við Katie fórum útað borða á Wolfgang Puck. Á miðvikudag keyrði Katie mig útá Midway, þar sem ég kvaddi hana og tók síðan flug þaðan til Boston.

Um helgina lítur svo út fyrir það að ég sé á leiðinni í Skaftafell með vinum mínum. Það verður ábbygilega gaman. Verst að það er ekki til Bud Light í Ríkinu. Spurning hvað ég á að kaupa í staðinn…

Síðustu dagarnir

Þá eru aðeins örfáir dagar þangað til að ég á flug heim til Íslands. Síðustu daga er ég búinn að vera á fullu við að reyna að ganga frá mínum málum.

Svo er ég að reyna að borða á öllum uppáhaldsstöðunum mínum í síðasta skipti. Fór í gær á Olive Mountain, sem er uppáhaldsstaðurinn minn hér í Evanston og svo þarf ég að fara einu sinni í viðbót á uppáhaldspizzustaðinn minn, CPK.

Við Katie erum að fara til Winnebago, sem er lítill bær vestur af Chicago, þar sem við ætlum að vera um helgina. Annars vona ég bara að mér takist að redda öllum mínum málum hér en ég á flug til Boston á miðvikudag.

Hermenn og hamborgarar

Síðustu dagar hérna í Evanston eru búnir að vera góðir. Veðrið er frábært og ég er ekkert alltof busy í vefmálum, þannig að ég hef haft mikið af frítíma. Annars fer þessu nú að ljúka og ég er sennilega á leið heim til Íslands í næstu viku.

Helgin var góð. Á föstudaginn vorum við Dan með grillveislu, þar sem Dave og Daria komu ásamt fleira fólki. Dave þessi er nýkominn aftur til Evanston, en hann var með okkur í Northwestern fyrsta árið. Síðustu þrjú ár hefur hann verið í ísraelska hernum. Dave er fæddur í Bandaríkjunum en pabbi hans, sem er mjög trúaður flutti með honum til Ísraels þegar hann var á menntaskólaaldri. Dave ákvað að taka upp tvöfaldan ríkisborgararétt, þrátt fyrir að hann hafi vitað að það myndi þíða að hann gæti þurft að ganga í herinn.

Við spjölluðum aðeins um veru hans í hernum og ástandið í Ísrael, en þær samræður voru þó hálf brenglaðar vegna bjórdrykkju. Dave er nokkuð vinstrisinnaður (hver í ósköpunum er ekki vinstrisinnaður í þessum blessaða skóla) en hann kaus samt Ariel Sharon í síðustu kosningum. Það er dálítið skrítið að tala við hann um þessi málefni, þar sem ég veit augljóslega harla lítið um Ísrael og Palestínu og því erfitt fyrir mig að fara mikinn í röksemdafærslu fyrir palestínsku ríki.

Allavegana, þá var Dave heppinn að vera klár, því honum tókst að mestu að forðast bardaga, því klárari hermenn eru oftast settir í stöður, sem henta þeim betur.

Á laugardaginn gerði ég nú ekki mikið. Við Katie kíktum smá í Old Orchard, sem er verslunarmiðstöð hér rétt hjá og keypti ég mér eitthvað af fötum. Á sunnudag fórum við svo í grillveislu heim til systur Katie, þar sem var boðið uppá hamborgara og steikur og læti. Ég er búinn að borða yfir mig af grilluðum hamborgurum síðustu daga.

Bahamas

Þessar ferðasögur hjá mér eru komnar í algjört rugl. Ég hafði alltaf ætlað að skrifa smá um Bahamas en einhvern veginn gerðist það aldrei.

Allavegana, þá fór ég á sunnudeginum eftir útskrift með mömmu og pabba til Bahamas. Þessi ferð var mjög skemmtileg og róandi eftir allt, sem hafði verið að gerast síðustu daga fyrir ferðina.

Við gistum á fínu hóteli á Cable Beach, sem er á í höfuðborginni Nassau, sem er á New Providence eyjunni. Mestalla vikuna lá ég við sundlaugina, þar sem ég brann og las bækur. Á kvöldin fórum við svo ávallt útað borða á veitingastöðum í nágrenninu og svo var oft kíkt í casino-ið, þó við hefðum verið meira fyrir að fylgjast með öðrum heldur en að eyða okkar eigin pening.

Við kíktum þó einn daginn í sýnisferð um eyjuna, þar sem við fórum um nokkur hverfi í Nassau og svo útá Paradise Island, þar sem Atlantis hótelið er en það er einmitt flottasta hótel, sem ég hef á ævi minni séð.

Bahamas eru merkilegar eyjar. Ferðamannaiðnaðurinn var ekki stór fyrr en að Fidel Castro komst til valda á Kúbu og Bandaríkjamenn settu viðskiptabann á Kúbu. Þegar það gerðist vantaði Bandaríkjamönnum einhvern stað til að eyða peningum, þannig að klárir Kanar fluttu sig yfir á Bahamas, þar sem þeir byggðu fullt af hótelum og spilavítum. Í dag er ferðamannaiðnaðurinn mikilvægasta atvinnugreinin (ásamt því að eyjarnar eru skattaparadís).